Börn eru ekki óþekk eða vond

Kristín Maríella Friðjónsdóttir ásamt börnum sínum tveimur. RIE-nám­skeið hennar verða …
Kristín Maríella Friðjónsdóttir ásamt börnum sínum tveimur. RIE-nám­skeið hennar verða að þessu sinni haldin 19. og 20. janúar í Lista­safn­inu Hafn­ar­borg og er hægt að nálg­ast frek­ari upp­lýs­ing­ar um þau á vefnum respect­fulmom.com.

Kristín Mariella Friðjónsdóttir heldur úti vefnum Respect­fulmom.com. Þar fjallar hún um uppeldisnálgunina RIE eða Respectful parenting eða virðingarríkt tengslauppeldi.

Upp­hafs­kona nálg­un­ar­inn­ar er Magda Ger­ber sem er frá Ungverjalandi sem segir að umönnun ungra barna eigi að vera byggð á virðingu, trausti og tengslum. Kristín hefur síðustu fimm ár verið búsett í Singapúr ásamt eiginmanni sínum og tveimur börnum þeirra en nú eru þau að flytja til Balí þar sem þau ætla að skjóta rótum. Þótt Kristín búi erlendis kemur hún reglulega til Íslands til að halda námskeið en hún hefur haldið yfir 90 námskeið hérlendis og í Singapúr. Námskeið Kristínar Mariellu, Að setja mörk, hefur notið mikilla vinsælda en hún segir að foreldrar eigi oft í miklum erfiðleikum með það.

Hvers vegna þurfum við að setja börnunum okkar mörk?

„Börnin okkar dafna og njóta sín einfaldlega best þegar þau búa við heilbrigðan ramma þar sem ríkja skýr mörk. Þegar við erum óhrædd við að stíga inn í hlutverk „öruggs leiðtoga“ barnanna okkar upplifa þau mikilvæga öryggistilfinningu og byrja að geta slakað á inni í rammanum. Þegar ramminn er til staðar festast börn síður í því að prufa reglurnar og kanna mörkin, en langoftast er óæskileg hegðun einfaldlega ákall á skýrari mörk og sterkari tengingu. En það skiptir gríðarlega miklu máli hvernig við setjum mörkin, því refsingum og skömmum fylgir alltaf tengslarof sem drífur einfaldlega óæskilega hegðun. Það er þannig sem algengur vítahringur myndast.

Það er kannski ný hugsun fyrir marga að það er hægt að setja skýr mörk og halda öllum mörkum sem börnin okkar þurfa án þess að skamma eða refsa. Þetta er í raun og veru „þriðja“ leiðin, þetta er alls ekki það sem er oft kallað „persmissive parenting“ þar sem foreldrið er hrætt við að setja mörk. Og þetta er heldur ekki stranga uppeldið eða „authorotarian parenting“ þar sem börn fylgja reglum því þau eru hrædd við afleiðingarnar.

Nálgunin sem ég fjalla um þegar kemur að því að setja mörk kallast á ensku í raun „Empathic limits“ en þá setjum við skýr mörk með ró en öryggi á sama tíma og við setjum okkur í spor barnanna okkar og mætum þeim með samkennd og skilningi. Þetta er alveg gríðarlega áhrifarík nálgun.

Það er ákveðin friðsæld og jafnvægi sem færist yfir heimilið þegar við tileinkum okkur það að seta mörk með þessum hætti. Það sem gerist þegar tengslin haldast svona sterk á sama tíma og við setjum mörkin er að börnin okkar vilja fylgja okkur, þau vilja vera partur af heildinni, þau verða svo samvinnufús og opin fyrir því að læra af okkur og lífinu,“ segir Kristín Maríella. 

Er flókið að breyta uppeldisaðferðum okkar? 

„Ég trúi ekki á skyndilausnir og sérstaklega ekki þegar kemur að uppeldi. Fyrir mér byrjar þetta og endar allt hjá okkur sjálfum. Hver við erum sem fyrirmyndir barnanna okkar skiptir einfaldlega öllu máli og mér finnst við ættum öll að eyða miklu meiri tíma í að ala okkur sjálf upp heldur en að ala börnin okkar upp!

Til þess að geta mætt krefjandi hegðun barnanna okkar með yfirvegun og öryggi þá þurfum við að vinna stöðugt í okkur sjálfum sem byrjar á því að vera í tengslum við okkar eigin tilfinningar og skoða ósjálfráðu viðbrögðin okkar.

Alltaf að spyrja okkur sjálf „Af hverju fer þetta svona í taugarnar á mér?“, „Vá, af hverju snöggreiðist ég svo mikið þegar þessi hegðun kemur upp?“, „Hvað veldur því að ég eigi svona erfitt með það til dæmis þegar barnið mitt grætur og finnur fyrir því að ég vilji helst gera hvað sem er til að það hætti?“

Langoftast eru þetta lærð, ósjálfráð, viðbrögð úr okkar eigin uppeldi og vinnan felst að miklu leyti í því að „endurforrita“ okkur sjálf upp á nýtt og sjá börnin okkar og hegðun þeirra í nýju ljósi. Við setjum þeim alltaf mörkin sem þau þurfa en þegar óæskileg hegðun kemur upp þá sjáum við þau ekki sem „óþekk“ eða „vond“, heldur skiljum það að hegðun er alltaf tjáning. 

Við spyrjum okkur þá „Hvað liggur þarna að baki? Af hverju á barnið mitt erfitt með sig núna?“ 

„Your child is not giving you a hard time, your child is having a hard time“ er ein af mínum uppáhaldsmöntrum og í þessari setningu kristallast svolítið kjarni nálgunarinnar þegar kemur að því að setja mörk.“

Hvað getum við gert í uppeldinu til að börnin okkar verði hamingjusamari? 

„Það hljómar kannski skringilega en það er ekki markmiðið mitt að gera börnin mín hamingjusöm. Mér finnst ákveðin hamingjudýrkun hafa tekið yfir og allir eru endalaust að leita að hamingjunni, eins og það sé eitthvað sem þú „finnur“ eða „eignast“. Ég er ekkert svo hrifin af þeirri hugmyndafræði. Því það sem mér finnst hún fela í sér er það markmið að maður eigi að lokum að verða æðislega brosandi, glaður og lukkulegur einstaklingur að staðaldri, og þar með er takmarkinu náð.

En raunveruleikinn er sá að lífið er alls konar, það er upp og niður, og við sem manneskjur munum alltaf upplifa misjafna daga. Stundum förum við í gegnum erfiðari tímabil en önnur og þá fylgir því oft að við erum þyngri á okkur. Stundum líður okkur einfaldlega bara illa og það sem ég vil miklu frekar kenna börnunum mínum er að það er allt í lagi að líða stundum illa. Það er eðlilegt að eiga misjafna daga. Það er heilbrigt að gráta og sitja með erfiðum tilfinningum, númer eitt tvö og þrjú að það sé ekkert að óttast þótt maður upplifi neikvæðar tilfinningar! 

Tilfinningar eru öldur, þær koma og þær fara.

Markmiðið mitt er miklu frekar að búa til umhverfi fyrir börnin mín þar sem þau fá einfaldlega að vera þau sjálf. Þar sem þau fá tækifæri til að þroska með sér djúpa virðingu fyrir sjálfum sér og eru að mestu laus við skömm og hræðslu við sínar mannlegu hliðar.

Mitt hlutverk er ekki að „móta þau“, stýra þeim í ákveðin farveg, heldur búa þeim nærandi umhverfi þar sem ég styð þau sem best ég get í því að feta sinn veg eftir sínu hjarta, eftir sinni sannfæringu. 

Að mínu mati er sá einstaklingur sem er í sterkum tengslum við sjálfan sig, er óhræddur við að vera sá sem hann er, sáttur í eigin skinni og býr yfir samkennd með sjálfum sér og fólkinu í kringum sig þar með komin með mikilvægustu tólin í farteskið til þess að geta fetað lifað lífinu sínu eftir sinni sannfæringu.

Þegar fólk er samkvæmt sjálfum sér á það svo miklu auðveldra með að finna sinn stað í lífinu, sinn einstaka tilgang og því mun óhjákvæmilega fylgja að mínu mati hamingjurík vegferð.“

Hvað telur þú að foreldrar séu að gera vitlaust í barnauppeldi sínu? 

„Allir foreldrar eru alltaf að gera sitt besta. Það er krefjandi starf að vera foreldri og sérstaklega á okkar tímum þar sem við fáum endalaust af misvísandi ráðleggingum bæði frá sérfræðingum en líka markaðsöflum sem öll segja okkur að ef við gerum ekki þetta eða hitt þá muni barnið okkar missa af lestinni og við sitja eftir sem ömurlegustu foreldrar í heimi.

Það síðasta sem foreldrar þurfa í dag er meira álag og stress og þess vegna þoli ég ekki að sjá allan þennan hræðsluáróður sem er beint að foreldrum. 

Mér hefur fundist alveg ómetanlegt að upplifa slakann sem færist yfir mann þegar maður byrjar að treysta. Treysta ferlinu, hætta að stjórna, stýra og móta og í staðinn taka skref til baka og fylgjast einfaldlega með! Njóta þess sem barnið okkar er, er að vinna í, er að finna út úr, er að sýna áhuga, læra og þroska með sér, og styðja síðan einfaldlega við akkúrat það! í stað þess að vera endalaust að reyna að kenna til dæmis eitthvað sem barnið okkar er ekki endilega tilbúið til að læra.

Að hætta að bera börnin sín saman við önnur börn er ótrúlega frelsandi og eitt það besta sem maður getur tileinkað sér að mínu mati.“

Hvernig breyttist lífið þegar þú fórst að tileinka þér fræðin?

„Það er mjög þekkt að þegar maður fer að tileinka sér þessa nálgun þá er einfaldlega ekki hægt að fara til baka. Þetta er ekki uppeldisaðferð eða trix, heldur heilbrigð og eðlileg nálgun á samskipti í uppeldi og það hefur jákvæð áhrif á allt í lífi manns.

Mér hefur fundist friðsældin og sáttin sem hefur færst yfir heimilishaldið eftir að við fórum að tileinka okkur þessi fræði einfaldlega ómetanleg. Að geta búið börnunum mínum til umhverfi þar sem öllum tilfinningum er gefið rými og verða síðan vitni að tilfinningalega jafnvæginu sem fylgir í kjölfarið, bæði hjá börnunum mínum og ekki síður mér sjálfri er það sem ég er líklega þakklátust fyrir.“

mbl.is