Munum við einhvern tímann fá að eignast barn?

Hörður Þór Jóhannsson og Ása Hulda Oddsdóttir á brúðkaupsdaginn sinn.
Hörður Þór Jóhannsson og Ása Hulda Oddsdóttir á brúðkaupsdaginn sinn.

„Ég ligg hér uppi í sófa, klukkan er 6 um morgun og ég get ekki sofið þar sem ég er of kvalin til þess,“ segir Ása Hulda Oddsdóttir sem er með endrómetríósu.

Hún deildi sögu sinni með lesendum í febrúar en síðan hefur gengið á ýmsu í ferlinu að reyna að eignast bar. Eins og kom fram í síðustu grein þá var ég ný komin úr kviðarholsspeglun þar sem kom í ljós að ég var með sjúkdóminn endómetríósu.

Allir helstu samgróningar voru skornir í burtu eða brenndir og ég var sett á hormónatöflur næstu þrjá mánuði sem notaðar eru við sjúkdómnum. Í fyrstu var mér tilkynnt að ég þyrfti að vera á þessum hormónatöflum í sex mánuði og hefði það þýtt að ég hefði ekki farið á blæðingar í sex mánuði eftir aðgerð og því gætum við ekki reynt að eignast barn á meðan. Þetta hljómaði eins og lengsti tími í heimi, enda er maður farinn að verða frekar óþolinmóður eftir þrjú ár af því að reyna. Ég get ekki lýst því hversu hamingjusöm við vorum þegar Arnar Hauksson, læknirinn minn, tilkynnti okkur eftir þrjá mánuði að ég þyrfti ekki að taka þessar töflur lengur og við gætum farið að reyna aftur!

Næstu skef eftir aðgerð

Vesenið við þetta allt saman er að ég er einnig með sjúkdóminn PCOS sem veldur því að ég fæ ekki egglos nema með hjálp. Því byrjuðum við aftur á töflumeðferðum sem við höfðum reynt margoft fyrir kviðarholsspeglunina en þá hafði hún aldrei virkað (þar sem ég var ennþá með samgróningana).

Þessar töflumeðferðir eru langt frá því að vera í uppáhaldi hjá mér þar sem þær hafa svo gífurleg áhrif á líkamann minn og andlegu hliðina. Töflumeðferðin felur í sér að ég byrja á að taka töflur til að koma af stað blæðingum. Þetta þarf allt að tímasetja vel og vandlega og er það gert í samráði við Arnar lækni. Um leið og blæðingar byrja þá tekur við næsta lyf sem er einnig notað við krabbameini. Þetta lyf tek ég í nokkra daga í þeirri von að það komi af stað egglosi hjá mér (sem hefur ekki tekist ennþá).

Nú erum við búin að taka þessa töflumeðferð samfleytt í fjóra mánuði og ég viðurkenni að þetta er búið að vera rosalega erfitt ferli. Ég er búin að þurfa að fara í óteljandi blóðprufur sem ég á alltaf jafn erfitt með þar sem ég er með rosalega mikla nálafóbíu! Með töflunum fylgja óteljandi aukaverkanir sem ég hef þurft að harka af mér þessa mánuði. Ég er alltaf með mikla ógleði, stanslaust þreytt, með mikla krampa í maganum, svo útþanin að mig verkjar, þyngist mjög hratt ef ég passa ekki upp á mataræði og hreyfingu og fleira.

Einnig hafa þessar töflur rosalega mikil áhrif á tilfinningarnar, bæði af því þetta hefur bein áhrif á hormónin hjá mér og gerir mig mjög tilfinninganæma og af því það er alltaf jafn erfitt að taka óléttuprófið í lok tímabilsins og sjá hvert neikvæða óléttuprófið á eftir öðru. Ég á það til að detta stundum niður í miklar efasemdir og svartsýni og gráta stanslaust því mér finnst allt svo vonlaust, en þetta er algjör tilfinningarússíbani sem fylgir þessu öllu saman!

Ég var nýlega send í HSG mælingu þar sem sprautað er vökva í gegnum eggjaleiðarana (meðan ég var vakandi btw!) svo hægt sé að sjá hvort þeir séu opnir. Mælingin gekk ágætlega þó hún hafi verið langt frá því að vera þægileg. Núna tveimur vikum seinna er ég þó að lenda í því að fá sýkingu eftir mælinguna og fylgir henni rosalega miklir verkir og ógleði.

Erfiðleikarnir og efasemdirnar

Þetta ferli er búið að vera erfitt og mér líður eins og það sé búið að vera að eilífu! Ég viðurkenni að ég hef margoft hugsað „ætli við munum nokkurn tímann fá að eignast barn?“ og langað að hætta þessu bara. Allar þessar aukaverkanir og verkir sem ég þarf að díla við í hverjum einasta mánuði eru svo þreytandi og draga svo mikið úr manni en ég er svo heppin að eiga mann sem styður svo vel við mig og er mér sem klettur í gegnum allt. Hörður, maðurinn minn er alltaf svo jákvæður í gegnum allt saman og hefur honum oftast tekið að smita jákvæðninni yfir á mig (sem betur fer). Saman ætlum við að halda áfram okkar ferli og halda í jákvæðnina. Okkar tími mun vonandi koma!

Það hjálpar rosalega mikið að vera með yndislegan lækni sem vill allt fyrir okkur gera! Hann hefur staðið svo vel við bakið á okkur í gegnum þetta allt saman og það hjálpar okkur hvað hann er gífurlega jákvæður með að þetta muni ganga hjá okkur! Eins og hann segir þá ætlar hann ekki að hætta fyrr en þetta hefur tekist.

Núna er komið að fjórða mánuðinum sem ég tek þessar töflumeðferðir og tókum við ákvörðun að prófa aðrar töflur til að koma af stað egglosi hjá mér og vonandi nægir það! Við erum heppin með það að ég er með mörg stór eggbú, legið mitt lítur vel út og eggjaleiðararnir eru báðir opnir. Ég er mjög hraust og huga vel að heilsunni og hjálpar það oftast í svona ferli. Eina vandamálið í dag er þetta egglos sem vill bara ekki eiga sér stað hjá mér. Við erum því jákvæð að ef þessar töflumeðferðir skila ekki árangri þá eigum við miklar líkur ef við förum í glasafrjóvgun. Ég mun leyfa ykkur að fylgjast með mér áfram og ef ykkur langar að fylgjast enn betur með mér í þessu ferli þá er ég rosalega opin með allt á Instagram:



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert