Skólahreysti keyrt í gegn á þremur dögum

Skólahreysti mun fara fram á fimmtudag, föstudag og laugardag.
Skólahreysti mun fara fram á fimmtudag, föstudag og laugardag. Skólahreysti

Skólahreysti fer aftur í gang á fimmtudaginn 28. maí. Undir eðlilegum kringumstæðum hefði undankeppnin átt að fara fram í mars og úrslitin fram í apríl en vegna kórónuveirunnar var keppnin færð fram í maí. 

Nú verður keppnin keyrð í gegn á þremur dögum. Á fimmtudag verða tvær keppnir þar sem 10 skólar etja kappi í hvort skipti. Á föstudag verður sami háttur hafður á og á laugardag fer svo úrslitakeppnin fram.

Andrés Guðmundsson, einn af skipuleggjendum keppninnar, segist hafa fundið fyrir miklum áhuga fyrir keppninni á meðan samkomubann var í gildi og því sé það frábært að geta loksins haldið keppnina.

Áður en samkomubann tók gildi fóru tveir riðlar í Skólahreysti fram á Akureyri í byrjun mars. Þar fóru fram tveir riðlar og sigruðu Lundarskóli og Varmahlíðarskóli. Þeir skólar hafa keppnisrétt í úrslitunum.

Riðlarnir verða nú blandaðir, ekki landsbyggðaskiptir. Skólar af Vesturlandi, Vestfjörðum, Suðurlandi, Reykjanesi og af Stór-Reykjavíkursvæðinu munu etja kappi. Skólarnir sem vinna á fimmtudag og föstudag etja svo kappi við Lundarskóla og Varmahlíðarskóla á laugardag.

Vegna tilslakana á sóttvarnarreglum er mögulegt að halda keppnina nú í vikunni, en líkamsræktarstöðvar fengu leyfi til að opna í gær, mánudag. Verður þó farið eftir öllum helstu reglum í keppninni. 

Engir áhorfendur verða á pöllunum en keppnin verður sýnd beint á RÚV. Þar að auki verður lágmarksmannskapur í kringum keppnina og sótthreinsað á milli riðla.

„Við ákváðum að reyna að halda öllu í lágmarki því það er náttúrulega ný byrjað að slaka á. Við viljum ekki að eitthvað fari úr böndunum. Við erum ekki búin að fá neina neikvæða pósta í 16 ár, frá því við byrjuðum að halda Skólahreysti og við viljum halda því borði hreinu,“ sagði Andrés. 

Fimmtudagur 28. maí

14:30-15:30 - Undankeppni

17:00-18:00 - Undankeppni

Föstudagur 29. maí

14:30-15:30 - Undankeppni

17:00-18:00 - Undankeppni

Laugardagur 30. maí

19:40-20:40 - Úrslit

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert