Nafnið Karen nýtur minni vinsælda

Amanda Seyfried lék Karen Smith í kvikmyndinni Mean Girls.
Amanda Seyfried lék Karen Smith í kvikmyndinni Mean Girls. AFP

Nafnið Karen er sagt njóta síminnkandi vinsælda í heiminum ef marka má niðurstöður vefsíðunnar Babynames.com. Þetta kemur fram á fréttaveitunni TMZ.com.

Nafnið Karen hefur átt undir högg að sækja síðustu ár. Nafnið hefur unnið sér sess sem slangur og lýsir miðaldra, hvítri konu sem þykir kröfuhörð langt umfram það sem eðlilegt þykir. Uppruni slangursins er sagður eiga rætur að rekja til notanda samfélagsmiðilsins Reddits sem átti fyrrverandi eiginkonu að nafni Karen og tjáði sig um hana með bitrum hætti. Sá reikningur er ekki lengur virkur.

Karen er oftast lýst sem ljóshærðri konu með stutt hár og á netinu flæða brandarar um Karen undir myllumerkinu #karenmemes og #fuckyoukaren. Fjölmiðlar og femínistar hafa vakið athygli á þessu og lýsa þessari notkun nafnsins sem kvenhatri og stéttarfordómum í garð kvenna sem hafa það eitt til sakar unnið að gera kröfur í lífinu.

Hvað sem því líður eru vinsældir nafnsins mun minni erlendis og þá sérstaklega í Bandaríkjunum. Um 75% færri velja Karen sem eitt af sínum uppáhaldsnöfnum ef marka má tölur vefsíðunnar Babynames.com. Hins vegar hefur tíföld aukning verið á því hversu margir fletta upp merkingu nafnsins og gæti það verið vegna þess hveru umdeilt það er. mbl.is