Húsverk sem henta börnum

Það er bæði þroskandi og gefandi fyrir börn að hjálpa …
Það er bæði þroskandi og gefandi fyrir börn að hjálpa til á heimilinu. Unsplash.com

Það að börn hjálpi til á heimilinu er bæði þroskandi og gefandi fyrir þau. Þau læra ábyrgð og létta um leið á vinnuálagi foreldra sinna. Það getur hins vegar reynst krefjandi að hvetja þau til samvinnu. 

Leiðandi sérfræðingar segja að maður ætti ekki að einblína um of á sjálf verkin heldur að þetta sé bara eitthvað sem maður geri á heimilinu. Eitthvað sem þykir sjálfsagt. 

Það að hafa ákveðnum skyldum að gegna á heimilinu er ekki bara gefandi heldur kennir börnum einnig ákveðna lífshæfileika eins og skipulagningu. Það að hver hlutur eigi sér sinn stað. Þá læra börn einnig að það sé hægt að skipuleggja sig fram í tímann, ganga frá jafnóðum og brjóta stór verkefni í minni viðráðanlegri verkefni svo fátt eitt sé nefnt.

„Við viljum reyna að kenna börnum að það séu vissir hlutir sem við viljum gera og vissir hlutir sem við þurfum að gera. Húsverk eru ákveðin leið til þess að kenna þá lífsreglu," segir Damon Korb barnalæknir.

Mælt er með því að halda utan um skipulag húsverka með þar til gerðri töflu sem hægt er að merkja við þegar hvert húsverk er fullklárað. Þannig þurfa foreldrar ekki stöðugt að vera að minna börn sín á verkefnin. 

Húsverkum skipt eftir aldri:

  • 2 til 5 ára: Setja óhreinan þvott í þvottakörfu, taka til leikföng og setja óhreina diska í eldhúsvaskinn. Kennir ákveðna röð atburða.
  • 6 til 7 ára: Gefa gæludýrum að borða og leggja á borð. Kennir mikilvægi þess að hjálpa.
  • 8 til 9 ára: Undirbúa leikfimistöskuna sína, ganga frá hreinum þvotti, taka úr uppþvottavélinni. Kennir að allt eigi sér sinn stað.
  • 10 til 11 ára: Útbúa morgunverð, fara út með ruslið, ryksuga herbergið sitt. Kennir sjálfstæði.
  • 12 til 15 ára: Þvo þvott, taka til í garðinum, þrífa baðherbergið. Kennir að forgangsraða þarfir umfram langanir.
  • 16 ára og eldri: Strauja föt, gera við föt, elda mat. Almenn kunnátta sem undirbýr börn fyrir lífið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert