Beið lengi eftir því að verða tilbúinn að eignast barn

Ísak og dóttir hans.
Ísak og dóttir hans. Ljósmynd/Aðsend

„Ég eignaðist barnið mitt árið 2017, þá 29 ára gamall. Ég hafði beðið lengi eftir því að verða „tilbúinn“ að eignast barn. Ég horfði á vini mína eignast börn og rúlla því hlutverki upp en samt fannst mér ég ekki nægilega tilbúinn til að leysa þetta ábyrgðarmikla hlutverk. Ég hélt alltaf að ég yrði meira og betur undirbúinn eftir því sem ég yrði eldri,“ segir Ísak Hilmarsson, stærðfræðingur og tölvunarfræðingur. Ísak er þessa dag­ana að safna fæðing­ar­sög­um feðra ásamt sam­býl­is­konu sinni, Grétu Maríu Birgisdóttur ljósmóður. Hann deilir hér fæðingarsögu sinni með lesendum Barnavefjarins.

„Meðgangan gekk ótrúlega vel upp í alla staði. Konan mín var búin að bíða lengi eftir að við eignuðumst barn og hún stóð sig eins og hetja alla meðgönguna. Hún ætlaði alltaf að hafa gaman af meðgöngunni og stóð svo sannarlega við það. Ég er stoltur af því hvernig hún tæklaði öll þau verkefni sem komu upp á meðgöngunni. Það var sama hvað við gerðum, hvort sem við vorum að mæta í eftirlit upp á Landspítala eða ræða um meðgönguna við vini og ættingja, hún var alltaf glöð og spennt yfir því sem koma skyldi.

Skipti þá engu máli hvort hún hafði sofið illa og fyndi fyrir verkjum og auknu álagi á líkamann, hún brosti hringinn.
Konan mín er ljósmóðir og veit því mun meira um barneignir, meðgöngu og fæðingar en ég. Ég hafði alltaf séð fyrir mér að það væri mikið af blóði sem fylgdi fæðingum. Ég er ekki sérlega hrifinn af blóði og horfi nánast undantekningalaust undan ef sýnt er frá aðgerðum í sjónvarpsfréttunum. Þá starir hins vegar konan mín spennt á sjónvarpið.
Konan mín var búin að reyna oft og mörgum sinnum að ræða við mig um fæðingar. Hún hafði lýst þeim fyrir mér og reyndi að selja mér þá hugmynd að það væri ekki algengt að þeim fylgdi mikið blóð. Ég hafði aldrei séð konu fæða barn áður. Aftur á móti hef ég tekið þátt í sauðburði en það er allt öðruvísi finnst mér.
Til þess að undirbúa mig undir fæðinguna okkar sendi hún mér tengla á fæðingarmyndbönd á YouTube. Það voru ekki konur að fæða í þeim myndböndum heldur dýr þar sem hún vissi að mér þætti óþægilegt að horfa á konur fæða. Fyrsta fæðingin sem ég horfði á á ævinni fyrir utan sauðburðinn var því gíraffi að eignast afkvæmi. Önnur fæðingin sem ég upplifði á ævinni var þegar fíll eignaðist sitt afkvæmi. Þriðja fæðingin var svo fæðingin okkar.
Aðdragandinn að fæðingunni var frekar langur.
Ég tók mér frí í vinnunni daginn áður en barnið fæddist þar sem verkir voru að aukast og við vissum ekki hvernig þetta myndi þróast. Við vorum heima hjá okkur í Kópavogi rétt eftir kvöldmat þegar konan mín fór að finna fyrir meiri og tíðari verkjum. Við hringdum því í ljósmóðurina okkar sem kom heim og tók stöðuna. Upprunalega planið var að fæða í glænýrri fæðingarstofu í Björkinni. Ljósmóðirin bauð okkur að fara niður á Landspítala svo konan mín gæti fengið örlitla hvíld þar sem lítið hafði gerst þrátt fyrir mikla verki. Við keyrðum af stað um miðnætti og því var engin umferð og við fljótlega mætt á fæðingardeildina á Landspítala, þar með breyttist planið með Björkina.
Ég man eftir því að þegar við höfðum lagt bílnum og vorum að ganga sem leið lá að spítalanum heyrðust mikil og hávær hljóð úr einu herberginu sem sneri að bílastæðunum. Ég gat ekki ímyndað mér hvað væri að gerast á þessari stofu en vonaði það besta fyrir viðkomandi. Þá stoppaði ástin mín og horfði upp í átt að glugganum og sagði með mikilli ró „þarna er barn að fæðast“ og svo brosti hún. Ég reyndi að halda andlitinu en mér var ekkert sérlega skemmt að hugsa til þess að þessi óhljóð væru fram undan hjá okkur.
Þegar inn var komið fékk betri helmingurinn lyf til að sofa og slaka á.
Sjálfur svaf ég alla nóttina og vaknaði síðan um morguninn og þá höfðu verkirnir minnkað um nóttina í eina klukkustund og komið svo jafnsterkir aftur. Konan mín fékk glaðloft og svaf á milli verkjanna. Ég var með samviskubit yfir því að hafa sofið svona mikið. Dagurinn leið þannig að við reyndum að slaka á en verkirnir voru alltaf sterkir og glaðloftið var sannarlega að vinna sína vinnu. Ég held að þær hafi þurft að fylla sérstaklega á glaðloftskútinn eftir að við fórum heim.
Seinni partinn fengum við svo stofu með baði. Þá fóru verkirnir enn að aukast. Þeir jukust jafnt og þétt eftir því sem leið á kvöldið. Ég reyndi að aðstoða eins og ég gat sem fólst aðallega í að rétta henni vatnsflöskuna sem oftast og halda utan um hana og hvetja með hæfilegu millibili. Konan mín stóð sig auðvitað eins og hetja og ég fylgdist fullur aðdáunar með henni og því sem fram fór. Þegar fæðingin var farin af stað gerðust hlutirnir nokkuð hratt. Ég var sem fyrr á hliðarlínunni með vatnið klárt og reyndi að halda í höndina á henni og hvetja hana áfram.
Þegar um fimm mínútur voru í að kollurinn sæist gerðist nokkuð skemmtilegt atriði. Ljósmóðirin sagði við okkur að núna styttist mjög í kollinn. Þá hættir konan mín allt í einu að rembast og lítur snöggt á mig og spyr: „Er allt í lagi með þig?“ Ég játti því strax og sagði henni að hún stæði sig frábærlega. Þegar ég hafði sleppt þeim orðum leit ég á ljósmóðurina og ég man ennþá eftir svipnum á henni.
Hún var augljóslega hissa á þessari spurningu en fannst þetta líka skemmtilegt. Konan mín ræddi þetta atvik síðar við mig og sagði mér þá að hún vissi að það væri stutt í barnið þarna og að hún ætlaði sko ekki að láta líða yfir mig þarna rétt áður en að því kæmi.
Ég kom sjálfum mér og fleirum á óvart þegar kom að því að klippa naflastrenginn. Ljósmóðirin rétti mér þá skæri og bauð mér að klippa. Ég tók bara við skærunum og sargaði í gegnum strenginn með skærunum eins og ég hefði ekki gert neitt annað. Það var ótrúlega skrítin tilfinning en á sama tíma ógeðslega mögnuð og ánægjuleg.
Við vorum alltaf sammála um að fá ekki að vita kyn barnsins alla meðgönguna. Við pössuðum að segja snemma í sónarskoðunum að við vildum ekki fá að vita kynið svo að það yrði ekki sagt óvart við okkur.

Þegar barnið fæddist var það búið að vera í fangi konunnar minnar dágóða stund þegar ljósmóðirin spyr okkur hvort við viljum ekki kíkja á kynið. Mér var alveg sama hvort kynið það væri, ég var svo yfir mig glaður og hugfanginn af þessu barni. Meistaraverkið var stúlka.

Þegar stúlkan okkar kom í heiminn helltust yfir mig alls konar tilfinningar sem erfitt er að lýsa með orðum. Ég hafði oft fengið að heyra það frá vinum mínum hvað það væri yndislegt að eignast barn. Ég gat auðvitað alveg skilið það upp að ákveðnu marki en ég áttaði mig ekki á því hvaða tilfinningar þetta voru nákvæmlega sem þeir voru að lýsa. Ég var hins vegar fljótur að átta mig þegar dóttir okkar kom í heiminn að þarna var þessi tilfinning sem margir höfðu reynt að lýsa fyrir mér en fáir getað. Það var eins og ég hefði fengið heilt nýtt sett af tilfinningum sem ég gat núna farið að upplifa. Því verður ekki lýst svo glatt hvernig það er að eignast barn og fá þessa miklu ábyrgð sem því fylgir. Það er algjörlega sturluð upplifun.“
mbl.is