Ólympíumeistara refsað vegna barnsburðar

Allyson Felix.
Allyson Felix. AFP

Bandaríski spretthlauparinn Allyson Felix eignaðist sitt fyrsta barn í nóvember þegar dóttir hennar kom í heiminn með bráðakeisara átta vikum fyrir tímann. Hún greinir frá því í viðtali við The New York Times að hún hafi átt í erfiðleikum með að endurnýja samning sinn við Nike og er ósátt við hvernig komið er fram við íþróttakonur í tengslum við meðgöngu. 

Felix hefur verið með samning hjá Nike og leikið stórt hlutverki í markaðssetningu fyrirtækisins. Hún segir að það hafi ekki síst verið áhættusamt fyrir sig að ákveða að eignast barn í fyrra vegna þess að samningur hennar við Nike rann út í desember 2017. 

„Ég fann fyrir þrýstingi að komast fljótt aftur í form eftir að dóttir mín kom í heiminn í nóvember 2018, jafnvel þótt ég þyrfti á endanum að gangast undir bráðakeisaraskurð á 32. viku,“ sagði Felix um það að snúa aftur á hlaupabrautina. 

Á meðan þetta átti sér stað gengu samningaviðræður illa. Vildi Nike nú borga henni 70 prósentum minna en áður þrátt fyrir að Felix væri ein sigursælasta frjálsíþróttakona síðari ára en hún hefur níu sinn­um unnið til verðlauna á Ólymp­íu­leik­um, bæði sem ein­stak­ling­ur en einnig í boðhlaup­um.

Segist Felix geta samþykkt að vera 70 prósentum minna virði en hún geti ekki samþykkt að henni verði refsað fyrir að vera ekki upp á sitt besta mánuðina eftir barnsburð. Vill hún setja fordæmi og fá það inn í samning sinn að ef hún geti ekki gert það, hver geti það þá?

Felix er enn með lausan samning þar sem hún hefur ekki fengið þessa klausu inn í samning sinn hjá Nike. Felix er ekki fyrsta konan sem stígur fram og bendir á að samningar við íþróttamenn eigi illa við konur. Eftir að önnur merki tilkynntu að tryggja þyrfti rétt kvenna betur hefur Nike fylgt í kjölfarið. Felix segist þó ekki hafa fengið að sjá útfærsluna. 

Spretthlauparinn Felix segir að ólétta ætti ekki að teljast til þess að klúðra hlutunum þótt það líti þannig út í íþróttum. Segir hún konur þurfa að geta gengið með börn á ferli sínum ef þær ætla að endast í greininni. 

Allyson Felix hefur ekki látið sitt eftir liggja þegar kemur …
Allyson Felix hefur ekki látið sitt eftir liggja þegar kemur að réttindum kvenna. mbl.is/AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert