Urðu báðar ástfangnar og lífið tók við

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Halldóra Mogensen eiga báðar von á …
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Halldóra Mogensen eiga báðar von á barni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þingkonur Pírata eru tvær, Halldóra Mogensen og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir. Svo skemmtilega vill til að þær eiga báðar von á barni á næstu mánuðum. Eftir að ástin bankaði á dyr breyttist framtíðarsýnin. Halldóra á von á sínu öðru barni í lok nóvember en í febrúar á Þórhildur Sunna von á sínu fyrsta barni. 

„Ég var einstæð móðir þegar ég var kosin á þing og ætlaði sko aldrei að eignast annað barn. En svo hitti ég þennan yndislega mann sem bókstaflega kallaði á mig á förnum vegi. Við höfum verið óaðskiljanleg síðan þá og allt í einu langaði mig að eignast annað barn. Mig langaði að eignast barn með honum,“ segir Halldóra. 

Þórhildur Sunna tekur í sama streng. 

„Ég var líka einstæð en barnlaus og ætlaði mér ekkert endilega að verða móðir. Ég bjó í miðbænum með systur minni. Nú er ég trúlofuð eðalmanninum Rafal og er flutt upp í sveit með kisuna Serafinu Pekkala og hvolpinn Freyju Forynju, og á von á barni. Svona breytast viðhorfin og konurnar með.“

Með ungbörn í kosningabaráttu

Eru þið svona samstilltar að þig ákváðuð að eiga börn á sama vetrinum?

„Nei, en við urðum báðar ástfangnar og svo tók lífið bara við,“ segir Halldóra og brosir. Þórhildur Sunna segist reyndar hafa hugsað með sér í gríni hvernig í ósköpunum strákarnir í þingflokknum ættu að komast af án þeirra beggja þegar hún komst að því að hún væri líka ólétt. 

Tímasetningin er ekki svo slæm hjá þingkonunum þó þær verði að hluta til í burtu á sama tíma. Þær stefna til dæmis báðar á að vera komnar til baka fyrir þinglok. Góðir varaþingmenn eru í flokknum og segja þær að það sé ekki neinn tími betri en annar til að fara frá þó svo að það stefni í erfiðan vetur. 

Þórhildur Sunna á von á sínu fyrsta barni.
Þórhildur Sunna á von á sínu fyrsta barni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er auðvitað skrítið að fara frá á þessum tíma en það eru alltaf stórar áskoranir á þingi og einhvern veginn aldrei góður tími til að kúpla sig út,“ segir Halldóra. Svo veit ég að þingstörfin eru í góðum höndum hjá Söru Óskarsson í fjarveru minni en hún er frábær varaþingmaður sem brennur fyrir hugsjónum okkar Pírata. Ég stefni svo á að koma til baka vel fyrir kosningar og taka fullan þátt í þeirri baráttu. Ég verð bara með eitt stykki ungbarn í farteskinu.“

„Mér finnst enn þá langt í að ég fari og er kannski ekki alveg búin að melta tilhugsunina að vera fjarri þingstörfunum svona lengi. En ég tek samt undir með Halldóru, það er enginn fullkominn tími til þess að fara frá og ég er fegin að eiga von á mér vel fyrir kosningar, og svona um miðjan vetur. Það hlýtur að verða notalegt fyrir okkur manninn minn að vera í smá vetrarhíði með barninu áður en við förum á fullt í kosningabaráttu.“

Púsluspil að eiga barn og sinna þingstörfum

Hvernig hafa meðgöngurnar gengið? 

„Halldóra hefur auðvitað gert þetta áður þannig ég ímynda mér að þetta séu ekki jafn mikil viðbrigði fyrir hana en ég held að okkur báðum hafi gengið nokkuð vel. Ég var heppin að fyrsti þriðjungurinn hitti mestmegnis á sumarfrí þingsins og gat því sofið eins mikið og ég þurfti. Halldóra var ekki eins heppin, en hennar fyrsti þriðjungur hitti á þinglok, sem er mikill álagstími hér á þinginu,“ segir Þórhildur Sunna. 

„Já, þetta er ekki mitt fyrsta ródeó en ég viðurkenni alveg að það er erfiðara að bera barn fertug en þrítug. Líkaminn virðist ekki vera alveg jafn hress með þetta. Og þingstörf eru heldur streitumikil fyrir ólétta konu. Langir vinnudagar og átök tóku meira á fyrstu mánuði meðgöngu en ég kannski áttaði mig á. Kona á það til að halda að hún geti allt en það er ekki alltaf svoleiðis.“

Halldóra segir það púsluspil að eiga fjölskyldu og sinna þingstörfum.
Halldóra segir það púsluspil að eiga fjölskyldu og sinna þingstörfum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Halldóra segir jafnframt að þingmennskan sé ekki sérlega fjölskylduvænt starf. Þá er gott að eiga góðan maka og fjölskyldu. 

„Það er alls ekki auðvelt að eiga barn og sinna þingmennsku, hvað þá að vera ein með barn. Það er svo nánast efni í ritgerð hvað Alþingi er ævintýralega gamaldags og ófjölskylduvænn vinnustaður. Það var gríðarlega mikið púsluspil með dóttur mína fyrstu árin á þingi en ég er samt ótrúlega heppinn því ég er umkringd svo umhyggjusömu fólki sem hefur hjálpað mér mikið að púsla og dóttir mín er mjög vel heppnuð að mínu mati þannig þetta hefur gengið ágætlega fyrir sig. Og svo datt ég svo aldeilis í lukkupottinn með ástina og verður púsluspilið mun auðveldara í framhaldinu.“

Hvernig er tilfinningin að eiga von á sínu fyrsta barni Þórhildur Sunna? 

„Það er auðvitað mikil tilhlökkun en á sama tíma er þetta ansi óraunverulegt. Mér finnst erfitt að sjá fyrir mér hvernig þetta verður allt saman en ég er spennt fyrir nýju hlutverki og finnst ótrúlega áhugavert að ganga í gegnum meðgöngu. Ótrúlegustu hlutir eru allt í einu erfiðir, eins og að skokka upp stigann í þinghúsinu til þess að fara í ræðustól – það er bara ekki í boði lengur því ég verð svo móð að ég kem varla frá mér orði. Nú þarf ég sem sagt að passa mig að labba í rólegheitunum upp með góðum fyrirvara og drekka svo tvö vatnsglös áður en ég fer í púltið því ég verð líka svo þyrst við að tala. Oftast eru þetta frekar fyndin augnablik og svo mikil þreyta inn á milli. En svo eru fallegar stundir líka, eins og þegar ég fann barnið sparka í fyrsta sinn, það var skrítið, notalegt og frábært allt í senn.“

Taka styttra fæðingarorlof en mennirnir

Halldóra og Þórhildur Sunna stefna báðar á að taka styttra fæðingarorlof en makar sínir. Halldóra segir reyndar grátbroslegt að barnið hennar fái færri mánuði en barn Þórhildar Sunnu en aðeins þrír mánuðir eru á milli þeirra. Fæðingarorlofið lengist upp í 12 mánuði eftir áramót og eru þær sammála um að það skjóti skökku við að ríkið ákveði hvernig haga skal fæðingarorlofstöku. 

„Mér finnst líklegt að ég taki fjóra mánuði og að maðurinn minn taki rest, sem eru sex mánuðir,“ segir Halldóra. „Aðstæður eru aðrar en þegar ég átti fyrsta barnið mitt en þá var ég ein og vegna skorts á sveigjanleika í fæðingarorlofskerfinu þurfti ég að dreifa þeim sex mánuðum sem barninu mínu var úthlutað með sínu foreldri yfir lengra tímabil og þurfti vegna skertra tekna að flytja til mömmu. Við erum mun betur sett fjárhagslega í dag en ég var þá en finn hversu óþægilegt það er að það sé í höndum ríkisins að ákvarða hvernig okkur ber að hátta okkar fæðingarorlofi. Ég tel það vera mitt og mannsins míns að ákveða hvað er barninu og fjölskyldunni okkar fyrir bestu. Ég þoli ekki svona forræðishyggju.“

Halldóra er betur sett í dag en þegar hún eignaðist …
Halldóra er betur sett í dag en þegar hún eignaðist sitt fyrsta barn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórhildur Sunna er sammála flokksystur sinni og er í nokkuð góðri stöðu til að setja sig í spor fólks sem á von á barni. 

„Ef skipting fæðingarorlofs verður eins og lagt er upp með er líklegt að barnið mitt verði af einhverjum mánuðum heima með foreldri sínu. Eða að öðrum kosti að ég nánast dæmi mig úr leik í kosningabaráttunni framundan. Hvorug sviðsmyndin þjónar hagsmunum fjölskyldunnar minnar eða barnsins míns. Ég vil taka fjóra mánuði í mesta lagi, kannski þrjá og hálfan til þess að ná inn vel fyrir þinglok og maðurinn minn vill vera með barnið í átta mánuði. Best þætti mér auðvitað að við fengjum að skipta orlofinu eins og okkur hentar best, en annars er óvíst hvort allt orlofið nýtist barninu mínu. Auðvitað sé ég að markmiðið með því að skipta orlofinu jafnt er til þess að auka orlofstöku karla, en mér finnst rangt að því farið. Við ættum frekar að hækka tekjuþakið og aðlaga vinnumarkaðinn að þörfum fjölskyldna frekar en öfugt. Vinnumarkaðurinn og greiðsluþakið er vandamálið, ekki foreldrar sem vilja vera lengur heima með börnunum sínum en samt geta haft í sig og á.“

Barni Þórhildar Sunnu fylgja fleiri mánuðir en Halldóru þar sem …
Barni Þórhildar Sunnu fylgja fleiri mánuðir en Halldóru þar sem hún á von á sér eftir áramót. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert