Gera allt til þess að láta drauminn rætast

Mæðgurnar Alba Mist Gunnarsdóttir og Elísabet Gunnarsdóttir.
Mæðgurnar Alba Mist Gunnarsdóttir og Elísabet Gunnarsdóttir. Ljósmynd/Aldís Pálsdóttir

Alba Gunnardóttir fer með hlutverk í Kardemommubænum í Þjóðleikhúsinu. Hún kom lengra að en margir aðrir krakkar sem skráðu sig í prufu fyrir leikritið en hún á heima í Danmörku með foreldrum sínum, þeim Elísabetu Gunnarsdóttur og Gunnari Steini Jónssyni. Elísabet flaug heim til Íslands ásamt litla bróður Ölbu til þess að sjá sýninguna. Að missa af frumsýningunni kom ekki til greina þrátt fyrir að heimkomunni fylgdi sóttkví.  

„Alba hefur fengið að heimsækja ömmur og afa á Íslandi í haustfríum síðustu árin. Það hitti þannig á að það voru einmitt prufur þegar hún var á landinu og að gamni sínu sló hún til. Okkur foreldrunum fannst þetta skemmtileg reynsla fyrir hana en bjuggumst ekkert endilega við að handboltastelpan og „útlendingurinn“ fengi hlutverk – þar sem aðsóknin var ótrúlega mikil,“ segir Elísabet um það hvernig það atvikaðist að Alba fór í prufur fyrir leikritið. 

„Við hefðum þó mátt vita betur því hún er svo mikill snillingur, hefur sýnt okkur margoft hvað hún er sterkur persónuleiki. Ég viðurkenni að við foreldrarnir vorum að sjálfsögðu með hnút í maganum þegar hún fór alltaf lengra og lengra áfram í prufunum og að lokum þegar símtalið kom að hún hefði komist alla leið. Hvað vorum við búin að koma okkur út í? Búsett í Danmörku en vildum alls ekki taka svona einstakt tækifæri frá Ölbu – við slógum til og tókum þetta klassíska íslenska hugarfar „þetta reddast“. 

Elísabet segir að það hafi alltaf verið miklir tilburðir í dóttur sinni og áhuginn jókst þegar hún fékk kennara í danska skólanum sem lagði mikið upp úr tónlist, söng og dansi.

„Þar var Alba komin í aðalhlutverk í leikverki áður en hún lærði tungumálið. Mér sýnist á öllu að litli bróðir muni ekkert gefa systur sinni eftir – enda alltaf með stjörnur í augunum yfir henni,“ segir Elísabet.

Kardemommubærinn í Þjóðleikhúsinu.
Kardemommubærinn í Þjóðleikhúsinu. Ljósmynd/Hörður Sveinsson

Skemmtilegt frá upphafi til enda

Alba sem leikur barn og dansandi frosk í leikritinu leggur mikið upp úr því að njóta þess að vera á sviðinu frá því að dregið er frá og þangað til dregið er fyrir aftur. 

Ég á erfitt með að gera upp á milli atriða,“ segir Alba þegar hún er spurð hvað sé skemmtilegast í sýningunni. „En mig langar að segja að upphafsatriðið þegar við erum með kitl í maganum yfir spenningi að nú sé leikritið að hefjast – mér finnst allt skemmtilegast við þessa frábæru sýningu. Hraðaskiptingarnar eru smá erfiðar, þegar við erum að skipta um búninga baksviðs á mettíma.“

Hvað fannst mömmu skemmtilegast við sýninguna?

„Sýningin er algjör gleðisprengja frá upphafi til enda. Eitthvað sem almenningur þarf á þessum furðulegu Covid-tímum. Ég fór á forsýninguna þar sem ég sá ekkert nema Ölbu og náði svo að njóta mín betur á frumsýningunni þar sem ég hló af Soffíu frænku og ræningjunum á milli þess sem ég dáðist af leikmynd, búningum og öllum flottu börnunum. Ég elska líka bara þessa fallegu byggingu – Þjóðleikhúsið, maður fær einhvern góðan anda yfir sig þar.“

Varst þú alltaf ákveðin í að koma heim fyrir frumsýninguna? Jafnvel þrátt fyrir að þurfa að fara í smá sóttkví?

„Já! Ég hefði aldrei misst af svona stóru mómenti þó að ég hefð þurft að vera í sóttkví í mánuð. Það var þó brostið pabbahjarta sem missti af sýningunni þar sem hann er fastur í boltaleik í Danmörku. Vonandi nær hann þó sýningu áður en Kardemommubænum lýkur, ég er alveg viss um það.“

Alba var með mömmu sína á FaceTime í prufunum á …
Alba var með mömmu sína á FaceTime í prufunum á Íslandi. mbl.is/Arnþór Birkisson

Staðráðin í að láta þetta ganga upp

Ertu búin að ganga með þennan draum í maganum lengi að fá að taka þátt í leikriti?

„Ég hef alltaf haft gaman af því að leika, en þetta var nú samt kannski ekkert sem ég var beint að stefna að. Þetta var allt saman smá tilviljun – frábær tilviljun! Það var æðisleg tilfinning að fá hlutverkið, við mamma felldum nokkur gleðitár saman á meðan pabbi hristi hausinn brosandi og spurði hvað við værum nú búin að koma okkur út í. Mamma fór með mér í gegnum prufurnar á FaceTime, held að hún hafi verið miklu stressaðri en ég en hún sýndi mér það aldrei en sagði við mig um það bil 100 sinnum: „Alba, mundu bara að vera þú sjálf.“ Það hefur greinilega virkað vel.

Ég var með lítinn grunn í leik og dansi þó svo að ég hafi alltaf haft áhuga á því. Það er því um að gera fyrir alla sem dreymir um að vera á sviði að láta reyna á það og skella sér í prufur – ekkert víst að það klikki.“

Það hlýtur að hafa verið ánægjulegt að sjá barnið sitt ná þessum árangri en fylgdi þessu einhver tregi eða kvíði vegna búsetu ykkar?

„Þetta voru blendnar tilfinningar, við vorum ótrúlega stolt af Ölbu og á sama tíma var þetta erfið ákvörðun fyrir fjölskylduna. Það sem réð ákvörðun var að við hugsuðum að ef við tækjum þetta frá henni þá gæti þetta verið atriði sem hún kannski myndi enn sjá eftir á fullorðinsárum – því maður veit aldrei hvort og hvenær svona tækifæri koma. Við vorum því alltaf staðráðin í að láta þetta ganga upp.

Í venjulegu árferði er ég mikið á ferðinni þar sem hluti af minni vinnu er á Íslandi  en skyndilega stækkaði heimurinn svakalega með þessu Covid-ástandi og þessar aðstæður urðu allar mikið erfiðari. Pabbinn sem er handboltamaður hefur til dæmis ekki færi á að ná sýningu eins og staðan er núna og þá hefur þetta tímabil lengst til muna hjá okkur fjölskyldunni.“

Alba er í fyrsta skipti skráð í íslenskan skóla en þegar hún var yngri fékk hún stundum að fara í heimsókn í íslenskan leikskóla og í heimsókn í Melaskóla þegar hún varð eldri.

Í dag er ég í Álftamýraskóla og í fyrsta sinn skráð í íslenskan bekk. Fyndin tilviljun að umsjónakennarinn minn er einmitt leikari, sem lék einu sinni í Þjóðleikhúsinu. Ég get því ekki verið heppnari með skilning þegar ég þarf að fá frí fyrir æfingar og slíkt. Það er mjög gaman!“

Alba leikur barn og dansandi frosk í Kardemommubænum.
Alba leikur barn og dansandi frosk í Kardemommubænum. Ljósmynd/Hörður Sveinsson

Alba segir að hún eigi góðar ömmu og afa sem passa hana þegar hún er á Íslandi en auðvitað saknar hún foreldra sinna og bróður síns sem eru oftast í Danmörku.

„Í vor þegar það voru engin flug þá var mjög erfitt að komast ekki til þeirra en að lokum gekk það upp og þá kláraði ég skólaárið í danska skólanum mínum. FaceTime er mjög mikið notað í okkar fjölskyldu. Mamma hringir í mig mörgum sinnum á dag.“

Hvað hafi þið lært á því ferli að búa ekki í sama landi?

„Það mikilvægasta sem við höfum kannski lært er að við viljum alls ekki búa hvert í sínu landinu og við söknum þess að hafa alla fjölskylduna saman. Við látum þetta virka í þetta skiptið, þó svo að ástandið sé að gera okkur erfitt fyrir. Í framhaldinu sameinumst við öll og reynum eftir fremsta megni að halda því þannig. Það er síðan spurning hvort við höldum áfram að elta pabbann í boltaleik eða byrjum að elta Ölbuna í leiklist í staðinn.“

mbl.is