Nefndi soninn Vetur

Alanis Morissette á tónleikum í nóvember síðastliðnum.
Alanis Morissette á tónleikum í nóvember síðastliðnum. AFP

Tónlistarkonan Alanis Morissette eignaðist son 8. ágúst. Það tók hana tíma að eignast öll þrjú börn sín en Morisette er 45 ára. Drengurinn er hennar þriðja barn og fékk nokkuð óvenjulegt nafn. 

Morissette greindi frá því á Instagram að drengurinn hefði fengið nafnið Winter Mercy Morissette-Treadway. Það mætti þýða nafnið sem Vetur Blessun á íslensku. Ekki er víst að nafnið fengi blessun hjá mannanafnanefnd. 

Tónlistarkonan á tvö önnur börn með eiginmanni sínum Mario Treadway. Þau eiga átta ára gamlan son sem heitir Ever Imre og þriggja ára gamla dóttur sem heitir Onyx Solace. 

Morissette dreymdi alltaf um að eignast þrjú börn en sagði í viðtali við Self í vor að þegar hún og eiginmaður hennar voru að reyna að eignast sitt annað barn virtist draumurinn ekki ætla að rætast.

„Mig langaði alltaf í þrjú börn en svo átti ég í erfiðleikum og missti nokkur fóstur svo ég hélt það væri ekki möguleiki,“ sagði tónlistarkonan. Eftir að hún leitaði sér hjálpar hjá mörgum læknum og með smá heppni tókst henni að fæða tvö börn eftir fertugt. 

mbl.is