Alveg pakki að reka 6 manna heimili

Snærós, Freyr ásamt börnunum Freyju, Kára, Urði Völu og Tíbrá …
Snærós, Freyr ásamt börnunum Freyju, Kára, Urði Völu og Tíbrá Myrru. Ljósmynd/Aðsend

Fjölmiðlakonan Snærós Sindradóttir rekur 6 manna heimili ásamt eiginmanni sínum Frey Rögnvaldssyni blaðamanni. Hún segir að það geti alveg verið pakki að reka svo stórt heimili. Stjúpbörn Snærósar eru Freyja 14 ára og Kári 10 ára og saman eiga þau Freyr hina 5 ára gömlu Urði Völu og Tíbrá Myrru sem er 15 mánaða.

Hvernig breytti móður­hlut­verkið þér?
Móðurhlutverkið breytti bæði miklu og merkilega litlu. Ég varð stjúpmamma tvítug og móðir fyrir 23 ára afmælið svo ég hef eðli málsins samkvæmt fullorðnast samhliða þessu hlutverki. Fyrst og fremst er ég skipulagðari og get framkvæmt meira eftir að ég varð mamma.

Hvað hefðir þú vilja vita áður en þú varst móðir?
Það gleymdist alveg að segja mér að ég yrði bara aldrei ein aftur, verandi móðir í sambandi. Það var ekki fyrr en eldri stelpan mín varð þriggja ára sem ég fékk heila helgi út af fyrir mig. Henni varði ég á galeiðunni og svo upp í sófa að horfa á eitthvað sem bara mér gæti þótt skemmtilegt á heimilinu. Einvera er auðlind.

Snærós varð stjúpmamma tvítug og móðir áður en hún varð …
Snærós varð stjúpmamma tvítug og móðir áður en hún varð 23 ára. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig voru fyrstu mánuðirn­ir með ung­barn?
Bara dásamlegir. Ég er svo heppin að hafa eignast stelpur sem sofa mikið og eru hraustar og einstaklega glaðværar og meðfærilegar. Sambland af erfðum og uppeldi, er það ekki bara?

Finn­ur þú fyr­ir pressu frá sam­fé­lags­miðlum að gera hlut­ina á ákveðinn hátt?
Pressan er klárlega til staðar þó ég láti hana ekki hafa mikil áhrif á mig. Núna er til dæmis svakaleg pressa á mæður, fyrst og fremst mæður, að ala börnin sín upp eftir ákveðinni stefnu eða hálfgerðum -isma. Í kringum mig keppast konur við að skrá sig á námskeið til að læra að ala upp börnin sín. Ég þekki barnasálfræðing sem segist, með töluverðum broddi, hlakka til að sjá hvernig þessari kynslóð mun vegna þegar hún svo vex svo úr grasi, hafandi verið alin upp innan þessa uppeldiskerfis.

Nýttir þú þér bumbuhópa á meðgöngunni eða ertu í mömmklúbbi núna?
Ég nýtti mér ekkert slíkt á fyrri meðgöngu. Er í einum öflugum Facebook hóp núna með miklum skvísum. Gaman að því bara.

Hefur þú þurft að skipuleggja þig og forgangsraða öðruvísi eftir að þú varðst móðir?
Ég þurfti að minnsta kosti að kaupa mér stærri íbúð. En auðvitað breytist skipulagið og forgangsröðunin með fleiri börnum. Best er þó að taka þessu með ró. Það er fyrirtæki að reka svona stóra fjölskyldu en ef maður andar í kviðinn þarf ekkert að senda út afkomuviðvörun í hverri viku.

Snærós og Freyr með dætur sínar.
Snærós og Freyr með dætur sínar. Ljósmynd/Aðsend

Besta ráð sem þú átt handa nýbökuðum eða verðandi mæðrum?
Ég er alltaf til í að gefa góð ráð en svo hentar svo ólíkt hverri og einni móður. Get samt ekki undirstrikað nóg mikilvægi þess að hafa með sér piparmyntuolíu í fæðinguna til að anda að sér. Það segir enginn verðandi mæðrum hvað manni getur orðið flökurt í fæðingu og piparmynta bjargar því alveg. Varðandi framhaldið er lykilatriði að slaka á og fylgja innsæinu, ekki mömmugrúppunum. Endalaus samanburður virkar á fólk eins og þurrkur á fallega plöntu.

Hvað legg­ur þú áherslu á í upp­eld­inu?
Sjálfstæði og hugrekki er númer 1,2 og 3. Það þarf að skapa þannig umhverfi að börn séu nógu örugg til að taka af skarið sjálf. Það þarf að kenna börnum snemma að smyrja sér brauðsneið og spyrja eftir vinum svo það sé seinna hægt að kenna þeim að sækja um vinnu og krefjast hærri launa.

Mæðgur í gönguferð.
Mæðgur í gönguferð. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is