„Getum haft miklu meira hugrekki“

Vignir Guðmundsson ásamt Sólveigu Sif Guðmundsdóttur og dóttur þeirra Jöru.
Vignir Guðmundsson ásamt Sólveigu Sif Guðmundsdóttur og dóttur þeirra Jöru. Ljósmynd/Christopher Lund

Vignir Guðmundsson er þróunarstjóri hjá CCP Games. Hann er stærðfræðingur og tölvunarfræðingur að mennt og er einnig formaður Samtaka leikjaframleiðenda á Íslandi (IGI) og stofnaði sprotafyrirtækið Radiant Games á sínum tíma. Vignir er fjölskyldumaður sem elskar að eyða tíma með dóttur sinni og kærustu, ásamt góðum vinum og stórfjölskyldu. Meðal áhugamála Vignis eru aðferðafræði og fyrirkomulag framúrskarandi fyrirtækja, stafræn vöruþróun- og framleiðsla, framsækin menntakerfi, vatnsföstur og mataræði svo eitthvað sé nefnt. Hann vonar að menntakerfið haldi áfram að breytast í náinni framtíð og nefnir að forritunarlæsi, sé dæmi um lykilfærni 21. aldarinnar.

Hver er fjölskyldustaða þín?

„Ég er í sambúð með Sólveigu Sif Guðmundsdóttur, sem er forritari hjá Gangverki. Saman eigum við dótturina Jöru Vignisdóttur, sem er nýorðin 1 árs.“

Hvað mælir þú með fyrir nýbakaða feður að eiga?

„Það er ótrúlegt hvað lítill stíflaður „nebbi“ getur haft mikil áhrif á líðan ungbarns, sérstaklega á nóttunni. Þá eru góð ráð dýr. Góð „nebbasuga“ (sem þarf þó að nota sparlega vegna slímhúðar) og stór Sterimar saltvatnssprauta eru hér lykilverkfæri.”

Hver er uppáhaldsmaturinn?

„Grjónagrauturinn hennar ömmu, ásamt lambakjötinu hjá mömmu og pabba eru uppáhaldsheimilismaturinn. Uppáhaldsskyndibitastaðurinn er Búllan. Síðan naut og bernaise þegar við förum fínt út að borða.”

Hver er uppáhaldsveitingastaðurinn?

„Grillmarkaðurinn er frábær.”

Hver er uppáhaldsbúðin að versla fyrir barnið?

„Þetta gæti hljómað skringilega, en ég segi Lyfja. Í samanburði við fata- eða dótabúðir, þá fær Jara að öllu jöfnu „mest fyrir peninginn“ eftir nauðsynlegar ferðir í Lyfju. Allavega meðan hún er svona ung ennþá.“

En fyrir móðurina?

„Petit í Ármúla, enda ótrúlega flott barnavöruverslun.”

Hvað vonarðu að verði í gangi í menntakerfinu þegar stúlkan þín fer í skóla?

„Ég vona að íslenskt menntakerfi fagni fjölbreyttum og nýstárlegum viðfangsefnum og kennsluaðferðum enn frekar. Hér má nefna forritunarlæsi, sem er klárlega hluti af lykilfærni 21. aldarinnar. Þá getum við haft miklu meira hugrekki í hvernig við nálgumst kennslu, t.d. með vendikennslu þar sem nemendur geta farið á þeim hraða sem þeim hentar.”

Vignir Guðmundsson með Jöru nýfædda.
Vignir Guðmundsson með Jöru nýfædda. Ljósmynd/Christopher Lund

Hvaða kennsluforrit notarðu á netinu fyrir barnið?

„Við höfum ekkert notað kennsluforrit á netinu meðan Jara er svona ung. Viljum miklu frekar að hún leiki sér inni í stofu með áþreifanlega hluti, hvort sem er dót eða bara sleifar og skálar úr eldhúsinu. Hún fiktar stundum með símana okkar og auðvitað sér á sjónvarpið inni í stofu. Henni finnst þessi tæki mjög spennandi eins og flestum börnum. Elskar t.d. að dansa við lagið Old Town Road með Lil Nas X þegar við setjum það á Youtube.“

Hvaða uppeldisaðferðum mælir þú með?

„Eins og fjölmargir aðrir upprennandi foreldrar þá höfum við kynnt okkur RIE-uppeldisfræðina. Það er margt gott þar, sérstaklega tengt samskiptum af virðingu við börnin sín. En svo er annað í RIE sem ég tengi ekki jafn mikið við. Svo hefur mér alltaf fundist fræði tengd „Zone of Proximal Development (ZPD)“ vera áhugaverð, sem byggjast á hvað barn getur lært í dag án aðstoðar, með aðstoð, eða getur ekki lært fyrr en síðar.”

Hvað keyptir þú þér síðast?

„Ketóne- og blóðsykursmæli. Við Sólveig höfum verið að prófa bæði nokkura daga vatnsföstur og lágkolvetna mataræði (ketó). Svona mælir hjálpar okkur að fá dýpri skilning á áhrifum föstu og mataræðis á líkamann.“

Hvaða bíl mælir þú með?

„Við eigum nýjan Nissan Leaf sem er mjög fjölskylduvænn rafmagnsbíll. Annars finnst mér líka virkilega þægilegt að ferðast með Strætó í vinnuna þá daga sem ég sæki ekki Jöru til dagmömmu.“

Hvaða land heimsóttir þú síðast?

„Svíþjóð. Litla fjölskyldan fór til Stokkhólms í sumar með góðum vinum.“

Hvert fórstu nýverið með fjölskyldunni og bjóst til góðar minningar?

„Við fórum til Flateyjar á Breiðafirði á ættarmót hjá fjölskyldunni minni í sumar. Margar góðar minningar úr þeirri ferð. Flatey er einn af mínum uppáhaldsstöðum á Íslandi.”

Hvernig verður fyrsta afmælisboð barnsins?

„Við erum nýbúin að fagna 1 árs afmæli Jöru með fjölskyldu og góðum vinum. Uppsetningin var mjög eftir bókinni um hvernig Íslendingar halda barnaafmæli. Stutt ræða foreldra, afmælissöngur sunginn, blásið á kerti. Heitir réttir, ostabakkar, brauðmeti, kökur og 6 tegundir af gosi. Allir sáttir.“ 

Hvað langar þig að eiga mörg börn?

„Þrjú.“

Hvað er það skemmtilegasta við að vera pabbi?

„Þegar Jara kemur manni á óvart. T.d. þegar hún er búin að læra eitthvað nýtt eða tekur upp á einhverju mjög „húmorísku“ eða skondnu. Það er eitthvað svo ótrúlega fallegt og gefandi.”

En það erfiðasta?

„Við erum heppin með hvað Jöru hefur heilsast vel. En augnablikin þegar þú neyðist til að halda barninu þínu föstu eru oft mjög erfið. Sérstaklega þegar þau eru svona ung og skilja ekki ástæðuna fyrir þessari gjörð. T.d. þegar læknir þarf að hreinsa merg úr eyrum vegna sýkingarhættu. Illu er best af lokið, en þetta reynir alltaf á pabbahjartað.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert