Hugrún Harðar: Mikið áfall að missa barn

Hugrún Harðardóttir á tvo syni og elskar að vera strákamamma …
Hugrún Harðardóttir á tvo syni og elskar að vera strákamamma að eigin sögn. Ljósmynd/Aðsend

Hugrún Harðardóttir á tvo drengi með eiginmanni sínum Loga Unnarsyni Jónssyni. Hún er eigandi hárgreiðslustofunnar Barbarellu Coiffeur.

„Við Logi hittumst fyrir 12 árum og dembdum okkur í að búa okkur til félagsskap strax sem er Vilhjálmur Logason eða Villi og svo kom Nonni litli þann 22. nóvember síðastliðinn. Hann heitir fullu nafni Jón Þór Logason. Báðir drengirnir eru skírðir í höfuðið á öfum sínum sem við köllum karlkyns klettana í lífi okkar.“

Misstu dreng á 22. viku

Hugrún segir að seinni meðganga hennar hafi gengið mjög vel allan tímann, þrátt fyrir smá flökurleika í byrjun og þreytu í lokin.

„Ég átti alveg von á að finna meira fyrir þessu 10 árum eldri en það skiptir líklega meira máli að vera í líkamlega góðu formi í upphafi meðgöngu. Andlega hliðin skiptir auðvitað miklu máli líka á meðgöngu og ég viðurkenni að ég þurfti oft að eiga við flóknar tilfinningar á þessari síðari meðgöngu, en hluti af því er vegna þess að við Logi misstum dreng ári áður á 22. viku meðgöngunnar þar sem í ljós komu alvarlegir fósturgallar í 20 vikna sónarnum.

Hugrún var einstaklega þakklát fyrir að allt gekk vel á …
Hugrún var einstaklega þakklát fyrir að allt gekk vel á seinni meðgöngu sinni en hún missti son á 22. viku meðgögnu í fyrra sem var erfitt. Ljósmynd/Aðsend

Þessi upplifun er alltaf erfið en við ákváðum ári síðar að halda áfram með fjölskylduverkefnið. Ég var lengi að leyfa mér að byrja að myndskreyta og hlakka til og beið sérstaklega eftir 20 vikna sónarnum. Þar voru ákveðin kaflaskil en þótt allt hafi litið vel út þá var ég mjög upptekin af því að finna hreyfingar og var reglulega að ýta og pota í magann til að sjá hvort hann myndi ekki bregðast við.

Það var ekki fyrr en ég fékk hann í fangið sem ég grét af þakklæti fyrir þessa fallegu gjöf og sagði upphátt takk alheimur!“

Seinni fæðingin gekk hratt fyrir sig

Hún segir seinni fæðinguna hafa gengið mjög hratt. 

„Hann átti að koma í heiminn þann 24.nóvember. Ég var vakandi fyrir fyrirvaravekjum sem bólaði lítið á. Að morgni dags þann 22. nóvember fann ég smá seyðing um 11 leytið sem fór en kom svo aftur 30 mín. seinna. Ég lét Loga vita og talaði við vinkonu mína sem er fæðingarlæknir og hefur reynst mér mjög vel í öllu sem að undan hefur gengið. Hún sagði að eitthvað væri farið að gerast, þótt erfitt væri að vita hvort fæðingin færi fljótt að stað eða eftir viku.

Ég ákvað að vera bara heima í rólegheitunum og lagðist í bað. Um klukkan 13:00 hringdi Logi og þá voru verkirnir farnir að aukast en ekki mikið. Hann ákveður að koma heim, við fórum upp á spítala um klukkan 15:00 og barnið var fætt klukkan 16:00.“

Hugrún var rétt komin inn á skoðunarherberbergi þegar belgurinn sprakk og þá var enginn tími fyrir deyfingu eða annað slíkt. 

„Þrýstingurinn var gífurlegur en það munaði mjög miklu þegar ljósmóðirin nuddaði piparmyntu á hnúana og þrýsti fast á tvo punkta við spjaldhrygginn. Ég mæli með því.“

Hún segir að Nonni litli hafi fæðst eftir þrjá til fjóra rembinga. 

„Hann fékk blæðingu undir húð á höfðinu af þrýstingnum og bólgnað aðeins svo hann var með strýtu á höfðinu í nokkrar vikur elsku barnið. Að öðru leyti var hann fullkominn lítill prins sem ég var búin að bíða lengi eftir að fá í fangið.“

Kemur á óvart hvað allt tekur langan tíma

Hvað kom mest á óvart við móðurhlutverkið?

„Það sem kom mér mest á óvart tengt móðurhlutverkinu í upphafi og aftur núna, þar sem ég var búin að gleyma því, er hvað það tekur langan tíma að koma sér af stað eitthvað.

Einhvern veginn verður allt 30 mínútum á eftir áætlun. Að öðru leyti finnst mér fátt koma á óvart. Ég hef alltaf verið mjög meðvituð um að þegar maður eignast barn þá kemur barnið númer eitt, kannski vegna þess að þannig var það alltaf hjá mömmu minni. Mæður eiga alltaf að vera til staðar, eða það finnst mér alla vegana.“

Ætlaði alltaf að eiga fullt af kisum

Hugrún viðurkennir þó að hafa aldrei verið neitt sérstaklega mikil barnamanneskja. 

„Ég sá ekkert endilega fyrir mér að eignast börn. Í raun ætlaði ég að eiga fullt af kisum. En móðurhlutverkið breytti mínu lífi mínu þannig að ég öðlaðist meiri lífsfyllingu og tilgang.“

Hún elskar að vera strákamamma að eigin sögn. „Strákarnir mínir eru fullir af orku og halda manni í formi á hlaupum á eftir sér. Ég held að strákar hugsi hlutina oft á einfaldari hátt sem getur verið þægilegt að mínu mati.“

Hugrún elskar að vera mama og minnir sig eins oft og hún getur á að njóta augnabliksins. 

„Ekki að hlakka til þegar þetta eða hitt gerist. Þessi 10 ár síðan ég eignaðist fyrri son minn flugu hjá og öll tímabilin hafa sinn sjarma. Ég mæli bara með að slaka á og njóta ferðarinnar sem lífið er, sérstaklega á uppvaxtarárum barnanna.“

Nauðsynlegt að eiga aðrar ástríður líka

Hugrún segir að þótt hún elski allt við móðurhlutverkið þá verði hún einnig að eiga annað hlutverk í lífinu.

„Ég verð að fá útrás fyrir aðra ástríðu í lífinu, eins og vinnuna mína, fyrirtækið mitt, hreyfingu og aðra sköpunargleði. 

Það hefur gengið vel að blanda þessu saman þar sem vinnutíminn getur verið mjög sveigjanlegur í hárgreiðslunni og lítið mál að fá líkamlega útrás með börnum. Ég er einmitt að byrja núna að fara að hlaupa með kerruna, það er svo gott og nauðsynlegt að hreyfa sig og þeim líður líka svo vel í ferska loftinu. Svo mæli ég með að láta vagninn standa á sundlaugarbakkanum í lúrnum þeirra en ég hef gert það síðan í janúar. Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir mæður að eiga sér einhverjar aðrar ástríður í lífinu en barnauppeldið sem halda áfram að næra mann þegar börnin vaxa upp og fara að lifa sínu lífi. Annars er hætta á að mikill tómleiki taki við.“

Hvaða bókum mælir þú með fyrir foreldra að lesa?

„Bækur sem ég hef stuðst við í uppeldi drengjanna eru Draumalandið og Hollráð Hugos.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert