„Sumt er klárlega auðveldara en annað ekki“

Karitas Harpa á von á sínu öðru barni.
Karitas Harpa á von á sínu öðru barni.

Söng- og útvarpskonan Karitas Harpa og sambýlismaður hennar Aron Leví Beck eiga von á dreng í byrjun maí, fyrir á Karitas soninn Ómar Elí sem verður fimm ára á þessu ári. Karitas segir það stundum erfitt að vera ólétt og á meðan sumt er auðveldara en á fyrri meðgöngunni er annað erfiðara. 

Hvernig hefur meðgangan gengið?

„Meðgangan hefur gengið ágætlega, ég var að vona að hún yrði fljótari að líða en sú fyrri en mér hefur ekki þótt það raunin,“ segir Karitas og hlær. 

Er þetta auðveldara í annað sinn? 

„Sumt er klárlega auðveldara en annað ekki. Til dæmis er ég fimm árum eldri í þetta sinn og finn alveg fyrir því í skrokknum. Auðveldari parturinn felst kannski meira í því að ég er meðvitaðri um hvað er í gangi í líkamanum á mér. Þekkti tilfinningu fyrstu hreyfinganna fyrr en á fyrstu meðgöngu, samdrættir koma mér lítið á óvart og að vakna á nóttunni til að pissa er nánast búið að vera daglegt brauð síðan á fyrri meðgöngu, Ómar hefur alltaf verið með smá svefnvesen, svo ég er vön því að sofa ekki oft samfleytta heila nótt. Eins hormónaruglið, það hefur alveg áhrif á mann en ég veit af hverju ég er að vera svona ómöguleg.“

Er eitthvað sem þú lærðir á síðustu meðgöngu og fæðingu sem þú tekur með þér sem veganesti?

„Bara að vera ekki með of mikið fyrir fram ákveðið. Hver meðganga og fæðing er mismunandi og vera viðbúin því að hlutir geti farið á annan veg en maður hélt eða hafði hugsað sér. Hafa opinn huga, markmiðið er að koma barninu heilu í heiminn. Vera með minna ákveðið til að bjóða síður upp á einhverskonar vonbrigði og síðan að reyna að njóta hverrar stundar eftir það.“

Hefur þú fengið æði í eitthvað á meðgöngunni?

„Bæði núna og með Ómar var allt með salti, snakk, heimilismatur og helst ekkert sætt fyrstu mánuðina. Núna undanfarið hefur það verið mangó, gæti borðað svona þrjú mangó á kvöldi. Í gær vildi ég ekkert meira en súrar gúrkur og svarta ólífur. Ég fæ sem sagt ekkert eitt langlíft æði, en nokkur svona í gegnum ferlið.“

Karitas á von á sér í maí.
Karitas á von á sér í maí.

Hvernig hefur þú hugað að heilsunni á meðgöngunni? 

„Ég hef því miður ekki gefið mér nægan tíma í mikla auka hreyfingu, hef verið að vinna mikið og síðan á ég einn fjögurra og hálfs árs, það felur í sér ágætis hreyfingu. Hvað varðar að huga að heilsunni hjá mér á meðgöngu felst langmest í því að gefa andlegri heilsu gaum, ég hef fengið til dæmis sálfræðitíma í gegnum mæðravernd sem er dásamlegt, verið að rifja upp hugræna atferlis meðferð (HAM) en ég hef átt við depurð og kvíða bara síðan ég var barn svo það er mikilvægt, sérstaklega þegar líkaminn er að fara í gegnum svona miklar stanslausar breytingar, að rifja það upp og vera meðvituð.

Hluti af þessu var líka að leyfa mér loks að viðurkenna þá helst fyrir sjálfri mér, að mér þyki ekkert endilega alltaf rosalega gaman að vera ólétt, mér finnist það bara alveg frekar erfitt og að það sé í lagi. Ég var með svo mikið samviskubit yfir því að líða þannig, að ég ætti að vera bara glöð, þakklát og hamingjusöm (sem ég vissulega er) en þetta er ekki svona svart og hvítt. Stundum er þetta bara drullu erfitt og leiðinlegt.“

Ertu komin í bumbuhóp og hefur þú verið í mömmuhópum? 

„Ég var í bumbuhóp á Facebook með Ómar Elí, eins og ég hef talað um hef ég alltaf verið svolítill kvíðabolti og þótti mér oft á tímum erfitt að vera í slíkum hóp. Ég upplifði einhverskonar samanburð, sem var kannski bara í höfðinu á mér, en ég fór mjög mikið að ofhugsa ýmsa hluti eins og þyngdaraukningu á meðgöngu, hvað barnið mitt væri þungt miðað við hin börnin, hvað þessi og hinn væri að gera en ekki ég og hvort ég væri því að gera allt vitlaust. Ég veit að mikið af þessu spíralaði bara í kollinum á mér, en ég ákvað að minnsta kosti að fara ekki í bumbuhóp núna, eins og er allavega. Ég mæli þó alls ekki gegn því að vera í bumbuhóp, margar mömmur sem mynda sterk vinabönd inni á svona hópum og fá mikla aðstoð veit ég en það virðist ekki hafa hentað mér, kannski seinna.“

Hvernig leggst það í son þinn að fá lítinn bróður?

„Hann er ofboðslega spenntur og spyr reglulega hvenær maí fari nú að koma af því hann sé svo spenntur að fá litla bróður. Hann pælir mikið í bumbunni og hvað hún sé stór, hvað litli  verði stór þegar hann fæðist. Ég er dálítið hrædd um að hann verði svekktur að litli geti ekki leikið strax. En ég er spennt að sjá hvernig þetta verður, ég held hann verði yndislegur stóri bróðir þegar hann hefur vanist því að það sé kominn annar einstaklingur á heimilið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert