Fagna afmæli prinsins í Karíbahafi

Georg prins verður sex ára á morgun.
Georg prins verður sex ára á morgun. AFP

Georg prins verður 6 ára á morgun, mánudaginn 22. júlí, og mun hann halda upp á afmælið sitt á eyju í Karíbahafinu samkvæmt heimildarmanni The Sun

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem prinsinn ungi heldur upp á afmælið sitt á eyjunni Mustique í Karíbahafi, en fjölskyldan var einmitt stödd á eyjunni fyrir um ári síðan þegar Georg varð 5 ára. Þá eyddi hann fimm ára afmælisdeginum að læra synda í Karíbahafinu. 

Konungfjölskyldan hefur tengingu við eyjuna, sem er hluti af eyjaklasa Sankti Vinsent og Grenadínur. Margrét prinsessa, systir Elísabetar drottningar, átti athvarf þar þegar erfiðleikar bönkuðu á dyrnar í hjónabandi hennar og Anthony Armstrong-Jones á áttunda áratug síðustu aldar. Eigandi eyjunnar, Colin Tennant, gaf þá Margréti hluta af landinu að gjöf og byggði hún sumarbústað þar. Vilhjálmur og Katrín þurfa því ekki að hírast í Airbnb-íbúð á meðan dvölinni stendur.

Mustique er einkaeyja og hefur verið vinsæl hjá frægustu stjörnum heimsins þar sem öryggisgæsla er mikil. Sankti Vinsent eyjarnar eru vinsæll staður ferðamanna, þá sérstaklega eftir að kvikmyndirnar Pirates of the Caribbean voru teknar upp þar.

Fjölskyldan í Kensington-höll mun sóla sig í Karíbahafinu næstu daga.
Fjölskyldan í Kensington-höll mun sóla sig í Karíbahafinu næstu daga. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert