Lítur á kennarastarfið sem listgrein og kennir áfanga um Harry Potter

Ármann Halldórsson kennari.
Ármann Halldórsson kennari.

Ármann Halldórsson, heimspeki- og enskukennari í Versló til fjölda ára, segir að galdurinn á bak við gott nám og góða kennara sé meðal annars áhersla á virka sköpun og almennt stuð. Hann segir það köllun sína að hafa gerst kennari á sínum tíma og sem slíkur hefur hann bæði miklar skoðanir og ástríðu fyrir sínu starfi. 

Sjálfur á Ármann óhefðbundinn námsferil að baki miðað við það sem gengur og gerist meðal Íslendinga. Hann byrjaði grunn- og framhaldsskólaferil sinn í Southhampton á Englandi og síðar í Nairobi í Kenía, en var þó að mestu í Hvassaleitisskóla á sínum grunnskólaárum. Síðar lá leið hans í MH, til Árósa og í Háskóla Íslands.

„Mér leið alltaf vel í skóla enda var ég líklega það sem kalla mætti „sterkur“ nemandi svona bóklega. Svo hafði ég líka ákveðið forskot þar sem ég hafði enskuna í forgjöf frá því ég var lítill. Nú svo er mamma mín kennari og ég er af mikilli kennaraætt svo starfsvalið reyndist kannski ekkert sérstaklega frumlegt,“ segir Ármann sem fékk líka snemma áhuga á fjölbreytileika í kennsluaðferðum. „Mér þótti alltaf verkefnavinna og viðfangsefni sem kröfðust umhugsunar og umræðu mikið skemmtilegri en þessi hefðbundni utanabókarlærdómur þegar ég var sjálfur í skóla. Til dæmis fannst mér tilraunakennt verkefni í samfélagsfræði um líf Inúíta og Masaia í Tansaníu mjög spennandi en þetta þótti því miður allt of flippað á sínum tíma, var kallað „söguskammdegið“ og drepið niður. Að mínu mati var það stórkostlegt menningarslys, einn af stóru ljótu blettunum í skólasögu Íslands,“ segir Ármann ábúðarfullur.

Upplifði arfaslaka kennara og óbærilega leiðinlega tíma

Eins og áður segir stundaði Ármann nám í Nairobi um hríð. Hann segir það hafa verið mikla upplifun fyrir sig, ljóðelskan drenginn, að kynnast Shakespeare, Austen og fleiri klassískum höfundum þegar hann var þar við nám í ensku. Hann segir að námið þar hafi ekki verið mjög tilraunakennt en kröfurnar hafi verið meiri en hann hafi áður kynnst og að þar hefði verið ákveðin háskólastemning sem höfðaði til hans. Þá segir hann að árin í MH hafi líka verið frábær og þá ekki síst félagslega. Bæði hvað varðar skólafélaga og kennarana.

„Svo skiptir það reyndar líka máli að á öllum skólastigum (og ekki síst í háskóla) upplifði ég kennara sem mér þóttu arfaslakir, tímarnir hjá þeim voru alveg óbærilega leiðinlegir og athafnir þeirra og aðferðir skiluðu að mínu mati engu. Það er ótrúlega sorglegt að fólk velji sér ævistarf sem það veldur svona illa en á sama tíma má líta á þetta sem brýningu og jafnvel áskorun. Fólk getur spurt sig hvað það sé sem getur klikkað svona illa,“ segir Ármann sem sjálfur er með mikla ástríðu fyrir sínu starfi og segir það alltaf hafa kallað á sig.

„Auðvitað hef ég prófað hin og þessi störf eins og gengur og gerist en ég hef hvergi fundið mig eins vel og í kennslunni. Sem nemandi hafði ég alltaf mikinn áhuga á því sem kennararnir voru að bauka og ég hugsa að ég hafi pælt meira í kennsluaðferðum, námsefni og slíku en kannski gengur og gerist. Svo verð ég oft hissa þegar ég fatta að einhver sem var með mér í skóla var kannski ekkert að spá í svoleiðis: að það væri ég sem var skrýtni gaurinn en ekki hinir,“ segir hann og hlær.

Krökkunum líður betur í bekkjarkerfinu

Ármann hefur kennt á öllum skólastigum en lengst af hefur hann starfað sem kennari í Versló, eða frá árinu 1998. Hann segir að áhugi krakkanna á námi geti verið mjög mismunandi eftir árgöngum en að fyrst og fremst ráðist hann af stemningu í bekkjum.

„Nú er það náttúrlega þannig að nemendurnir sem koma til okkar í Versló eru upp til hópa „sterkir á bókina“ eins og sagt er. Engu að síður er mismunandi stemning gagnvart námi milli bekkja og krökkunum líður náttúrlega misvel. Þegar ég byrjaði að kenna var ég mikill fylgismaður áfangakerfisins en eftir að hafa kennt í bekkjaskóla í öll þessi ár þá hef ég komist að því að í bekkjarkerfinu býr ákveðinn styrkur, og þá einkum varðandi það að ég held að krökkum líði í heildina betur í bekk en þegar þau þurfa að flakka milli námshópa. Þau byggja félagslegt öryggi á því að tilheyra hópi sem þau geta leitað til. Á þessu eru samt auðvitað undantekningar og ég veit að þó ég hafi verið í frábærum vinahópi í MH þá hafa margir sem ganga í áfangaskóla ekki verið svo heppnir.“

Kennarar mega ekki taka sjálfa sig of hátíðlega

Spurður að því hvernig best sé að vekja góðan námsanda hjá krökkum segist Ármann halda að þar komi nokkur skref inn í myndina.

„Í fyrsta lagi þarf gott utanumhald um líðan nemenda þar sem kennarar, námsráðgjafar, stjórnendur og allur skólinn vinna saman. Þá þarf einnig áhugasama og kraftmikla kennara sem taka sjálfa sig ekki of hátíðlega. Námsmatið þarf að vera fjölbreytt og sveigjanlegt en aðalatriðið er þó alltaf að nemendur séu virkir bæði í námi og félagslífi, – að þeir finni að á þá sé hlustað og þeirra hagsmunir séu í fyrirrúmi. Ég held að við í Versló stöndum að mörgu leyti vel í þessum málum þó það megi auðvitað alltaf bæta sig.“

Ármann segir að eitt af því sem geri framhaldsskóla að skemmtilegum stað fyrir bæði nemendur og kennara sé að þar mætist í vissum skilningi tveir heimar. Annarsvegar heimur grunnskólans og hinsvegar heimur háskólans og hann segir að þetta birtist helst í því hvernig týpur kennararnir séu. „Annars vegar er verið að pæla í velferð nemenda, bekkjaranda, aga og svona ýmsu þess háttar sem maður tengir ef til vill meira við grunnskólann, og hinsvegar er komin töluverð dýpt í þetta faglega. Stöku kennarar (mögulega t.d. í raungreinum) eru mjög miklir fagmenn í sínum greinum en kannski ekki alltaf færastir í að meta andrúmsloft í nemendahóp eða eitthvað þess háttar. Að finna rétta jafnvægið þarna á milli er að mínu mati það sem gerir góðan framhaldsskóla frábæran. Ég vil svo náttúrulega meina að ég eigi hlutdeild í báðum þessum heimum og sé þess vegna á hárréttum stað, í allri minni hógværð,“ segir Ármann sposkur.

Skilur ekki hvers vegna bekkjarkerfið er ekki algengara þegar vinsældir þess hafa löngu sýnt sig og sannað

Í þessu samhengi liggur beint við að nefna vinsældir Verzlunarskólans en þangað komast færri að en vilja og þannig hefur það verið í mörg ár.

„Ég myndi náttúrlega aldrei segja annað en að Versló sé frábær skóli og ég stend við það. Við eigum flott félagslíf og bjóðum upp á spennandi og fjölbreytt nám. Hins vegar þekki ég vel til í framhaldsskólum landsins og veit að þeir eru flestir mjög góðir, þannig að það að við í Versló séum alltaf langvinsælust ár eftir ár skil ég ekki alveg, – svona ef ég á að alveg vera hreinskilinn,“ segir Ármann og nefnir í þessu samhengi bekkjarkerfið aftur.

„Mér er það hulin ráðgáta hvers vegna allir framhaldsskólar á Íslandi, nema Versló, Kvennaskólinn, Menntaskólinn á Laugarvatni og MR og MA eru áfangaskólar. Það er í rauninni þannig að allir skólarnir hafa verið þvingaðir til að byggja bekkjarkerfið sitt á áfangakerfinu og því finnst mér það skjóta afar skökku við að meðan bekkjarskóli er langvinsælastur ár eftir ár eru bara stofnaðir nýir áfangaskólar, og bekkjarskólum breytt í áfangaskóla. Ég hef svo líka höggvið eftir því að áhugaverðar tilraunir á framhaldsskólastiginu, til dæmis K2 í Tækniskólanum, eru í raun með bekkjarskólasniði. Mér finnst það líka ótrúlega ósanngjarnt að það sé mjög erfitt að komast í skóla með bekkjarkerfi nema nemandinn sé með mjög háar einkunnir því eiginlega held ég að „sterkir nemendur“ eigi að mörgu leyti meira erindi í áfangakerfið. Svo vil ég líka meina að ef það á að gera námið sveigjanlegra, til dæmis hætta að láta stundatöfluna stýra öllu, prófa sig áfram með fjölbreytilegri nýtingu á skólarýminu, beita þverfaglegri kennslu og svo framvegis, þá sé bekkjarkerfið miklu heppilegri grundvöllur en áfangakerfið sem krefst þess að allt nám sé neglt niður og skilgreint samkvæmt þessu dularfulla fyrirbæri „einingunni“ – sem er ákaflega vafasöm hugsmíð.“

Alþjóðasamstarfið hefur gefið Versló styrk

Ármann telur einnig að vinsældir Versló megi rekja til þess hversu öflugur skólinn hefur verið sem þátttakandi í alþjóðasamstarfi og þar hefur hann lagt sín lóð á vogarskálarnar.

„Alþjóðasamstarfið hefur verið mikill styrkur og tækifæri fyrir nemendur. Þau hafa fengið að ferðast til ólíkra landa og kynnast fjölbreyttum aðstæðum, einkum í Evrópu, og þetta hefur verið alveg frábært,“ segir hann og bætir við að hann sé að taka við starfi sem verkefnastjóri alþjóðastarfs í Versló nú í haust.

„Í alþjóðasamstarfinu eru allskyns sóknarfæri sem margir skólar nýta, og aðrir skólar mættu bæta aðeins úr, þó það sé vissulega lægð á þessu sviði meðan Covid-martröðin hvílir yfir. Alþjóðastarfið er gott dæmi um nám sem er óhefðbundið, fer út fyrir kennslustofuna en skilar á endanum meira en margt annað sem sýslað er í menntakerfinu.“

Kennir valáfanga um Harry Potter og sókratískar samræður

Ármann hefur orð á sér fyrir að vera nokkuð nýjungagjarn kennari sem er til í að prófa ýmsar leiðir þegar kemur að kennslunni.

„Þegar ég byrjaði að kenna ensku í Versló kom ég inn í mjög formfast og hefðbundið umhverfi. Ég var með allskonar hugmyndir um að breyta heiminum en hugsaði samt „easy does it“ og fór því ekki allt of geyst. Ég hef í gegnum árin unnið með frábærum hópi og smám saman hafa orðið allnokkrar breytingar á starfi okkar. Ég á eitthvað í því en fyrst og fremst myndi ég segja að þarna sé frábær saga um samstarf, málamiðlanir og tilraunastarf þar sem góðir hlutir hafa náð að festa sig í sessi. Nýjasta ævintýrið hjá okkur er valáfangi um Harry Potter sem ég kenni með samkennara mínum Helgu Benediktsdóttur. Þar erum við með ýmsar skemmtilegar tilraunir í gangi en við erum að fara að kenna áfangann í annað skipti núna í haust,“ segir Ármann sem hefur jafnframt kennt heimspeki sem valgrein og skyldugrein á listabraut. „Í því hef ég prófað mig áfram með ýmislegt. Einkum fjölbreytilegar aðferðir í umræðum og skapandi verkefnum, til dæmis sókratískar samræður. Þar hef ég til dæmis átt í skemmtilegu samstarfi við myndlistarkennarann í Versló, Unni Knudsen, þar sem pælingar um að tjá hugsun annars vegar með myndum og hins vegar með orðum eru rannsakaðar. Þetta hefur fallið í kramið og skilað góðum árangri,“ segir hann og bætir við að það sem hefur gefið honum einna mest í starfi sé vitneskjan um að nemendur hafi upplifað innblástur til að hugsa sjálfstætt í tímum hjá honum og að hann hafi náð að hafa jákvæð áhrif á þá í lífi þeirra og starfi.

„Nýlega sagði mér kona, sem nú starfar sem framhaldsskólakennari en var í tímum hjá mér í Versló fyrir alllöngu, að ég hefði haft mikið áhrif á hana þegar hún skilaði af sér óvanalegu bókmenntaverkefni fyrir mörgum árum. Hún sagði að ég hefði hvatt hana til að rækta þessa skapandi og frumlegu hlið hjá sér og að þetta hefði haft mjög góð áhrif á hana þegar fram liðu stundir. Fleiri fyrrverandi nemendur hafa sagt mér svipaðar sögur og það hlýjar mér alltaf um hjartaræturnar.“

Lítur á kennarastarfið sem listgrein og segir helstu ógnina vera ósveigjanleg kerfi

Ármann segist líta á kennarastarfið sem ákveðna tegund af listgrein en hann er mjög listhneigður maður. Í hjáverkum sinnir hann annarri köllun sem trommuleikari, söngvari og textasmiður með hljómsveitinni Mosa frænda og svo snattast hann í öðrum smærri verkefnum.

„Eins og með öll önnur skapandi störf þá þarf ramma og reglur en ég hef á tilfinningunni að ein helsta ógnin sem steðji að menntakerfinu sé kerfis- og skriffinnskuvæðing. Þessi þróun er nokkuð lúmsk en þegar einingar, einkunnir, markmið, færniviðmið og ýmislegt þess háttar verður fyrirferðarmeira en innihald námsins og lifandi samskipti við nemendur þá stefnir í óefni.

Kerfin sem eru gerð til að halda utan um starf okkar og styðja hafa lúmska tilhneigingu til að stýra okkur og festa í hjólförum og svo ég snúi mér aftur að áfangakerfinu þá lætur það okkur halda að það sé eðlisbundið að nám eigi sér best stað í þriggja mánaða lotum, fjórar klukkustundir á viku í tuttugu og fimm manna hópum, alveg óháð því hvert viðfangsefnið er,“ útskýrir hann með ástríðu þess sem hefur áhuga á vinnunni sinni.

„Það sama gildir um tölvukerfin. Þannig gæti verið að ég myndi vilja láta það ráðast hversu veigamikil tiltekin verkefni ættu að vera í einkunn í samráði við nemendur mína en kerfið sem mér er gert að vinna eftir býður ekki upp á slíkan sveigjanleika, og það er erfitt fyrir mig að hugsa um þetta því ég er svo samgróinn kerfinu. Kennaramenntun þyrfti að vera meira „hands on“ – meira úti á akrinum og frekar í anda list- og verknáms og um leið mikið minna fræðilegt. Í þessu samhengi vitna ég bara í Jón Gnarr og félaga sem sögðu að lykilorðið væri „allskonar“. Fjölbreytni, virk sköpun og almennt stuð er það sem einkennir góða kennara og gott nám,“ segir Ármann Halldórsson að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert