Fann fyrir móðurmissinum sem faðir

Vilhjálmur Bretaprins á þrjú börn með eiginkonu sinni, Katrínu hertogaynju.
Vilhjálmur Bretaprins á þrjú börn með eiginkonu sinni, Katrínu hertogaynju. AFP

Vilhjálmur Bretaprins fann fyrir erfiðum tilfinningum í tengslum við lát móður sinnar þegar hann varð faðir. Prinsinn sem á þrjú börn með eiginkonu sinni, Katrínu hertogaynju, opnaði sig um líðan sína í nýrri heimildarmynd að því fram kemur á vef BBC. 

Myndin Football, Prince William And Our Mental Health fjallar um geðheilbrigði og verður sýnd seinna í vikunni. Í myndinni ræðir Vilhjálmur við fyrrverandi fótboltakappann Marvin Sordell. 

Sordell viðurkenndi að það að verða faðir hefði verið það erfiðasta sem hann hefði upplifað en sjálfur ólst hann upp án föður. „Að eignast börn breytir öllu í lífinu, það gerir það,“ svaraði Vilhjálmur þegar Sordell opnaði sig um þetta. 

„Og ég er sammála þér. Ég held að þegar þú hefur orðið fyrir einhverju mjög erfiðu í lífinu —og það getur verið eitthvað eins og þú segir að faðir þinn var ekki til staðar, mamma mín lést þegar ég var yngri — þá geta tilfinningarnar komið aftur á öðrum tíma í lífi þínu,“ sagði Vilhjálmur en móðir hans, Díana prinsessa, lést í bílslysi árið 1997 þegar Vilhjálmur var 15 ára. 

Díana prinsessa.
Díana prinsessa. AFP

Prinsinn viðurkenndi að það að verða foreldri væri ein besta tilfinning í lífinu en jafnframt ein sú skelfilegasta. Vilhjálmur sagði tilfinningarnar stundum koma upp úr þurru, þegar hann ætti síst von á þeim. Hann hélt kannski að hann væri búinn að takast á við tilfinningarnar. Vilhjálmur varð fyrst faðir þegar Georg prins kom í heiminn í júlí árið 2013.

„Og það er eiginlega enginn til þess að hjálpa þér. Mér fannst það klárlega mjög yfirþyrmandi stundum,“ sagði prinsinn um föðurhlutverkið en sagði jafnframt að hann og Katrín eiginkona hans væru dugleg að styðja hvort annað á erfiðum tímum. 

Katrín og Vilhjálmur með Karlottu prinsessu og Georg prinsi.
Katrín og Vilhjálmur með Karlottu prinsessu og Georg prinsi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert