Eignaðist son eftir margra ára baráttu

Valentína Tinganelli beið lengi eftir Gabríel sem kom í heiminn …
Valentína Tinganelli beið lengi eftir Gabríel sem kom í heiminn í sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Valentína Tinganelli og Eyjólfur Sigurjónsson eignuðust soninn Gabríel í sumar eftir langa bið. Það reyndist þeim erfitt að verða ólétt en eftir fimm og hálft ár fengu þau loksins jákvætt þungunarpróf eftir frjósemismeðferð. Verkefnið reyndi á en innst inni héldu þau alltaf í vonina sem margborgaði sig þegar frumburðurinn kom loksins i heiminn. 

Valentína og Eyjólfur eru búin að vera saman í tæp tíu ár. Þau ætluðu sér alltaf að stækka fjölskylduna og voru meðvituð um að það gæti tekið meira en eitt ár að verða ólétt. Eftir þrjú ár ákváðu þau að leita til læknis. Í upphafi bjuggust þau aldrei við því að það tæki fimm og hálft ár að fá jákvætt óléttupróf. Valentína segir að sá tími sé agalega langur tími. 

Reyndi á andlegu hliðina

„Það er svo margt sem fer í gegnum hausinn á manni, við erum okkar verstu óvinir það er nokkuð ljóst. Til að byrja með leið mér ekki illa, heldur fannst þetta leiðinlegt og skildi ekki af hverju ég væri ekki orðin ólétt þar sem við vorum samviskusamlega að reyna á réttum tíma, vorum að gera „allt rétt“.

Á sama tíma fór ég ómeðvitað að hugsa mjög mikið um þetta og pæla af hverju ég væri ekki orðin ólétt. Svo þegar á leið þá fór mér að líða verr í hvert skipti sem ég byrjaði á blæðingum og endaði þannig að ég grét í hvert skipti sem þær komu. Sjálfsmyndin mín minnkaði, mér fannst ég vera ótrúlega gölluð og að ég væri léleg í að vera kona. Það er mjög steikt að maður hugsi svona. Það kom oft fyrir að ég hugsaði og sagði við manninn minn að ég ætti ekki skilið að verða ólétt og verða mamma. Ég þyrfti bara að sætta mig við það. Hann var fljótur að bregðast við og segja mér að svo sé ekki heldur að þetta væri stórt verkefni sem við þyrftum að komast í gegnum og að ég yrði frábær mamma.“

Maður Valentínu hafði fulla trú á að hún yrði frábær …
Maður Valentínu hafði fulla trú á að hún yrði frábær mamma. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Til að byrja með héldu þau erfiðleikum sínum leyndum. Þegar leið á varð það erfiðara og þeim leið betur þegar þau opnuðu á umræðuna. 

„Ég talaði ekkert um þetta við neinn nema Eyjólf þar sem ég skammaðist mín mjög mikið fyrir að vera svona gölluð. Ég vildi kannski ekki segja þetta upphátt því þá yrði þetta svo raunverulegt. Svo átti ég bara mjög erfitt að ræða þetta án þess að fara að gráta. Rétt fyrir jólin 2017 bugaðist ég algjörlega og Eyjólfur hvatti mig til að hringja í mömmu og systur mína og segja þeim stöðuna sem ég gerði og upplifði í kjölfarið ákveðinn létti. Eftir það gat ég hægt og rólega opnað mig um þetta við mína nánustu og vinkonur mínar sem við fengum rosalegan stuðning frá.“ 

Það er erfitt að stjórna umhverfinu og Valentína lýsir því hvernig hjarta hennar kramdist í hvert skipti sem hún sá óléttutilkynningu á samfélagsmiðlum eða hún fékk gleðifréttir frá öðrum. 

„Ég grét í hvert skipti og átti svo hrikalega erfitt með að samgleðjast, sem er ömurlegasta tilfinning í heimi. Ég er sú manneskja sem gleðst hvað mest yfir minnstu hlutum og vera komin á þann stað að geta það ekki er ólýsanlega glatað. Ég kom með allar afsakanir til að mæta ekki í steypiboð, skírnarveislu, barnaafmæli, hitta nýfædd börn. Ég bara gat það ekki.“

Valentína segir að fólk eigi alls ekki að spyrja út í fyrirhugaðar barneignir hvort sem fólk er búið að vera lengi í sambandi, stutt í sambandi eða alls ekki í sambandi. „Ég get ekki átt barn,“ svaraði Valentína til þess að forðast slíka umræðu. Svar hennar kom gjarnan flatt upp á fólk sem vissi ekki hvernig það átti að sér að vera sem Valentína segir einmitt hafa verið markmiðið. 

„Það væri best ef það væri hætt að normalisera að allar konur geta orðið óléttar og að fólk sýndi einstaklingum og pörum þá tillitsemi að vera ekki að koma með þessar spurningar, því þetta skiptir ekki máli í hinu daglega lífi.“

Valentína segir mikilvægt að tala um erfiðleikana við þá sem …
Valentína segir mikilvægt að tala um erfiðleikana við þá sem maður treystir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Héldu alltaf í vonina

Það jákvæða var að þrátt fyrir að líða svona gafst parið aldrei upp og héldu í vonina að einn daginn yrði Valentína ólétt og þau yrðu lítil fjölskylda. Eyjólfur upplifði þetta öðruvísi en kona sín. Hann hugsaði með sér að þetta væri ekki enn orðið vandamál þar sem að ekki væri búið að finna að neitt væri að. 

„Það var svo magnað hvernig hann hugsaði þetta en þegar tíminn leið þá fór þetta að taka á hann líka, en mun seinna en hjá mér,“ segir Valentína. Sem betur eiga þau Valentína og Eyjólfur gott og sterkt samband sem hjálpaði í þessu verkefni. 

„Okkur líður best þegar við erum sem mest saman. Við erum búin að yfirstíga allskonar erfiðleika saman og takast á við spennandi og erfiðar áskoranir, stærsta áskorunin var klárlega þessi vegferð að verða ólétt. Auðvitað komu upp erfiðleikar og togstreita, þar sem vanlíðan var mikil en við náðum alltaf að vinna úr hlutunum.“

Fóru að lokum í smásjárfrjóvgun

Valentína segist hafa prófað allt áður en þau fóru í smásjárfrjóvgun hjá Livio Reykjavík. Hún fór í fjölda læknisheimsókna, prófaði að taka inn töflur, breytti mataræðinu, hætti áfengisneyslu, minnkaði koffínneyslu, hreyfði sig meira og svo lengi mætti telja. Allt gekk loksins að óskum eftir að þau hófu meðferð hjá Livio. Ferlið var þó líka stressandi þar sem þau voru komin á ákveðna endastöð. 

„Við vorum það lánsöm að þurfa bara að fara í gegnum þetta ferli einu sinni og fyrsta meðferðin okkar heppnaðist. Við eigum líka eitt fallegt egg í frysti hjá þeim. Ef okkur langar í annað barn þá getum við prufað að nota það egg ef það lifir af að koma úr frystinum.

Óstjórnanleg hamingja fylgdi því að byrja loksins ekki á blæðingum og fá jákvætt þungunarpróf. 

„Þegar við fengum jákvætt próf fylltumst við af spenningi fyrir komandi tímum og áttum við ótrúlega erfitt með að leyna því að þetta hafi loksins tekist. Mig langaði helst að standa upp og öskra eins hátt og ég gæti: „Ég er loksins ólétt!“ Loksins fengi ég að upplifa að ganga með barn og finna allt það sem aðrar konur hafa verið að tala um. Meðgangan mín var dásamleg og kom mér á óvart hversu vel mér leið og litlir sem engir fylgikvillar nema rétt undir lokin. Ég er svo ofboðslega þakklát að hafa fengið tækifæri á að ganga með barn, fæða það og finna allt sem ég fann á meðgöngunni,“ segir Valentína. 

Mæðginin Valentína og Gabríel taka því rólega í kórónuveirunni og …
Mæðginin Valentína og Gabríel taka því rólega í kórónuveirunni og eru að læra inn á hvort annað. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ótrúlegt að fá soninn loksins í fangið

Hvernig var að fá loksins barnið sitt í fangið?

„Það var rosalega súrrealískt að fá hann í fangið, þrátt fyrir að hafa gengið með hann 41 viku og tvo daga. Ég eiginlega trúði þessu ekki, fór bara að hágráta á fæðingarbekknum og skildi ekkert sem var að gerast. Mögulega vegna þess að ég var úrvinda vegna svefnleysis nokkrum vikum fyrir fæðingu, mænudeyfingin virkaði bara öðru megin og fleira. Eyjólfur hins vega fylltist stolti og langaði helst að sitja sem fastast í lazyboy-stólnum, halda á honum og bara horfa á hann. Okkur finnst enn daginn í dag skrýtið að við eigum hann bara, þennan ofboðslega fallega fullkomna dreng.

Hann er tíu vikna og er hlutverkið að síga inn hægt og rólega. Það hefur verið frekar einmanalegt að geta ekki fengið heimsóknir og montað sig af fallega barninu sínu sem maður hafði svo mikið fyrir að eignast. En maður verður að taka þessu með ró og muna að þetta Covid-19 ástand mun vonandi ekki vara lengi.“

Valentína og Eyjólfur biðu lengi með að athuga hvort að eitthvað væri að. Ef ekkert gerist eftir ár þá mælir hún með því að fólk láti athuga hvort það sé eitthvað að. Hún segir að því lengri tími sem líði því verr fari manni að líða. Hún hvetur fólk einnig til þess að tala um erfiðleikana.

„Talið um þetta við þá sem þið treystið og líður vel í kringum. Ekki halda þessu inni eins og ég gerði, þið eruð ekki einar eða ein í þessu. Ég get lofað ykkur því að þið eigið eftir að komast að því að það eru mun fleiri í kringum ykkur sem hafa eða eru að fara í gegnum það sama. Einn af hverjum sjö glímir við einhvers konar ófrjósemi. Ekki láta þetta bitna á sambandinu heldur lítið á þetta sem verkefni sem par þarf að vinna að í sameiningu.“

Valentína bendir einnig fólki sem er í frjósemismeðferð eða á leið í slíkt ferli að halda eins fast í jákvæðnina og gleðina sama hvað. 

„Ég ákvað það í upphafi meðferðar að ég myndi gera allt til að halda í þetta tvennt og ekki sleppa henni. Það var krefjandi en ég er 100% viss að það hafi hjálpað mér í gegnum þetta og gert reynsluna ánægjulega.“

Valentína hvetur konur eða pör sem eru með spurningar að hafa samband við sig ef það vakna einhverjar spurningar. Hægt er að senda henni skilaboð á Instagram-síðu hennar 

View this post on Instagram

HAUSTIÐ 🍁🍂 AUTUNNO . . . . . #2monthspostpartum #autumn #reykjavik #iceland #momlife

A post shared by 𝕍 𝕒 𝕝 𝕖 𝕟 𝕥 𝕚 𝕟 𝕒 (@vtinganelli) on Oct 14, 2020 at 8:58am PDTmbl.is