Fermingar að hætti mínimalista

Áslaug Björt Guðmundsdóttir og Tinna Kjartansdóttir.
Áslaug Björt Guðmundsdóttir og Tinna Kjartansdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tinna Kjartansdóttir og Áslaug Björt Guðmundsdóttir segja mínimalíska fermingu mjög innihaldsríka. Þær notast við tausérvéttur. Gestir panta einvörðungu það sem þeir borða og matarsóun er því í lágmarki. 

Tinna er 14 ára nemandi í Hagaskóla sem býr með móður sinni Áslaugu Björt og kettinum Sæmundi í Skerjafirðinum. Tinna syngur mikið og er í Stúlknakór Reykjavíkur. Er einnig virk í félagsstörfum, er í stjórn femínistafélagsins Ronju í Hagaskóla og í Ungmennaráði Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða svo dæmi séu tekin. Tinna mun fermast borgaralega hjá Siðmennt þann 31. mars og til stendur að fagna áfanganum með fjölskyldu og vinum í hádegisverði á eftir.

Pláss fyrir það sem gefur gleði

Hvernig lýsið þið mínimalískum lífsstíl?

„Fólk leggur eflaust mismunandi skilning í hugtakið mínimalískur lífsstíll. Í stuttu máli má segja að hann snúist um að einfalda líf sitt þannig að maður búi til meira pláss fyrir það sem gefur manni raunverulega gleði og ánægju, hvort sem það eru hlutir eða upplifanir. Mínimalískur lífsstíll er í rauninni svar við efnishyggju og óhóflegri neyslu sem ekki aðeins er á kostnað umhverfisins heldur einnig persónulegs frelsis, innri friðar, tíma og peninga. Það sem hann þýðir til dæmis fyrir okkur er að við viljum aðeins hafa í kringum okkur á heimilinu hluti sem hafa tilfinningalegt gildi eða veita okkur ánægju. Tími er dýrmætur og það er mikilvægt að reyna að haga lífinu þannig að hann fari ekki allur í einhverja sókn eftir vindi, að umgjörðin sem maður hefur búið sér sé ekki svo frek á tíma og peninga að ekkert svigrúm sé til að njóta þess bara að vera til með þeim sem manni þykir vænt um. Áreitið í umhverfinu er ofboðslegt og einhvern veginn gera markaðsöflin alltaf út á það að mann vanti eitthvað, að maður sé ófullkominn eins og maður er. Þetta viljum við vera meðvitaðar um og hafa sjálfar á hreinu hvernig við viljum hafa hlutina í stað þess að hlaupa eftir því sem einhverjir aðrir hafa ákveðið að sé nauðsynlegt,“ segja þær.

Hvernig gerir maður mínimalíska fermingarveislu?

„Á fermingardaginn langar okkur helst að njóta þess að vera með öllu því góða fólki sem tilheyrir lífi Tinnu. Hún á stóra fjölskyldu – pabba, stjúpmömmu, mörg systkini og stjúpsystkini og að öllu þessu fólki standa margir sem verður mikið gaman að fá alla saman þennan dag. Þetta var aðalatriðið þegar farið var að skipuleggja daginn. Þetta verður nokkuð mannmargt og því ekki hægt að halda veisluna heima, en okkur fannst mikilvægast að ná öllum saman og njóta dagsins,“ segir Áslaug og Tinna tekur við: „Ég vil ekki að við missum okkur í að allt þurfi að vera flott og fullkomið, það þarf til dæmis ekki endilega ný föt og reyndar langar mig mest að finna notuð fermingarföt, en flest mín föt kaupi ég í búðum sem selja þannig föt. Ég ætla ekki í hárgreiðslu, ætla að sjá um það sjálf, ég vil hafa tauservéttur í veislunni og ekki kaupa allskonar einnota skraut og dót sem endar svo bara í ruslinu eftir daginn.“

Minimalsimi minnkar stressið

„Mér finnst mikilvægast að njóta þess að vera með allri fjölskyldunni, borða saman góðan mat og hafa gaman. Við kaupum bara þann mat sem við borðum á staðnum svo matarsóun verður í lágmarki og mamma ætlar að baka franska súkkulaðiköku, sem er uppáhaldið mitt,“ segir Tinna.

Hafið þið alltaf aðhyllst mínimalískan lífsstíl?

„Þessi hugmyndafræði hefur alltaf höfðað til mín en einnig höfum við í auknum mæli orðið meðvitaðri um mikilvægi þess að virða jörðina og gera okkur grein fyrir þeim áhrifum sem lífsstíll okkar hefur á hana. Tinna er afar meðvituð um umhverfismál og það er því auðvelt að vinna saman að því að gera það sem í okkar valdi stendur til að bera virðingu fyrir umhverfinu. Síðustu ár höfum við smám saman einfaldað lífið mikið og það hefur ótrúlega jákvæð áhrif á tilveruna að minnka allan óþarfa, stress og sóun,“ segir Áslaug.

Tinna segir lífsstílinn hafa breytt ýmsu fyrir þær. „Ég hugsa allt öðruvísi um það hvað ég kaupi og hvað mig vantar. Nú vil ég frekar kaupa notuð föt og áður en ég kaupi flík hugsa ég hvort mig raunverulega vanti hana eða langi í hana. Við viljum líka gera okkar besta til að vernda umhverfið, flokkum rusl, gefum frekar upplifanir en hluti þegar við veljum gjafir og margt fleira.“

Áslaug segir þessar áherslur birtast í mörgu við heimilishaldið. „Við notum til dæmis hvorki mýkingarefni né hefðbundið þvottaefni, erum hættar að nota sjampó í plastbrúsum, hendum ekki mat og nýtum alla afganga, kaupum eins og hægt er vörur sem eru ekki í plastumbúðum og svona mætti lengi telja. Við eigum aðeins sængurföt til skiptanna, ekki nema fjögur handklæði, bara þann borðbúnað sem við notum o.s.frv. Við eigum ekki marga hluti, en erum ánægðar með það sem við eigum. Bækurnar eru líklega stærsta áskorunin, en ég á talsvert af bókum. Á síðustu árum hef ég þó takmarkað mig við ákveðið hillupláss fyrir þær og þegar fer að flóa út fyrir, gef ég einhverjar til að rýma til.“

Mínimalískar veitingar minnka matarsóun

Hvernig eru mínimalískar veitingar?

„Einfalt er alltaf best og mínimalískar veitingar eru líklega þannig að nýting sé sem best og að mat sé ekki sóað. Í fermingarveislunni kaupum við reyndar veitingar á veitingastaðnum þar sem veislan verður haldin, en þar er það fagfólk sem áætlar veitingarnar miðað við fjölda svo líklega þarf ekki að hafa áhyggjur af því að mikið fari til spillis.“

Hvað misskilur fólk oft við lífsstílinn?

„Það sem sennilega er algengasti misskilningurinn er að þessi lífsstíll snúist um að maður eigi ekkert, það sé allt tómt inni hjá manni o.s.frv. Aðalmálið er meðvitund um hvað maður vill hafa í kringum sig og hvernig maður hagar sinni neyslu og hagar sér sem neytandi almennt. Einnig er grundvallaratriði að maður byrji á réttum enda, þ.e.a.s. að maður ákveði fyrst hvað skipti mann mestu máli í lífinu og sníði svo lífsstílinn að þeim áherslum, en ekki öfugt,“ segir Áslaug.

Einfalt en gott

Tinna segir þær mæðgur trúaðar, en að þær vilji ekki skilgreina sig undir einhver ákveðin trúarbrögð. „Ég tók þess vegna þá ákvörðun að fermast borgaralega. Þar er lögð áhersla á siðferði, ábyrgð, mannréttindi og margt fleira sem skiptir máli við að vera upplýstur og virkur í mannlegu samfélagi. Mér finnst það mikilvægt.“

Tinna segir að þegar hún var yngri hafi hún séð fyrir sér að fermingardagurinn yrði rosalega stór dagur og langaði hana að hafa allt mjög flott. „En núna þegar að þessu er komið er ég alveg róleg yfir þessu og langar bara að hafa þetta einfalt. Það er alltaf verið að búa til svo mikla neyslu í kringum allt, en það þarf ekki að neysluvæða það að eitthvað stórt sé að gerast í lífinu. Dagurinn er jafn hátíðlegur og góður þótt það sé ekki verið að kaupa allskonar dót sem skiptir engu máli.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert