Svona geta börnin lært heima

Harpa Pálmadóttir starfar hjá Menntamálastofnun.
Harpa Pálmadóttir starfar hjá Menntamálastofnun. Ljósmynd/Aðsend

Harpa Pálmadóttir er útgáfustjóri hjá Menntamálastofnun. Nú er hægt að nálgast allt námsefni rafrænt á vegum stofnunarinnar á nýrri fræðslugátt. Harpa segir hér yngstu nemendum grunnskólans hvernig þeir geta nýtt sér vefinn. 

„Kannast þú við Fingrafimi, Lestrarlandið, Stærðfræðispæjarana, Fuglavefinn eða Lesrúnu? Þetta er allt námsefni sem þú hefur kannski séð í skólanum þínum og getur núna skoðað á Fræðslugátt Menntamálastofnunar. Á fræðslugáttinni er miklu meira af allskyns fróðlegu og skemmtilegu efni. Þú getur lesið rafbækur, hlustað á hljóðbækur, horft á fræðslumyndir, skoðað vefi og farið í tölvuleiki til að æfa þig til dæmis í stærðfræði eða íslensku. Fræðslugáttin er full af fjölbreyttu og spennandi námsefni,“ segir Harpa. 

Hvernig geta foreldrar og börn nýtt sér vefinn?

„Gott er að fá einhvern fullorðinn til að aðstoða þig að finna efni sem þú gætir haft gagn og gaman af. Nú er til dæmis nægur tími til að æfa sig að lesa og þá er um að gera að finna bók á fræðslugáttinni. Ef þú ert nemandi á yngsta stigi og ert að byrja að æfa þig að lesa, þá getur þú fundið margar bækur og verkefni í bókaflokknum Listin að lesa og skrifa. Ef þú vilt fræðast um áhugaverða hluti og þjálfa þig í lestri í leiðinni, eru bækur í bókaflokknum Á milli himins og jarðar góðar til þess. Þar eru til dæmis bækur um ánamaðka, hrafninn, tunglið og köngulær. Þar getur þú fengið svör við því hvers vegna göturnar eru stundum fullar af ánamöðkum þegar nýbúið er að rigna og fræðst um köngulær sem geta flogið þó þær séu ekki með vængi.

Gott er að hreyfa sig þegar búið er að sitja eða liggja lengi og lesa. Þá er gott að standa upp, fetta sig og bretta og anda djúpt áður en farið er að gera eitthvað annað skemmtilegt. Á fræðslugáttinni eru heimilisfræðibækur með fullt af uppskriftum og líka upplýsingum um hvernig best er að þvo sér um hendurnar. Líklega kanntu það nú þegar mjög vel en þá er það bara gott mál. Þú getur til dæmis búið til regnbogagrænmetisrétt. Það er ekki flókið, þú finnur bara allt grænmeti sem þú átt og mátt fá og skerð það varlega niður og raðar á bakka. Grænmeti er stútfullt af vítamínum sem er gott fyrir okkur og svo er það líka allavega á litinn. Hvaða liti af ávöxtum og grænmeti hefur þú borðað í dag?

Á fræðslugáttinni er efni sem foreldrar og nemendur geta nýtt fyrir heimanám og verkefni daglegs lífs á meðan samkomubann varir. Hægt er að nýta samverustundir til að fræðast um fugla á Fuglavefnum, spila hreyfispilið, æfa fingrasetningu á vefnum Fingrafimi og eiga notalega lestrarstund. Kennarar og skólar sem nú takast á við krefjandi aðstæður vegna takmarkana á skólahaldi geta bent nemendum sínum á efni vefsins Fraedslugatt.is og í sameiningu tekist á við þessar óvenjulegu aðstæður. Leikum og lærum.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert