„Spennan á heimilinu jókst stöðugt“

Foreldrar geta upplifað sig mjög vanmáttuga gagnvart hegðun barna sinna. …
Foreldrar geta upplifað sig mjög vanmáttuga gagnvart hegðun barna sinna. PMTO-úrræðið hefur virkað vel fyrir marga í þeirri stöðu. Ljósmynd/Thinkstockphotos

„Ég var mjög vanmáttug gagnvart sex ára dóttur minni sem greind hafði verið með ADHD. Við áttum mjög erfið samskipti. Ég vissi ekki hvernig ég gæti orðið hluti af lausninni við uppeldi hennar, spennan á heimilinu jókst stöðugt og heimilislífið gekk erfiðlega fyrir sig.“

Svona lýsir móðir stúlku ástandi sem hún hafði verið að upplifa í tengslum við uppeldi dóttur sinnar þar til henni var bent á PMTO-úrræðið sem er í boði fyrir foreldra með svipaða áskorun.

„Það var félagsþjónustan sem benti mér á þetta úrræði og upplifun mín af þeirri hjálp sem ég hef fengið er mögnuð. Það hefur orðið þvílíkur viðsnúningur okkar á milli. Þetta er algjör snilld og hefur bjargað heimilislífinu og samskiptum mína við dóttur mína. Þetta gerist ekki að sjálfu sér, ég þarf auðvitað að nota þau verkfæri og þær aðferðir sem ég hef fengið í hendurnar en ég er svo fús til þess. Örvæntingin mín á sínum tíma var svo mikil. Ég vissi ekki hvernig ég gæti stöðvað það sem var í gangi og snúið hlutunum við. Þegar við sem foreldrar verðum örmagna gagnvart hegðun barna okkar, þurfum við einnig aðstoð við að sjá allt það góða sem þau gera líka. Það skipti mig miklu máli og breytti svo mikið viðhorfum mínum til hennar. Eins þykir mér æðislegt að með þessum leiðum nái hún að stjórna betur skapinu sínu. Við notum alls konar leiðir, meðal annars umbunarkerfi sem virkar.“

Það er eitt ár síðan þessi móðir leitaði aðstoðar tengt dóttur sinni til Reykjavíkurborgar. PMTO eða (Parent Management Training – Oregon-aðferð) er sannreynt meðferðar- og forvarnarúrræði fyrir foreldra til að efla foreldrafærni og hafa samanburðarrannsóknir víðs vegar um heiminn, einnig á Íslandi, sýnt fram á góðan árangur hvað varðar börn með aðlögunarerfiðleika – einkum hegðunarvanda.

Aðferðin byggir á kenningarlegu líkani Geralds Patterson, sem gengur út frá því að uppeldisaðferðir foreldra hafi mest áhrif á aðlögun barns ásamt því hvernig það aðlagast umhverfi sínu. Uppeldisaðferðir sem leiða til stigvaxandi samskiptaerfiðleika, valdbeitingar og neikvæðra styrkinga í ríkum mæli ýta undir óæskilega hegðun barns og auka líkur á hegðunarerfiðleikum þannig að vítahringur getur myndast í samskiptum foreldra og barns.

Margrét Sigmarsdóttir, forstöðumaður miðstöðvar PMTO-Foreldrafærni hjá Barnaverndarstofu, og Arndís Þorsteinsdóttir, verkefnastjóri hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar og jafnframt teymisstjóri miðstöðvarinnar hjá Barnaverndarstofu, segja að PMTO sé hágæðaúrræði sem þyrfti að vera í boði fyrir sem flesta foreldra barna með aðlögunarerfiðleika. Foreldrar eru bestu kennarar barna sinna og úrræði sem leitast við að efla foreldrafærni með hliðstæðum áherslum og PMTO eru þau úrræði sem best hefur sýnt fram á að skili góðum árangri til að draga úr aðlögunarvanda barna áður en þau komast á unglingsaldur. Aðferðin feli í sér vinnu með ákveðna grunnþætti sem stuðli að jákvæðri hegðun barns og dragi úr hegðunarvanda. Þessir þættir eru: kerfisbundin hvatning til að kenna nýja hegðun og beina athygli að því sem vel gengur; að setja mörk til að draga úr og stöðva óæskilega hegðun; markvisst eftirlit þar sem foreldrum er kennt að hafa eftirlit með því hvar barnið er og aðhefst á hverjum tíma; lausnaleit þar sem foreldrar eru þjálfaðir í aðferðum til að leysa ágreining; jákvæð samvera og afskipti sem felst í ýmsum leiðum foreldra til að sýna börnum sínum ást og umhyggju. Jafnfram er lögð áhersla á skýr fyrirmæli, vinnu með tilfinningar, samvinnu heimilis og skóla og samskiptatækni.

 Hverjir leita til ykkar tengt þessu úrræði?

„Það eru aðallega foreldrar barna á aldrinum 3-12 ára. Ástæður geta verið margvíslegar, t.d. erfiðleikar með skjá- og snjallsímanotkun, sem virðist vaxandi vandi á heimilum. Einnig óska foreldrar gjarnan eftir aðstoð með ýmsar rútínur í daglegu lífi eins og háttatíma, morgunverkin, heimavinnu og aðrar slíkar aðstæður. Oft eru fjölskyldur einnig að glíma við slæm samskipti milli systkina, ókurteisi, ofbeldi, skróp eða annan vanda í skóla og að börnin fari almennt illa að fyrirmælum. PMTO-þjónusta hefur vaxið mikið í landinu á síðastliðnum árum og eru æ fleiri sveitarfélög sem innleiða aðferðina innan félags- og skólaþjónustu og einnig innan barnaverndar. Úrræðið er m.a. í boði á Akureyri, Hafnarfirði og í Grindavík og Reykjavíkurborg hefur undanfarin ár unnið markvisst að því að veita þjónustuna í öllum hverfum borgarinnar. Auk þess er vísir að þessari þjónustu hjá Kópavogsbæ, Garðabæ, Fjallabyggð og Reykjanesbæ, auk annarra staða á landinu. Foreldrar geta sótt um úrræðið hjá sínu sveitarfélagi á þar til gerðum eyðublöðum og einnig leitað upplýsinga á heimasíðu miðstöðvar hjá Barnaverndarstofu; https://www.pmto.is/.

Leitast er við að sníða úrræðið að þörfum hverrar fjölskyldu og reynt að grípa eins fljótt inn í vandann og mögulegt er. Ef vandinn er vægur þá er foreldrum boðin þátttaka á foreldranámskeiði sem varir í átta vikur. Þegar vandinn er meiri og víðtækari er foreldrum boðin hópmeðferð 14 vikur. Einstaklingsmeðferð er einnig veitt og þá stundum inni á heimilum fólks ef þörf þykir,“ segja þær. 

Margrét segir að meðferðaraðilar séu allir með sérmenntun í PMTO-fræðunum til að sinna úrræðinu og sæki reglulega handleiðslu til að halda gæðum aðferðarinnar á lofti og þar með tryggja árangur hjá foreldrum. Þess vegna er miðlægt utanumhald fyrir PMTO hjá Barnaverndarstofu. 

Blaðamaður ræddi einnig við föður 13 ára stúlku og tekur í sama streng og móðirin hér að ofan þegar kemur að því að gefa PMTO-endurgjöf. Dóttir hans hafði verið greind með ADHD, mótþróaröskun og kvíða. Hann segir samskipti á milli hans og dóttur sinnar öðruvísi. Í dag séu þau betri og jákvæðari, þökk sé úrræðinu. Það sem hann kunni að meta við aðstoðina var æðruleysi þeirra sem veittu faglega aðstoð. Hann bendir á þá skoplegu staðreynd að þegar maður kaupir sér hund sé almennt séð viðurkennt að fara á námskeið til að ala hundinn upp. En síðan sitja foreldrar oft vanmáttugir gagnvart hlutum sem þeir eru ekki sérfræðingar í og vita ekki hvert þeir eigi að leita. Hann hvetur alla foreldra í þeirri stöðu að skoða PMTO.

Heiða Björg, forstjóri Barnaverndarstofu, segir gríðarlega mikilvægt að hægt sé að bjóða fjölskyldum upp á gagnreynd úrræði eins og PMTO.

„Barnaverndarstofa er afar stolt af því að efla nærþjónustu sveitarfélaga með því starfi sem PMTO-miðstöð stofunnar vinnur. Markviss þjálfun og stuðningur við foreldra snemma í lífi barna getur skipt sköpum til að bæta líðan og uppeldisaðstæður barna og efla foreldra í uppeldishlutverki sínu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert