Heillandi sjálfbær ungbarnalína

Sænska verslunarkeðjan Lindex er komin með nýjar ungbarnalínur sem eru framleiddar á sjálfbæran hátt. Línurnar eru framleiddar úr lífrænni bómull eða endurunnum efnum og eru allar flíkurnar í henni með GOTS-vottun en sú vottun tryggir rekjanleika lífrænu bómullarinnar og tekur mið af félags- og umhverfislegum skilyrðum í öllu framleiðsluferlinu, frá trefjum til fullunninnar vöru. Fötin eru framleidd með gæði og endingu að leiðarljósi og hönnuð með daglegar þarfir barnsins í huga.

„Línan endurspeglar þá eiginleika sem við höfum lagt mesta áherslu á; gæði, hönnun, mýkt, og er framleidd á sjálfbæran hátt. Allar flíkurnar í línunum eru í frábærum gæðum og hafa þá eiginleika að stækka með barninu svo þú getur í rauninni stækkað flíkina um heila stærð. Við viljum að fötin endist vel svo hægt sé að gefa þau áfram þó svo að barnið sé vaxið upp úr flíkinni,“ segir Lóa Dagbjört Kristjánsdóttir, umboðsaðili Lindex á Íslandi. 

Með þessum nýju línum mun ungbarnadeildin breytast og mun nú skiptast yfir í  ólík þemu sem vega hvort annað fullkomlega upp. „Soft nature“ er lína með rómantísku skandinavísku yfirbragði, með handmáluðu prenti í mildum litum. Myndirnar eru innblásnar af náttúrunni og við sjáum alls konar dýr í þessu ævintýralega þema. „Color pops“ er litrík lína með björtum litum og skemmtilegu mynstri þar sem, eins og nafnið gefur til kynna litirnir eru allsráðandi. Það er auðvelt að blanda saman flíkum úr báðum línunum og í þeim finnur þú allt sem þú þarft fyrir barnið. Lindex notar alltaf lífræna bómull eða endurunnin efni í barnalínuna og vörurnar eru alltaf með GOTS-vottun.

mbl.is