Ekki ólétt um leið og hún byrjaði að reyna

Joss Stone.
Joss Stone. AFP

Breska söngkonan Joss Stone á von á sínu fyrsta barni með kærasta sínum Cody DaLuz. Söngkonan, sem er komin 17 vikur á leið, greindi frá meðgöngunni í hlaðvarpsþætti. Henni líður vel en kærasti hennar hjálpaði henni að halda í vonina þegar hún varð ekki ólétt strax.  

„Ég er komin 17 vikur á leið og var að hætta að vera veik alltaf,“ sagði Stone í hlaðvarpsþætti sínum að því er fram kemur á vef People. Hún sagðist hafa það gott og sagði klikkað að það væri einhver að vaxa inni í henni. 

Í myndbroti á netinu talar Stone um ferlið að geta barn við kærasta sinn. Segir hún að það hafi verið sorglegt að byrja alltaf á blæðingum aftur. Það tók hana fjóra eða fimm mánuði að verða þunguð. „Ég sagði henni alltaf að mér væri sama hversu langan tíma það tæki. Ég sagði að það myndi heppnast,“ sagði kærastinn. 

„Hann hjálpaði mér að vera jákvæð. Málið er: ekki gefast upp. Jákvæðni hjálpar. Það hjálpaði mér að vera jákvæð þegar ég hugsaði: „Æ, kannski get ég ekki orðið ólétt,““ sagðist Stone ósjálfrátt hafa hugsað það þegar hún byrjaði að reyna að verða ólétt án árangurs. „Af hverju virkar það ekki?“ hugsaði hún með sér í hvert einasta skipti.“

mbl.is