Lætur lækni skoða meyjarhaft dóttur sinnar árlega

T.I. á sex börn.
T.I. á sex börn. Getty Images

Rapparinn T.I. sagði í hlaðvarpsþættinum Ladies Like Us að hann færi árlega með dóttur sína, Deyjah Harris, til kvensjúkdómalæknis til þess að athuga hvort meyjarhaft hennar sé rofið. Dóttir hans varð 18 ára á þessu ári og kveðst T.I. hafa fylgt henni til læknis síðan hún varð 16 ára gömul. 

Hann greindi frá þessu þegar hann var spurður um hvernig hann fræddi börn sín um kynlíf. „Við erum ekki bara búin að eiga samtal um kynlíf, heldur förum við árlega til kvensjúkdómalæknis til að athuga með meyjarhaft hennar. Já ég fer með henni og get sagt að meyjarhaft hennar er ekki rofið,“ sagði T.I. í viðtalinu.  

Ummæli T.I. hafa vakið reiði á samfélagsmiðlum. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur gefið út að skoðanir sem þessar séu bæði niðurlægjandi og geti valdið áfalli. 

Rapparinn gekkst við því að meyjarhaftið geti rofnað af öðrum ástæðum en þeim að hún stundi kynlíf. „Sjáðu til læknir, hún fer ekki á hestbak, hún hjólar aldrei, hún tekur ekki þátt í neinum íþróttum. Athugaðu bara með meyjarhaftið og segðu mér niðurstöðurnar,“ segir T.I. að hann hafi sagt lækninum. Þessi orð rapparans hafa verið klippt út úr viðtalinu þegar þetta er skrifað. 

mbl.is