„Fannst ég vera endalaust ólétt“

Þura Stína Kristleifsdóttir eignaðist sitt fyrsta barn í maí.
Þura Stína Kristleifsdóttir eignaðist sitt fyrsta barn í maí. Ljósmynd/Aðsend

Plötusnúðurinn og grafíski hönnuðurinn Þura Stína Kristleifsdóttir segir að fæðingarorlofið hafi verið öðruvísi en hún bjóst við. Þura og unnusti hennar, Arnar Jónmundsson, eignuðust sitt fyrsta barn, dótturina Emilíu Karin, í maí síðastliðinn. 

Í fæðingarorlofinu hefur Þura stofnað fyrirtækið Skrifað í stjörnurnar en þar selur hún íslenskar stjörnumerkjamyndir. Hún byrjaði á verkefninu í júlí en hugmyndin að því kviknaði þegar hana langaði til að fá stjörnumerki fjölskyldunnar saman upp á vegg. Þá komst hún að því að slík hönnun, þar fleiri en eitt stjörnumerki væru saman, væri ekki til á íslensku og verandi grafískur hönnuður ákvað hún að ganga í verkið.

Vefverslun Skrifað í stjörnurnar opnaði í dag.

Þura Stína, Arnar og Emilía Karin.
Þura Stína, Arnar og Emilía Karin. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig var meðgangan?

„Meðgangan gekk alla jafna vel, ég var mjög þreytt í byrjun og kastaði daglega upp fyrstu fjóra mánuðina svo ég sagði yfirmönnum mínum mjög snemma frá óléttunni og sá ekki eftir því. Ég mætti miklum skilning og allur feluleikur varð mun auðveldari í kjölfarið en kúlan mín kom mjög snemma í ljós. Annar hluti meðgöngunnar varð mun auðveldari og ég gat gert nánast allt sem ég hafði getað áður og varð miklu orkumeiri. Mér fannst ég samt vera endalaust ólétt og í lokin vorum við bæði í 6 vikur í sóttkví í litlu íbúðinni okkar en ég fór 15 daga framyfir í vor svo biðin varð alveg extra löng í öllum takmörkununum.“

Hugmyndin að Skrifað í stjörnurnar kviknaði þegar Þuru langaði til …
Hugmyndin að Skrifað í stjörnurnar kviknaði þegar Þuru langaði til að fá myndir af stjörnumerkjum fjölskyldumeðlima upp á vegg. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig hefur móðurhlutverkið breytt þér?

„Mér líður einhvernvegin eins og ég sé miklu eldri en ég var áður en EmilíaKarin fæddist - sem var nú bara fyrir 6 mánuðum síðan. Það er greinilega mjög þroskandi að eignast barn en það er alveg magnað að upplifa svona sérstakt samband við annan einstakling, þetta er svo mikil skilyrðislaus ást og það er svo falleg tenging á milli móður og barns. En svo eru auðvitað algjör forréttindi að vera foreldri og ég nýt þess mjög mikið, finnst allar stundir ómetanlegar - líka þessar erfiðu. Ég er líka mjög mikið að pæla í öllu sem tengist uppeldi og þörfum ungbarna en maður lærir eitthvað nýtt á hverjum degi, ég er t.d. ekkert að stressa mig á því að hún þurfi að læra eitthvað núna eða að við séum að fylgja einhverjum fyrirfram settum reglum eða gildum. Hún er bara að stækka og mótast og mér finnst magnað að fá að vera í því ferli og til staðar fyrir hana á hverjum degi. Annars er ég líka mun rólegri en ég var áður eða kannski er ég bara þreyttari.“

Mæðgurnar Þura Stína og Emilía Karin.
Mæðgurnar Þura Stína og Emilía Karin. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig hefur fæðingarorlofið verið?

„Fæðingarorlofið er eitthvað allt annað en ég hafði ímyndað mér. Ég hef alltaf verið á kafi í vinnu og verkefnum og hugsaði hvað það yrði yndislegt að hafa meiri tíma til að eyða með fólkinu sínu. Hitta vini og fjölskyldu meira, fara út að borða og ferðast sem fjölskylda. Þessir hlutir eru auðvitað ekki raunveruleiki í dag og stundum hefur maður fundið fyrir einmanaleika og ég viðurkenni vel að orlofið hefur á köflum alveg verið erfitt vegna þessa. Ég sæki rosalega mikið í fólkið mitt og finnst erfitt að halda mig heima en aftur á móti verður maður líka enn þakklátari fyrir allt og alla í kringum sig. Ég er rosalega jákvæð að eðlisfari og nenni sjaldan að hengja mig á neikvæða hluti en þetta er bara orðin partur af lífinu og við þurfum að læra að lifa með þessu og hver og einn verður að gera sitt besta til að halda veirunni í skefjum. Svo verða litlu hlutirnir alveg risastórir í þessu ástandi og það er svo margt ómetanlegt sem maður verður að hlúa að. Við vorum mörg líka kannski aðeins búin að missa sjónar á hvað það er sem raunverulega skiptir máli í lífinu og þetta hefur vissulega hjálpað manni að rétta það af.“

Hægt er að setja saman stjörnumerki fjölskyldunnar á eina mynd.
Hægt er að setja saman stjörnumerki fjölskyldunnar á eina mynd. Ljósmynd/Skrifað í stjörnunar

Hvernig kviknaði hugmyndin að Skrifað í stjörnurnar?

„Skrifað í stjörnurnar er verkefni sem ég er búin að vera að vinna að síðan í júlí. Þetta byrjaði í rauninni bara með því að eftir að Emilía Karin fæddist langaði mig í mynd með stjörnumerkjunum okkar þriggja upp á vegg heima, enda pæli ég mikið í stjörnumerkjum og hvernig eiginleikum við erum gædd. Ég leitaði og leitaði og komst að því að það var ekki hægt að fá svona plakat svo ég fór sjálf af stað verandi grafískur hönnuður að búa það til. Það fóru endalausar pælingar í gang með liti og uppsetningu, leturval og annað.

Mig langaði að hafa íslenskt letur á plakötunum og fyrir valinu varð letriðVelour úr letursmiðjuSilkType. Eftir allar þessar vangaveltur ákvað ég að leyfa fleirum að njóta góðs af og langaði að gera meira úr þessu verkefni. Nafnið fæddist svo með hjálp vinkonu minnar en hugmyndin var alltaf að gera þetta fyrir fjölskyldur, að þú gætir haft þína fjölskyldu með ykkar stjörnumerkjum í einum ramma.

Þura hannaði líka dagatöl.
Þura hannaði líka dagatöl. Ljósmynd/Skrifað í stjörnunar

Plakötin eru því ekki prentuð í stóru upplagi heldur sérhönnuð fyrir hvern og einn en allar fjölskyldur eiga sín stjörnumerki og sína sögu sem er skrifuð í stjörnurnar. Hægt er að fá myndirnar með mismörgum merkjum allt frá tveimur og upp í sex. Eins er hægt að fá eitt merki með fæðingardegi viðkomandi og er því tilvalið fyrir nýjasta fjölskyldumeðliminn. Stjörnuplakötin fást í nokkrum litum og nokkrum stærðum svo að þú ræður algjörlega ferðinni þegar þú pantar þitt eintak inn á síðunni.

Eins verða til sölu dagatöl en þar var sama krísan á ferð hjá mér, ég var óralengi að finna mér dagatal fyrir seinasta ár og endaði á að kaupa dagatal erlendis þar sem ég fann ekkert á Íslandi sem mér fannst fallegt. Ég er algjört skipulagsfrík og með sérdagatal í tölvunni og símanum en elska að hafa eitt upp á vegg sem er meira fyrir viðburði fjölskyldunnar. Það er hægt að skrifa atburði inn á dagana og mánuðirnir eru tengdir við stjörnumerkin sem prýða síður þess – sem og stjörnuspeki og útskýringar fyrir hvert og eitt merki, frumefnin okkar, nýtt tungl, fullt tungl og fleira. Dagatalið er unnið í samstarfi við stjörnuspekinginn Fanney Sigurðardóttur en hún sérhæfir sig í lestri stjörnukorta og stjörnukortagerð. Þau eru á sérstöku opnunar- og forsölu verði núna og ég hvet alla til að horfa björtum augum á 2021 en vonandi getum við gert fullt af skemmtilegum hlutum saman þá, ég er allavega rosalega spennt fyrir nýju ári.“

Hægt er að fylgjast með Skrifað í stjörnurnar á Facebook og Instagram.

mbl.is