„Dásamlegt að verða mamma aftur“

Elín María Björnsdóttir með dótturina Mathildu sem er sjö mánaða.
Elín María Björnsdóttir með dótturina Mathildu sem er sjö mánaða. mbl.is/Árni Sæberg

Elín María Björnsdóttir rekur stórt og líflegt heimili ásamt unnusta sínum, Claes Nilsson, en samtals eiga þau sex börn. Fyrir rúmlega hálfu ári eignuðust þau dótturina Mathildu.

Elín María er 42 ára en fyrir sjö mánuðum eignaðist hún þriðju dótturina. Unnusti hennar átti svo þrjú börn og því reka þau sex manna heimili. Þegar Elín María er spurð að því hvernig sé að verða mamma á þessum aldri segir hún það dásamlega upplifun.

„Það er dásamleg upplifun að fara aftur í hlutverk móður ungviðis með örlítið meiri reynslu í farteskinu en þegar ég fékk fyrstu dóttur mína í fangið rúmlega tvítug. Ég er klárlega yfirvegaðri, læt ytri aðstæður hafa mun minni áhrif á mig og er meðvitaðri um hvernig ég nálgast hlutina í dag. Maður er auðvitað eldri líkamlega, en ég er svo heppin að dóttir mín sefur allar nætur og er ótrúlega meðfærileg,“ segir Elín María.

-Hvað er það dýrmætasta við móðurhlutverkið?

„Það dýrmætasta er að fá tækifæri til að fá lítinn ómótaðan einstakling í hendurnar og hjálpa honum að finna vængina sína og hefja sig til flugs með sjálfstraust og færni til að takast á við lífið. Ég elska að kynnast nýjum einstaklingi í Mathildu á sama tíma og ég styð eldri börnin að taka sín fyrstu skref út í lífið.“

-Skipta tilfinningatengsl fyrstu mánuðina miklu máli að þínu mati?

„Góð tilfinningatengsl í æsku eru afar mikilvæg fyrir þroska barnsins. Það er margsannað hversu mikilvægt það er frá fæðingu að örva börn með augnsambandi, snertingu, nánd, líkamlegri örvun og samskiptum. Fyrstu árin móta heilastarfsemi barnsins síðar á ævinni. Mannskepnan er eitt af fáum spendýrum þar sem heilinn er ekki fullmótaður við fæðingu og mótast vöxtur og þroski hans eftir þeirri örvun sem við fáum í æsku og í raun út lífið í samblandi við genin okkar. Barn sem fæðist og er aldrei snert eða tekið upp heldur einungis gefinn matur; það visnar upp og deyr. Svo að líkamleg næring ein og sér dugir ekki til. Þessi tengsl eru kölluð tilfinningatengsl og byggjast á því að foreldrar myndi tilfinningatengsl við börnin sín.“

Elín María er að vinna að sinni fyrstu barnabók sem …
Elín María er að vinna að sinni fyrstu barnabók sem heitir Góða nótt. mbl.is/Árni Sæberg

Forvitnin leiddi hana út í heim

Elín María er forvitin í eðli sínu og segir að hún sé alltaf að læra eitthvað nýtt og gefa það áfram bæði til fjölskyldu og í vinnu. Síðustu tvö ár hefur hún starfað hjá Marel en er nú í fæðingarorlofi. Hún leiðir það sem nefnist Global Learning and Development fyrir Marel á alþjóðavísu.

„Þetta er ótrúlega skemmtilegt starf þar sem ég vinn þvert á fyrirtækið í að efla og samþætta menningu milli starfsmanna í ólíkum heimshlutum. Ég hef yfirumsjón með starfsþróunarmálum, veiti stjórnendum fyrirtækisins stuðning þegar kemur að leiðtogafærni, samskiptum, stefnumótun og fleira.“

Elín María er stolt af því að vera hluti af öflugu teymi Marels um þessar mundir. Hún segir starfsfólk fyrirtækisins fært og skemmtilegt fólk sem hún hafi gaman af að um gangast daglega.

Sterkar fyrirmyndir mikilvægar

Hún er á því að ungar stelpur hafi gott af því að eiga fyrirmynd í konu sem stendur í fæturna og bjargar sér í ýmsum aðstæðum.

„Ég hafði tækifæri til þess að ferðast með stelpurnar mínar í tæpa þrjá mánuði um allan heim þar sem þær fengu að upplifa ólíkamenningarheima með mér. Það er án efa ein dýrmætasta reynslan og upplifun sem ég hef átt með eldri dætrum mínum og hefur klárlega mótað þær fyrir framtíðina.“

Elín María segir reynsluna sem hún öðlaðist á ferðalögum sínum hafa haft djúpstæð áhrif á afstöðu hennar til lífsins.

„Að sjá og upplifa frumstæðar aðstæður fær mann til að kunna enn betur að meta hvað maður hefur hér heima. Við Íslendingar höfum svo margt sem við getum verið þakklát fyrir. Sem dæmi þegar kemur að náttúrunni sem er einstök og við ættum að varðveita. Svo ekki sé talað um öryggi sem við búum við hér, mennta- og heilbrigðiskerfið svo dæmi séu tekin.

Hversdagslífið hér er nokkuð sem stór hluti heimsbyggðarinnar kemur ekki til með að búa við. Ég held að við höfum tilhneigingu til að taka því sem sjálfsögðum hlut.“

Bókin hennar Elínar Maríu kemur út í nóvember.
Bókin hennar Elínar Maríu kemur út í nóvember. mbl.is/Árni Sæberg

Við erum líkari en við höldum

Hún segir mannfólkið líkara en við gerum okkur grein fyrir.

„Sér í lagi þegar kemur að ást, fjölskyldu og vinnu. Flestir þrá að tilheyra hópi, hvort heldur sem það er fjölskylda eða vina.

Að framlag þeirra til vinnu sé metið eða leiði til einhvers sem skiptir máli og er gott. Þessi þörf fyrir að tilheyra og að finna til öryggis mótar sjálfstraust og persónuleika einstaklinga og gerir þá færari í að takast á við áskoranir, bæði í einkalífi og í starfi.“

Hún segir að skilningur hennar hafi dýpkast hvað mest með þeirri ákvörðun sem hún tók að virða fjölbreytileikann, ólíkar skoðanir, gildi og sjónarmið, sem hún telur alla eiga rétt á að eiga.

„Það er einmitt í fjölbreytileikanum sem styrkleikurinn liggur, ef færnin til að eiga árangursrík samskipti við ólíka einstaklinga er til staðar. Með því að sýna öllum virðingu sköpum við sameiginlegan árangur.“

Mathilda á mikið af fallegum kjólum og fötum.
Mathilda á mikið af fallegum kjólum og fötum. mbl.i/Árni Sæberg
Elín María er hrifin af versluninni Bíum Bíum þar sem …
Elín María er hrifin af versluninni Bíum Bíum þar sem hún fær fallegar vörur og frábæra þjónustu að eigin sögn. mbl.is/Árni Sæberg



Barnaherbergið griðastaður barnsins

Hvaða máli skiptir barnaherbergið að þínu mati?

„Barnaherbergið skiptir mig máli og finnst mér mikilvægt ef hægt er að búa barni til sinn eigin griðastað. Ég hef alltaf lagt áherslu á að þetta sé staður til að leika sér og dunda. Þó að Mathilda sé bara sjö mánaða unir hún sér mjög vel á gólfinu og reynir að brölta um og leika sér. Að bjóða upp á leikföng sem örva bæði líkama og athygli barnsins finnst mér mikilvægt, sem og að hafa herbergið fallegt. Ég er með notalega lýsingu frá Bambljósi, huggulega mottu úr Epal sem má þvo, rúmið hennar er gamalt frá vinkonu minni og sængurverin, himnasængin og stuðkanturinn er úr Bíum Bíum.

Það er dásamlegt að fylgjast með Mathildu dunda sér í herberginu og spjalla við sig. Hvað varðar herbergið finnst mér afar gaman að blanda saman gömlu og nýju. Hillan er t.a.m. frá eldri dætrum mínum, litlu skórnir prjónaðir af Rósu Björgvinsdóttur handa Siggu minni fyrir 20 árum, Disney-myndin er original Disney-mynd frá pabba hennar sem hefur fylgt honum alla tíð. Svo eru litlu kjólarnir frá því að hún fæddist sem hanga til skrauts og annað praktískt sem maður þarf að hafa tiltækt. Tréleikföng eru í miklu uppáhaldi, bæði umhverfisvæn og falleg. Vagninn og leikdótið er úr Epal og borðið og stóllinn úr Bíum Bíum vekja mikla lukku.“

Sagan á bak við bókina upphaflega fyrir dótturina

Hvað getur þú sagt mér um barnabókina þína „Góða nótt“ sem kemur út í haust?

„Þetta er saga sem er mér ákaflega kær. Hún er samin upphaflega fyrir Tinnu mína sem er 15 ára í dag. En hún var svo myrkfælin að ég ákvað að gera sögu til að hjálpa henni að sigrast á því. Þessi saga þróaðist og ég sagði hana fyrir litlar vinkonur mínar bæði heima og í skíðaferðum. Smám saman bættist í söguna. Þessi saga var sögð vinkonum Tinnu sem áttu erfitt með að gista vegna myrkfælni og allar komust þær yfir það. Það er meira að segja kómískt að segja frá því að þegar þær voru í grunnskóla og voru að fara í skólaferð yfir nótt ræddu þær hvort ég gæti ekki lesið inn söguna fyrir þær á símann svo þær gætu sofnað. Sagan fjallar um lítinn draumálf sem heitir Dögg. Hún ferðast til jarðarinnar með sólinni þegar hún sest og hjálpar öllum börnum að sofa vel. Þetta er litrík og falleg saga, þar sem ég blanda saman ævintýrum, jóga, hugarflugi og húmor.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert