Tala ekki um veiruna fyrir framan börnin

Alec og Hilaria Baldwin tala ekki um veiruna fyrir framan …
Alec og Hilaria Baldwin tala ekki um veiruna fyrir framan börnin. AFP

Alec og Hilaria Baldwin eru í sjálfskipaðri sóttkví heima hjá sér með börnin. Þau tala þó lítið um kórónuveiruna og ástandið fyrir framan börnin til að forðast það að gera þau óttaslegin og kvíðin. 

Í viðtali í The Howard Stern Show sögðu Baldwin hjónin að þrátt fyrir að fjölskyldan sé öll heima, þá ræða þau veiruna aðeins bakvið luktar dyr. Þau eiga fjögur börn saman, Carmen 6 ára, Rafael 4 ára, Leonardo 3 ára og Romeo 1 árs.

„Ég og eiginkonan förum yfir í annað herbergi. Við tölum ekki um hvað er í gangi fyrir framan börnin. Það er enginn tilgangur með því að gera þau hrædd. Við viljum bara að þau séu börn og njóti lífsins og dagsins í dag,“ sagði Alec. 

Hilaria bætti þó við að krakkar séu klárir og að þeir taki eftir því hvað er í gangi. Börnin þeirra hafa spurt þau út í kórónuveiruna. „Það er áhugavert því þau eru ekki stressuð yfir ástandinu svo lengi sem við sýnum þeim að við erum ekki stressuð,“ sagði Hilaria. 

Hilaria sagðist svara spurningum þeirra um veiruna á þá leið að það sé vissulega veira að ganga en að mamma og pabbi geri allt sem þau geti til að halda þeim örugg. Þess vegna sé lífið smá öðruvísi núna og það sé ástæðan fyrir því að þau geti ekki farið út að leika við vini sína. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert