Var unglingur þegar mamma sló í gegn í vinnunni

Arianna Huffington ásamt dætrum sínum þeim Christina og Isabellu.
Arianna Huffington ásamt dætrum sínum þeim Christina og Isabellu. mbl.is/skjáskot Instagram

Fjölmiðlarisinn Arianna Huffington, einn stofnenda The Huffington Post, segir mikilvægt að leyfa börnum sínum að fylgjast með áskorunum sínum í lífinu. Þetta kemur fram á vef Entrepreneur

Hún á tvær uppkomnar dætur, þær Christina og Isabellu, sem báðar hafa fengið að fylgjast með bæði sigrum en einnig áskorunum móður sinnar. 

„Það er ótrúlega áhugavert að fylgjast með því hvernig mamma byggði upp fjölmiðil sem sumir gætu talið að hefði verið auðvelt fyrir hana frá byrjun. Við systurnar höfum getað notað þessa reynslu hennar við að ákvarða feril okkar. 

Við systurnar vorum táningar árið 2005 þegar fjölmiðillinn leit dagsins ljós. Við fylgdumst með mömmu vera hugrakkri, sáum hversu vel henni gekk, en fengum einnig að vera nálægt þegar hún gerði mistök og þurfti að erfiða.

Mamma gefst ekki upp þótt á móti blási. Hún hefur alltaf staðið upp aftur. Svo ef ég sem dæmi geri eitthvað sem gengur ekki upp í lífinu, þá get ég litið til mömmu sem í það minnsta lærir af hlutunum og heldur svo alltaf áfram. Lífið er ekki auðvelt og alls ekki fullkomið,“ sagði Isabella í viðtalinu. 

Isabella starfar sem listakona. Christina hefur fetað í fótspor móður sinnar og starfar sem framleiðandi og fjölmiðlakona. 

mbl.is