Eignuðust 4 börn á 13 mánuðum eftir ófrjósemi

Fjögur börn bættust við fjölskylduna á 13 mánuðum.
Fjögur börn bættust við fjölskylduna á 13 mánuðum. skjáskot/Insagram

Bandarísku hjónin Tracy Caliendo og Pete Pasetsky áttu í erfiðleikum með að eignast barn saman. Þegar það gerðist að lokum eignuðust þau ekki eitt barn heldur fjögur á 13 mánuðum að því er fram kemur á vef Parents. Caliendo átti eitt barn fyrir en þegar hún gifti sig á ný langaði hana að stækka fjölskylduna. 

Caliendo var fertug þegar þau Pasetsky byrjuðu að reyna að eignast barn og endaði með því að þau fóru í tæknifrjóvgun. Í þriðju meðferðinni varð Caliendo ólétt en þau misstu fóstrið. Hún varð aftur ólétt í fjórðu meðferðinni en vildi skoða möguleika á að nýta sér hjálp staðgöngumóður þar sem hún var hrædd um að missa aftur. 

Það tók óvenjulega stuttan tíma að finna staðgöngumóður. Caliendo missti ekki heldur fóstrið og allt í einu voru hún og staðgöngumóðirin óléttar með fjögurra mánaða millibili. Það sem meira er þá var staðgöngumóðirin ólétt að tvíburum. 

Hjónin voru allt í einu með þrjú smábörn, næstum því þríbura. Heldur Caliendo úti vinsælum Instagram-reikningi sem heitir einmitt Almost Triplets eða Næstum því þríburar. Það var nóg að gera á stóru heimili með þrjú ungbörn en álagið átti bara eftir að aukast. 

Þremur mánuðum eftir að staðgöngumóðirin fæddi tvíbura þeirra fannst Caliendo hún vera óvenjulega útblásin. Í ljós kom að hún var ólétt og var því von á fjórða barninu á 13 mánuðum. 

„Ég komst að því að ég væri komin þrjá mánuði á leið,“ sagði fimm barna móðirin. Eftir ófrjósemin datt henni ekki í hug að hún væri ólétt. Hélt hún mögulega að hún væri svona útblásin af því að hún var nýbúin að eignast sitt annað barn. 

„Þegar þú hefur glímt við ófrjósemisvanda og þinn stærsti draumur er að eignast barn og þú endar með fjögur þá ertu bara himinlifandi,“ sagði mamman og sagðist ekki taka börnin sín sem sjálfsagðan hlut. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert