„Fæðingin gekk vel og eiginlega of hratt“

Annarósa ásamt syninum Elmari eftir fæðingu. Við hlið þeirra glittir …
Annarósa ásamt syninum Elmari eftir fæðingu. Við hlið þeirra glittir í Samúel, sambýlismann Önnurósu. Ljósmynd/Aðsend

Annarósa Ósk Magnúsdóttir, bloggari á Uglur.is, eignaðist soninn Elmar Jökul í ágúst í fyrra með kærasta sínum Samúel Gísla Kárasyni. Annarósa segir að móðurhlutverkið sé yndislegt en að sama skapi krefjandi. Hún segir að ekki sé talað opinskátt um allt sem tengist fæðingum og að vera með ungbarn. 

„Mér finnst ég vera hamingjusamari, metnaðarfyllri og svo ótrúlega þakklát fyrir að fá að ganga með og eignast barn,“ segir Annarósa um það hvernig móðurhlutverkið breytti henni. Hún segir að hún vilji vera besta útgáfan af sjálfri sér fyrir son sinn. Hún vill vera hvetjandi og sterk fyrirmynd fyrir son sinn þannig að hann líti upp til hennar og leiti til hennar. 

Eins og flestar frumbyrjur vissi Annarósa alls ekki allt áður hún varð móðir. Það er ýmislegt sem hún hefði viljað vita meira um. Það hefði meðal annars getað komið í veg fyrir erfiðar tilfinningar. Hún segir lítið talað um hluti eins og hvernig það er eftir fæðingu og annað. 

„Móðurhlutverkið getur litið út fyrir að vera svo auðvelt, en það er bara frekar mikið krefjandi hlutverk. En það er besta og dýrmætasta hlutverk sem mér hefur verið gefið.

Ég hefði líka verið til í að heyra það að það væri allt í lagi ef öll börn vilja ekki vera á brjósti. Okkur gekk ágætlega frá því hann fæddist í ágúst og þar til í desember en hann var bara ekki að fá nóg og vildi ekki taka brjóstið lengur,“ segir Annarósa Hún hætti með son sinn á brjósti þegar hann var fjögurra mánaða en það var ekki í fimm mánaða skoðun sem hjúkrunarfræðingur benti foreldrunum á að þurrmjólk væri orðin svo góð nú til dags að það væri ekkert verra að nota hana. „Bara ef einhver hefði sagt þetta fyrr af því að ég var búin að gráta mig í svefn í fjóra mánuði fyrir að brjóstagjöfin hafi ekki gengið nógu vel frá byrjun og að hann væri byrjaður að hafna brjóstinu.“

Elmar Jökull hætti á brjósti fjögurra mánaða.
Elmar Jökull hætti á brjósti fjögurra mánaða. Ljósmynd/Portway Portraits

Kom eitthvað á óvart við móðurhlutverkið?

„Þessi ólýsanlega ást fyrir barninu sínu. Ég myndi gera bókstaflega allt fyrir barnið mitt. Einnig hvað maður spáði mikið í litum á hægðum þegar hann var yngri, hvernig pissið væri og svona.“

Finn­ur þú fyr­ir pressu frá sam­fé­lags­miðlum að gera hlut­ina á ákveðinn hátt?

„Það er ákveðin pressa frá samfélagsmiðlum um hvernig allt á að vera. En maður verður sjálfur að gera sér grein fyrir því að það eru ekki allir eins. Maður býr við mismunandi aðstæður, ekkert barn er eins og engir foreldrar eru eins. Maður getur ekki verið að bera sig saman við næsta mann. Ég hef að minnsta kosti verið að reyna að temja mér það að gera þetta eftir mínu hjarta og höfði. Það sem ég tel best fyrir barnið mitt frekar en eftir hvernig aðrir gera. En svo eru til margar jákvæðar fyrirmyndir á samfélagsmiðlum sem hafa ekki slæm áhrif og eru bara að sýna frá þeim vera að gera sitt besta.“

Litla fjöskyldan, Samúel, Annarósa og Elmar Jökull.
Litla fjöskyldan, Samúel, Annarósa og Elmar Jökull. Ljósmynd/Portway Portraits

Nýttir þú þér bumbuhópa eða mömmuklúbba?

„Ég var í bumbuhópi og er í einum mömmuhópi. Við vorum nokkrar sem hittumst sem stofnuðum mömmuhóp út frá bumbuhópnum.“

Hvernig var meðgangan?

„Meðgangan gekk lygilega vel. Ég var með smá ógleði fyrst og svo smá brjóstsviða í lok meðgöngu ásamt því að vera með meðgöngusykursýki. En hún var ekki að há mér neitt. Ljósmóðirin nefndi að ef mörkin hefðu ekki verið lækkuð hefði ég ekki verið greind með það. Ég var ekki á insúlíni en í endann fékk ég töflur einu sinni á dag.“

Hvernig var fæðingin?

„Fæðingin gekk vel og eiginlega of hratt fyrir sig. Ég var gangsett, fékk fyrstu töfluna klukkan níu um morguninn og fékk fyrsta almennilega verk í kringum miðnætti. Mætti upp á deild um hálftvö, ég var með tíu í útvíkkun um fjögurleytið og hann fæddist klukkan 05:08. En ég var í sjokki eftir á hversu hratt hún gekk fyrir sig. Ég rifnaði smá en fæddi hann deyfingarlaust, eða bara með glaðloftinu,“ segir Annarósa sem segir jafnframt að hún hafi varla náð utan um það hversu fljótur sonur hennar var í heiminn. Eins og hún segir í bloggfærslu um móðurhlutverkið áttaði hún sig eiginlega ekki á því að hún væri orðin móðir fyrr en einum til tveimur dögum eftir að hún kom heim af spítalanum eða þremur til fjórum dögum eftir fæðingu. Henni leið ekki strax eins og hún væri móðir sonar síns. „Mér leið ömurlega fyrir það að ég tengdist honum ekki strax og var með samviskubit í margar vikur.“

Annarósa mælir með því að verðandi og nýbakaðar mæður njóti tímans með börnum sínum þar sem þau stækka svo hratt.

„Hlustaðu á sjálfa þig og hvað þú heldur að sé best fyrir barnið. Það sem skiptir mestu máli er að reyna sitt besta, enginn getur gert betur en það.“

Mæðginin saman.
Mæðginin saman. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is