Stolt af kynleiðréttingu sonarins

Hjónin Annette Bening og Warren Beatty.
Hjónin Annette Bening og Warren Beatty. AFP

Leikkonan Annette Bening sagðist í nýlegu viðtali AARP vera stolt af því hvernig syni hennar hefur vegnað í kynleiðréttingarferli sínu. Elsti sonur Bening og leikarans Warrens Beatty er 27 ára og byrjaði að skilgreina sig sem karlmann aðeins 14 ára. 

„Hann gerði eitthvað sem er mjög krefjandi af mikilli prýði og af mikilli greind. Hann er skýr, hugulsamur og ég er mjög, mjög stolt af honum,“ sagði hún um son sinn Stephen Ira sem bar nafnið Kathlyn Elizabeth áður en hann byrjaði að skilgreina sig sem karlmann. 

Saman eiga þau Bening og Beatty fjögur börn á aldrinum 19 til 27 ára. Börnin eru nú orðin fullorðin og leikkonan hefur lært í gegnum árin að hún getur ekki alltaf verndað þau fyrir erfiðum aðstæðum. 

„Þegar ég var yngri hélt ég að hluta til að ég gæti bjargað börnum mínum frá því að verða fyrir skaða sem var auðvitað fáránlegt,“ sagði Bening í viðtalinu. „Þau verða að takast á við sín eigin vandamál.“

mbl.is