Arna Bára flutti með þrjú börn til Spánar

Arna Bára Karlsdóttir er flutt til Spánar með fjölskyldunni.
Arna Bára Karlsdóttir er flutt til Spánar með fjölskyldunni. Ljósmynd/Aðsend

Arna Bára Karlsdóttir flutti rétt um páskana til Spánar með sonum sínum þremur. Maðurinn hennar, Heiðar Árnason, kemur fljótlega til móts við fjölskylduna en Arna Bára segir að flutningarnir hafi gengið vel fyrir sig. Hún hvetur fólk til þess að vera ekki hrætt við að flytjast á milli landa með börn. 

Hvað hafi þið verið lengi á Spáni og hvernig líkar ykkur veran?

„Ég og strákarnir höfum verið hérna frá því tveimur dögum fyrir páska eða um 19. apríl held ég. Okkur liður alveg frábærlega hérna og bara höfum verið svo hamingjusöm,“ segir Arna Bára um flutningana. 

Af hverju fluttuð þið til Spánar?

„Við fluttum upprunalega til Svíþjóðar 17. júní 2017 og eins og frábært og það land er þá hef ég aldrei passað þar inn, sérstaklega ekki verandi sjálfstæð íslensk kona. Það var bara ekki hlustað nema maðurinn minn hringdi eða gerði eitthvað í hlutunum. Ég fékk ömurlegt viðhorf og framkomu sem móðir í fæðingarorlofi og bara einangraðist alveg rosalega. Við ákváðum að flytja til Spánar til að vera nær fjölskyldu og vinum því mamma mín á hús þarna og margir í fjölskyldu Heiðars. Svo þekkjum við fullt af fólki sem bæði á heima hérna og ferðast hingað reglulega.“ 

Öll fjölskyldan.
Öll fjölskyldan. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig er að rífa upp fimm manna fjölskyldu og koma sér fyrir í nýju landi?

„Heyrðu það er bara ekkert mál. Það var aðeins auðveldara að flytja frá Íslandi til Svíþjóðar því þá vorum við öll saman en það var allt önnur saga hérna á Spáni þar sem þetta var bara ég og strákarnir ein á móti heiminum. Samt gekk allt alveg fáránlega vel upp og við höfum aðlagast mjög hratt.“

Hafi þið fundið fyrir öðruvísi menningu og viðhorfi gagnvart börnum á Spáni en þar sem þið hafið búið áður?

„Já hérna er allt alveg frábærlega afslappað og yndislegt. Ég á pláss á leikskóla og í sumarskóla fyrir strákana en þeim er alveg sama hvenær eða hvort þeir mæti. Bara alls staðar þar sem við förum er komið svo vel fram við okkur og þá sérstaklega strákana. Ég fæ svakalega mikla hjálp og þeir mikla athygli þegar við förum út að borða og bara allir alltaf tilbúnir að hjálpa alls staðar.“

Arna Bára fór fyrst ein með synina þrjá til Spánar.
Arna Bára fór fyrst ein með synina þrjá til Spánar. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig finnst þér börnin ykkar taka breytingunum?

„Þeir hafa oft komið til Spánar þannig að þeir hafa alltaf elskað sólina og þeir eru mjög sáttir. Þeir elska að geta farið oft á ströndina og í sundlaugina. Þeir eru líka fljótir og jákvæðir með að læra spænskuna.“

Hefur þú farið eftir einhverjum ákveðnum ráðum til þess að gera aðlögunina í nýju landi auðveldari börnunum?

„Að reyna að búa þau undir það sem er fram undan og kenna þeim að minnsta kosti grunnþætti í málinu til að geta reddað sér í skóla og daggæslu. En annars eru börn alveg frábær að aðlagast, alla vega mín, og bara finnst þetta skemmtilegt og spennandi.“

Ertu með einhver ráð fyrir foreldra sem vilja flytja til útlanda með börnin sín?

„Að bara slá til! Að ekki láta hræðslu við breytingar stoppa sig. Þetta er frábært og spennandi ævintýri og ef þið eruð einstæð eða hjón eða par þá er þetta vel gerlegt og bara æðislegt á allan hátt. Ég er að springa úr jákvæðni með Spán. Sérstaklega vegna þess að ég kom hingað ein með strákana og hef verið ein síðan um miðjan apríl með þrjá litla gaura en samt hefur allt gengið eins og í sögu. Lífið verður samt mun auðveldara eftir nokkra daga þegar maðurinn minn kemur loksins til okkar þar sem það er loksins búið að selja húsið okkar í Svíþjóð og búið að ganga frá öllu.“

Arna Bára er ánægð með lífið á Spáni.
Arna Bára er ánægð með lífið á Spáni. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert