Konur eignast færri börn og skilja frekar

„Alþjóðlegur dagur fjölskyldunnar er í dag 15. maí. Fjölskyldugerð hefur almennt breyst á síðastliðnum áratugum. Fjölskyldur eru almennt minni en áður í OECD löndum því mæður eignast færri börn, giftingum hefur fækkað og skilnuðum fjölgað. Mörg börn alast upp hjá einu foreldri og mæður eru almennt eldri en áður þegar þær hefja barneignir. Í nokkrum OECD löndum eru um 65 prósenta líkur á að barn upplifi skilnað foreldra,“ segir Ragnhildur Birna Hauksdóttir fjölskyldufræðingur í nýjum pistli: 

Ragnhildur Birna Hauksdóttir.
Ragnhildur Birna Hauksdóttir.

Fjölskyldan þarf ávallt að vera í brennidepli í hverju samfélagi og þarfir breytast í takt við þær breytingar sem hafa orðið í uppbyggingu hennar. Börn eru oft og tíðum tengd kerfum þar sem jafnvel forráðamenn eru ekki öllum hnútum vel kunnugir, eðli málsins samkvæmt. Með öðrum orðum, börn eru oft hluti að ólíkum veruleikum: skóladagurinn hefur lengst ( eftirskólaúrræði), ung börn eru oft allan daginn í umsjá fagfólks, mörg börn eiga tvö heimili auk þess sem þau þurfa að aðlagast stjúpforeldrum, -systkinum, öfum og ömmum.

Fjölskyldufræðingar geta stutt á mikilvægan hátt við fjölskyldur þegar kreppir að, hvort sem unnið er með einum eða fleirum á hverjum tíma. Í fjölskyldumeðferð er tekið mið af því að áhrifamáttur fjölskyldunnar er mikill og breyting hjá einum hefur áhrif á annan. Fjölskyldan hefur áhrif á hver við erum og hver við verðum og á sama tíma þarf hver einstaklingur að aðgreina sig á margan hátt til að vaxa og þroskast.

Það getur verið styrkur að fá nýja sýn inn í fjölskyldu kerfið til að styðja og styrkja þroskamöguleika hennar. Fjölskyldur hafa breyst, þarfir hafa breyst. Höldum áfram að vaxa og þroskast - saman.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert