Langar í sjötta barnið á fimmtugsaldri

Jamie og Jools Oliver með þrjú af börnum sínum.
Jamie og Jools Oliver með þrjú af börnum sínum. skjáskot/Instagram

Stjörnukokkurinn Jamie Oliver á fimm börn með eiginkonu sinni, Jools Oliver. Jools missti fóstur í útgöngubanninu en kokkurinn segir eiginkonu sína enn langa í sjötta barnið þrátt fyrir að þau séu líklega á síðasta séns. Stjörnukokkurinn er 45 ára en eiginkona hans verður 46 seinna á árinu. 

Hver vill eignast öll þessi börn, er það Jools?“ var Oliver spurður í hlaðvarpsþættinum The Joe Wicks Podcast. 

„Jools. Hún er alveg brjáluð í annað. Það er mjög áhugavert en þetta er hennar, þetta er það sem hana hefur dreymt um og þetta gerir hana hamingjusama,“ svaraði kokkurinn hreinskilnislega. „Hún bara elskar að vera góð móðir og ég er þakklátur fyrir það en ég held, þú veist, 45 ára, við erum örugglega að missa af lestinni.“

Hjónin fögnuðu nýlega 20 ára hjónabandi. Elsta barn þeirra er 18 ára en það yngsta fjögurra ára. Þau hafa reynt að bæta sjötta barninu við um hríð, án árangurs, en Jools hefur misst fóstur þrisvar sinnum síðan fjórða barn þeirra kom í heiminn árið 2016. 

mbl.is