Fékk sér pizzu á leiðinni upp á fæðingardeild

Vegna kórónuveirunnar var Alec Baldwin með Hilariu Baldwin allan tímann …
Vegna kórónuveirunnar var Alec Baldwin með Hilariu Baldwin allan tímann meðan hún var á fæðingardeildinni. AFP

Grínleikarinn Alec Baldwin eignaðist sitt sjötta barn á dögunum. Hann brunaði þó ekki með eiginkonu sína, Hilariu Baldwin, beint upp á fæðingardeild þegar ljóst var að von væri á barninu. Hann stoppaði nefnilega við á veitingastað og fékk sér pizzu.

Spjallþáttastjórnandinn Ellen DeGeneres spurði Baldwin út í atvikið á dögunum. Þá kom í ljós að það var hugmynd konu hans að hann stoppaði á pizzautað á leiðinni. Nýjasta barnið er fimmta barnið sem þau eignuðust saman og frú Baldwin því byrjuð að þekkja manninn sinn vel.

„Honum til varnar var það mín hugmynd. Af því að í síðustu tveimur fæðingum bauð ég honum ekki inn á fæðingarstofuna fyrr en ég fékk mænudeyfingu,“ sagði frú Baldwin. „Hann gerir mig brjálaða.“

Frú Baldwin sagði allt hafa verið töluvert flóknara í þetta skiptið vegna kórónuveirufaraldursins. Eiginmaður hennar þurfti að vera með henni allan tímann. Hún skipaði honum að borða þegar hríðarnar byrjuðu þar sem hún gerði ráð fyrir að hann ætti annars eftir að gera sig brjálaða. Á meðan leikarinn borðaði pizzu úti á götu í New York tók hún tímann á milli hríða. 
mbl.is