Þetta lögðu foreldrar Bill Gates áherslu á

Bill Gates var látinn stunda íþróttir þegar hann var ungur, …
Bill Gates var látinn stunda íþróttir þegar hann var ungur, ekki til að keppa í íþróttum og vera bestur, heldur til að taka þátt. Hann þakkar foreldrum sínum fyrir það. mbl.is/AFP

Samkvæmt Thrive Global lögðu foreldrar Bill Gates, stofnanda Microsoft, sig fram um að kenna honum þrjá hluti sem vefsíðan telur að hafi hjálpað honum að ná langt í lífinu. Foreldrar hans, þau Mary Gates og William Gates, voru ekki feimin við að gera hlutina öðruvísi. Sjálfur hefur hann greint frá eftirfarandi hlutum sem hafa reynst honum vel í lífinu.

Að gefa til samfélagsins

Gates-fjölskyldan hefur alltaf talið eitt af verkefnum sínum vera að gefa til baka. Foreldrar hans gerðu þetta og lögðu sig fram um að taka Bill Gates með í verkefni, þar sem honum var kennt að vera til staðar og gefa þeim sem minna mega sín í samfélaginu. 

Mary Gates trúði á hugmyndafræði Lúkasarguðspjalls. Þar segir að þeir sem fá mikið í lífinu, skuli gefa mikið til annarra.

Í viðtali við Forbes sagði Bill Gates að þetta hafi fylgt honum í lífinu. Hann er duglegur að gefa áfram velgengni sína og peninga og heldur ekki öllu fyrir sig. 

Að gefa traust

Togstreitan á milli foreldra og barna er ekki ný af nálinni. Foreldrar ráða, en stundum koma tækifæri þar sem gott er að leyfa börnum að æfa sig í eigin dómgreind.

Foreldrar Bill Gates gáfu honum meira frelsi en margir aðrir foreldrar gáfu börnum sínum.  Sem dæmi var hann í einkaskóla sem er þekktur fyrir þessa hugsun framar öðrum skólum.

Það var í þeim skóla sem Bill Gates kynntist tölvum og upplýsingatækni. 

Þegar Bill Gates var 13 ára að aldri fékk hann leyfi frá foreldrum sínum til að fara í Háskólann í Washington að næturlagi - til að fá aðgang að tölvubúnaði skólans. 

Jafnframt gáfu þau honum leyfi til að fara á milli borga að sinna áhugaverðum verkefnum þótt hann hafi verið ungur. Hann tók sér frí frá námi í framhaldsskóla til að starfa sem forritari í Suður-Washington. Eins hætti hann í Harvard, flutti til Nýju-Mexíkó og stofnaði Microsoft. 

„Við Mary Gates höfðum aðeins áhyggjur af þessu, kannski aðeins meira hún en ég,“ var haft eftir föður hans í The Wall Street Journal. Þau höfðu sömu væntingar og aðrir foreldrar til barna sinna um að útskrifast úr skóla en dæmdu hann ekki fyrir að eltast við það sem hann vildi gera sjálfur. 

Að gefast ekki upp

Þegar þú ert að ala upp barn sem hefur mikla greind, getur verið auðvelt að réttlæta að það hætti að æfa sig í hlutum sem það er ekkert sérstaklega gott í. Það gerðu foreldrar Bill Gates ekki. Þau sáu til þess að hann héldi áfram að taka þátt á sundæfingum, í fótbolta og að spila á hljóðfæri - þó að hann væri ekkert sérstaklega hæfileikaríkur á því sviði.

Það hefði verið auðveldara fyrir foreldrana að hafa hann ekki á þessum æfingum, en þeim þótti mikilvægt að hann lærði að hann þyrfti ekki að vera bestur í öllu og að það að mistakast væri hinn eðlilegasti hlutur. 

Bill Gates lét hafa eftir sér í viðtali við Fortune að hann hefði viljað sleppa þessu sjálfur sem ungur einstaklingur: „Þessi reynsla sýndi mér að ég er ekki góður í öllu því sem ég tek mér fyrir hendur. Svo síður sé. Í stað þess að gera einvörðungu hluti sem mér leið vel að gera þurfti ég að gera alls konar hluti. Sem mér finnst frábært að hafa farið í gegnum í dag. Þó að mér hafi ekki þótt það á sínum tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert