Harry gat ekki hætt að brosa

Harry prins gat ekki hætt að brosa þegar hann ávarpaði …
Harry prins gat ekki hætt að brosa þegar hann ávarpaði fjölmiðla stuttlega í gær eftir að sonur hans og Meghan var nýkominn í heiminn. AFP

Hamingjuóskunum hefur rignt yfir hertogahjónin af Sussex, Harry og Meghan, eftir að þeim fæddist sonur í gær. Hertogahjónin eru í sjöunda himni og gat Harry ekki hætt að brosa þegar hann ávarpaði fjölmiðla suttlega í gær. 

Í tilkynningu frá konungshöllinni segir að Elísabet drottning, Filippus prins og Karl Bretaprins séu himinlifandi með fregnirnar. Drengurinn er áttunda barnabarnabarn drottningarinnar og sjöunda í erfðaröðinni. Þá er móðir Meghan, Doria Ragland, einnig yfir sig ánægð með barnabarnið.  

Konungssinnar hafa safnast saman fyrir utan Windsor-kastala eftir að fregnir …
Konungssinnar hafa safnast saman fyrir utan Windsor-kastala eftir að fregnir bárust af því að nýr erfingi væri kominn í heiminn. AFP

Fregnir af fæðingunni voru heldur óhefðbundnar, samanborið við þegar börn Vilhjálms Bretaprins og Katrínar komu í heiminn. Börn þeirra fæddust á fæðing­ar­deild St Mary's-sjúkra­húss­ins í London og voru frumsýnd heimsbyggðinni einungis örfáum klukkutímum eftir að þau komu í heiminn. 

Harry og Meghan fóru sínar eigin leiðir og ekki var til dæmis gefið upp hvar barnið kom í heiminn en Harry ávarpaði bresku þjóðina í gær þar sem hann sagði að drengurinn yrði kynntur formlega á morgun. Æstir aðdáendur, sem hafa vanalega fjölmennt fyrir utan St Mary's-sjúkrahúsið hafa í staðinn fjölmennt við heimili hertogahjónanna í Frogmore í Windsor.  

Meðal þeirra sem hafa sent hertogahjónunum kveðjur eru fyrrverandi forsetahjónin Barack og Michelle Obama sem segjast vera í skýjunum. 

Breskir stjórnmálamenn hafa einnig sent hjónunum hamingjuóskir, þar á meðal Theresa May forsætisráðherra, Jeremy Corbyn, formaður Verkamannaflokksins, og Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands. 

Erkibiskupinn af Canterbury, Justin Welby, sem gaf Harry og Meghan saman í maí í fyrra, hefur einnig óskað hjónunum til hamingju með frumburðinn. „Guð blessi nýju fjölskylduna með ást, góðri heilsu og hamingju.“ 

Kórinn sem söng við brúðkaup hertogahjónanna hefur einnig sent hjónunum kveðju með vögguvísu til drengsins. 

Þá hefur Patrick J. Adams, fyrrverandi mótleikari Meghan úr lögfræðidramaþáttunum Suits, einnig sent drengnum kveðju. „Ég var að frétta að heimurinn hefði þyngst um 3,2 kíló í gær. Ástarkveðjur til hans og mögnuðu foreldra hans,“ skrifar Adams meðal annars á Twitter og notar hann myllumerkið #playdate. Sjálfur eignaðist hann dóttur fyrir sjö mánuðum svo það verður áhugavert að fylgjast með hvort börn Suits-stjarnanna verði bestu vinir. 

Nýja erfingjanum er fagnað víða. „Það er drengur,“ stendur á …
Nýja erfingjanum er fagnað víða. „Það er drengur,“ stendur á skilti við Prins Harry-barinn í nágrenni við Windsor-kastala. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert