Hugh Grant klippir hár barna sinna

Hugh Grant á fimm börn.
Hugh Grant á fimm börn. AFP

Hugh Grant segist hafa ákveðið að klippa hár í kórónuveirufaraldrinum til þess að stytta sér stundir.

„Ég byrjaði á að klippa hár barbídúkku dóttur minnar af einskærum leiðindum og ég komst að því að ég var mjög hæfileikaríkur í þeim efnum,“ sagði Grant í viðtali við Good Morning America.

„Svo fór ég að klippa hár barna minna hvort sem þeim líkaði það betur eða verr. Ég bara ólaði þau niður í stól og klippti á þeim hárið.“

Aðspurður hvernig faðir honum fyndist hann vera sagðist hann vera heillandi faðir. „En ég veit ekki hvort börnin séu sammála. Ég sé svolítið af mínum eigin föður í sjálfum mér. Hann var í hernum. Mjög yndislegur – en allt í einu, upp úr þurru, hvæsir hann skelfilega. Og ég geri það líka. Það fær börnin til að gráta og eiginkonuna líka. Jafnvel nágrannarnir gráta,“ segir Grant glettnislega. 

Um foreldralífið segist Grant vera lánsamur. „Ég get ekki kvartað. Ég er einn af þeim heppnu. Að því sögðu má benda á að ég er frekar gamall og börnin eru afar ung. Þannig að ég get ekki sagt að þetta sé auðvelt.“

Grant á fimm ung börn með tveimur konum. Börnin eru á aldrinum 2 til 9 ára.mbl.is