„Þegar stór mál séu rædd eiga litlir karlar að þegja“

Vilhelm Anton segir mikill heiður að vinna fræðsluefni fyrir börn …
Vilhelm Anton segir mikill heiður að vinna fræðsluefni fyrir börn um tækni- og vísindi. Ljósmynd/Saga Sig

Vilhelm Anton Jónsson er með marga hatta í lífinu. Sumir þekkja hann sem Vísinda Villa, aðrir sem Villi naglbítur. Flestir tengja hann þó við óbilandi áhuga á lífinu og vísindum. Hann horfir mikið inn í framtíðina og vonar að við verðum skynsamari og umburðalyndari fyrir hvort öðru með árunum. Hann er á því að þegar stór mál eru rædd eigi litlir karlar að þegja. 

Hvað er að frétta af þér þessa dagana?

„Það er allt gott að frétta á þessum besta tíma ársins. Á haustin höfum við fallega liti og fáum uppskeru úr sveitum landsins. Það er dimmt á kvöldin og veðrið fjölbreytt svo maður verður alltaf glaður þegar veðrið er gott. Ég held að innst inni þyki mörgum vænt um haustið og skammdegið því við getum þá stjórnað lýsingunni heima. Haft kerti og sigrað skammdegið, klætt okkur í hlýja ull og sigrað kuldann, borðað kraftmikinn og nýjan mat, grænmeti og lambakjöt og sigrað hungrið og veðrið. Það er eitthvað alveg yndislegt við haustið.“

Hvað fékk þig til að starfa með börnum og hvað er að frétta tengt því?

„Þetta byrjað í raun allt saman með Sveppa vini mínum þegar hann var fenginn til að stýra barnaefni á Stöð 2. Hann bað mig um að semja tónlist við þættina. Ég ætlaði alltaf bara að vera rokkstjarna og vera uppá sviði og finna mér gæjalegar stellingar með rafmagnsgítarinn. Þegar vinnan hófst við þættina óx mitt hlutverk og ég endaði bara inn í þeim flestum.

Síðan hef ég haldið áfram að vinna mikið í barnaefni.

Börnin eru það dýrmætasta sem til er af því þau eru framtíðin. Þegar ég tala við krakka er ég að tala inn í tímavél. Þegar ég verð gamall karl, sem er fáránlega langt í, þá verða þau fullorðin og stjórna heiminum. Mér finnst svo mikilvægt að þau hætti ekki að vera forvitin þegar þau verða stór. Það er svo sorglegt þegar fullorðið fólk hættir að vera forvitið og þykist skilja allt og finnst allt bara hversdagslegt og kafar ekki dýpra í hlutina.

Ég hef líka einhverja brennandi þrá að varðveita forvitni og sköpunarkraft hjá börnum og hef ferðast um allt land og talað við krakka um það. Það er svo góð tilfinning þegar maður leggst á koddann á kvöldin að hafa búið eitthvað til, sem var ekki til áður, síðan maður reisti hausinn af honum um morguninn. Það er dýrmætt að geta skapað.“

Hefur þú gaman að því að koma fram?

„Já, mér líður oftast mjög vel upp á sviði. Ég hef verið að koma fram síðan ég var lítill. Ég spilaði á skólaballi þegar ég var 11 ára - þar áður hafði ég komið fram í leikritum og tónleikum. Síðan hef ég meira og minna unnið upp á sviði á einn eða annan hátt. Ég er svo heppinn að það er oftast eitthvað sem ég hef mikinn áhuga á, þá er gaman upp á sviði. 

Mér finnst frábært að koma fram fyrir börn eins og í Vísindasýningunni. Spjalla við þau og kveikja í þeim og svo gera tilraunir og sjá og heyra viðbrögðin við skemmtilegum sýnidæmum úr eðlis- og efnafræðinni.

Ég kenndi heimspeki í grunnskóla í eitt ár og mér fannst það frábært.

Það er eitthvað við samtalið um heiminn og lífið sem mér finnst svo nærandi og gott og er virkilega mikilvægt.“

Hvernig er að vinna efni fyrir börn?

„Það er mjög merkilegt að vinna efni fyrir börn. Það þarf á einhvern hátt að vera sannara og réttara því þau eru svo mikilvægir neytendur menningar. Illa unnið barnaefni getur haft áhrif á allt lífið. Getur beinlínis verið fráhrindandi. Ég er mjög metnaðarfullur og vil vanda mig og hugsa um tilgang þeirra verka sem ég er að gera. Ég vil að þau uppfylli ákveðna hluti sem ég held að séu mjög mikilvægir þegar kemur að því að njóta lista. Það er rosalega dýrmætt að fá að komast að hlutum sjálfur, þó að við hjálpum þeim en þessi tilfinning og hún á líka við um okkur fullorðna fólkið, að fatta eitthvað, komast að því - er ótrúlega góð tilfinning. Hún grefur djúpt um sig í okkur og þeir hlutir lifa lengur með okkur sem við komumst að sjálf. Hvort sem er í heimanámi eða að skoða „abstract“ verk á listasafni. Þegar við búum til tengingarnar sjálf á sér stað galdur.

Ábyrgð þeirra sem vinna efni fyrir börn er mikil því sú list er mótandi inní framtíðina.“

Vilhelm Anton er á því að illa unnið barnaefni geti …
Vilhelm Anton er á því að illa unnið barnaefni geti haft áhrif á allt lífið. Ljósmynd/Saga Sig

Ættum við að leyfa börnunum okkar að prófa sig áfram meira þegar kemur að vísindum og tækni?

„Já, algjörlega. Börn sem fá að fikta og búa til og gera mistök eru mikli líklegri til að hafa gaman af vísindum og tækni en þau sem þurfa að sitja undir fyrirlestri, held ég. Án þess að ég ætli að fara djúpt í það er mjög merkilegt að hugsa um að ég hafði t.d. ekkert gaman af eðlis- og efnafræði þegar ég var lítill. Ég átta mig á því að efnafræðingur þarf að kunna að stilla efnajöfnur en megum við ekki fikta smá fyrst, heyra „búmm“, sjá hluti skipta um ham og brasa bara. Svo má útskýra á skemmtilegan hátt hvers vegna þetta gerist.

Ég held að það sé rosalega mikilvægt að krakkar fái að fikta, prufa og gera mistök. Túlka niðurstöður sjálf og skapa. Í framtíðinni þarf einhver að segja tölvunum hvað á að gera. Þar er skapandi hugsun algjört lykilatriði. Ég finn líka gríðarlega breytingu í þessa átt og held að við séum flest að átta okkur á þessu. Auðvitað eru alltaf einhverjir sem eru neikvæðir, eitthvað úrtölufólk sem sér bara neikvæðu hliðar alls sem nefnt er við þau. En sem betur fer fækkar þeim og Darwin sér um þau í framtíðinni.

Við erum svo ótrúlega heppin sem búum í þessu kraftmikla en fámenna landi að við eigum að þakka fyrir það með því að vera besta útgáfan af okkur sem til er og búa til besta mögulega samfélag sem við getum búið til. Við eigum að nýta kraft smæðarinnar. Hvað við þekkjumst vel og hve stuttar boðleiðir eru í landinu. Við eigum ekki að hugsa: „Við erum svo lítil. Hvað getum við gert?“ Við eigum að hugsa um hvað við erum kvik, hvað við getum komið skilaboðum fljótt á milli, hvað við höfum góðan aðgang að ólíkum greinum og þekkingu, vegna þess að við erum svo „lítil“.

Ég ætlaði í upphafi ekki svo djúpt í þetta, en þetta er mér svo mikið hjartans mál að ég gæti talað um þetta endalaust. En já, börn og fullorðnir líka eiga að prófa og gera allskonar, maður á aldrei að hætta að fikta og vera forvitinn.“

Hvernig sérðu framtíðina fyrir þér?

„Fyrir mér framtíðin frábær og spennandi. Ef maður skoðar söguna hefur reglulega gengið á ýmsu og endalaus átök. Ég held að það verði áfram. Ég væri rosalega til í að geta kíkt hingað aftur eftir 150 ár og svo aftur eftir 1000 ár. En ég er bjartsýnn á framtíðina. Við verðum að passa upp á jörðina okkar. Okkur mun líklega ekki takast að eyðileggja hana en við getum mjög auðveldlega gert hana óíbúðarfæra fyrir tegundina manninn. Það er gríðarlegur ábyrgðarhlutur að hafa verið varaður við en bregðast ekki við. Eða bregðast við með því að öskra á sendiboðann. Það hefur aldrei gagnast.

Framtíðin er spennandi, hún hefur alltaf verið það, alveg frá fyrsta degi. Við erum í framtíðinni núna ef þú hefðir spurt mig að þessu við landnám til dæmis. Ég held að við ættum að rækta sköpunina, forvitnina, tilfinningarnar og svo einfaldlega að nota minna. Það er stór partur af umhverfisvandanum. Við notum bara einfaldlega of mikið. Ef allir nota bara aðeins minn erum við strax komin af stað.

Ég vona í framtíðinni að við verðum skynsamari og umburðarlyndari gagnvart hvert öðru. Það eru ótal hlutir sem geta rústað öllu en hafa ekki gert það hingað til og það er ekki þeim að þakka sem sögðu að allt væri í lagi og ekkert myndi gerast.

Mér finnst að þegar stór mál séu rædd eigi litlir karlar að þegja.

Það er ótrúlega spennandi tímar framundan í tæknigeirum og við höfum haft tilhneigingu til að stórlega ofmeta áhrif tækni á nánustu framtíð en stórlega vanmeta hana til lengri tíma. Eins og góður maður sagði mér um daginn: Framtíðin er núna.“

Er eitthvað sem við ættum að vera að gera fyrir börnin í landinu sem við erum ekki að gera í dag?

„Það er aldrei of mikið af skilyrðislausri ást. Það er kannski erfitt að tala um allt mengið börn, en innan þess eru börn sem má og á að gera meira fyrir. En svona heilt yfir ættum við að sýna þeim að á þau sé hlustað. Bæði í skóla og heima fyrir og þarna er ég ekkert að tala um einhver stór mál endilega. Bara að þau finni að þau hafi rödd. Ræða við þau. Sem samfélag ættum við að opna fleiri leiðir fyrir þeim. Opna tækifæri á samstarfi þvert yfir sýslur, lönd og heimsálfur. Skiptinám milli grunnskóla á íslandi væri kannski magnað eða á framhaldsskóla stigi. Allt sem víkkar sjóndeildarhringinn og kveikir forvitni og hvetur til skapandi hugsunar. Í því liggja bestu lausnirnar að hvað verkefni sem er, hvort sem það er að skipta um spindilkúlu í Land Rover eða skrifa leikrit. Annars erum við á ótrúlega góðum stað finnst mér og á ferðum mínum um landið og í skóla finn ég alltaf fyrir miklum krafti og orku. Við skulum varðveita það. Svo ef allir koma með krakkana sína í Tjarnarbíó á laugardaginn á Vísinda Villa er þetta skeytin inn hjá okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka