„Ég trúi því að hann hafi átt að koma til okkar“

Össi, Thelma og drengirnir þeirra þrír.
Össi, Thelma og drengirnir þeirra þrír.

Thelma Björk Jónsdóttir fatahönnuður og jógakennari og Össi Árnason eignuðust dreng í sumar. Fæðingin gekk vel þar sem Thelma bókstaflega andaði barninu inn í heiminn í heitum potti. Jón Árni er nú fjögurra mánaða gamall og dafnar vel. 

Thelma varð fyrst hugfangin af jóga og hugleiðslu á fyrstu meðgöngu sinni árið 2010 þegar hún eignaðist Skorra Ísleif. Eftir það lá leiðin í kennaranám hjá Auði Bjarnadóttir. Síðan þá hefur Thelma Björk eignast þá Krumma tveggja ára og Jón Árna eins og fyrr segir. 

Jón Árni er dásamlegur lítill drengur sem kom inn í …
Jón Árni er dásamlegur lítill drengur sem kom inn í heiminn fyrir fjórum mánuðum.

„Jóga og hugleiðsla hefur breytt lífi mínu í alla staði. Það hefur gefið mér innri frið, sjálfstraust, kjark og úthald til að stíga inn í draumana mína og trúa á sjálfa mig.“

Thelma Björk hefur verið virk í kennslu frá árinu 2014 og staðið á bak við fjölda verkefna á borð við Slökun í borg, samstarfsverkefni systrasamlagsins og Reykjavíkurborgar, leitt morgunhugleiðslu á Rás 1 og er í dag jóga- og textílkennari í Barnaskóla Hjallastefnunnar í Reykjavík.

Nýtur sín í fæðingarorlofinu

Hvað ertu að fást við þessa dagana?

„Ég er fyrst og fremst að njóta mín í fæðingarorlofi með þriðja strákinn minn Jón Árna.

Svo leiði ég hugleiðslu alla miðvikudaga klukkan korter yfir níu á morgnana á netinu í Systrasamlaginu. Ég hef leitt hugleiðslu alla miðvikudaga í Systrasamlaginu síðastliðin þrjú ár. Núna á tímum kórónuveirunnar sendi ég hugleiðslurnar mínar beint af síðunni minni Andaðu með Thelmu á Instagram. Það hentar mér afar vel þar sem ég er með Jón Árna í fæðingarorlofi og get verið með hann með mér. Svo er ýmislegt annað að gerast. Ég er sem dæmi að skrifa bók um mikilvægi þess að leggja inn á sig, það er að segja hugleiða, og draga djúpt andann. Þá bók er ég búin að vera með í maganum í nokkurn tíma.

Thelma hefur verið að leiða hugleiðslu í Systrasamlaginu.
Thelma hefur verið að leiða hugleiðslu í Systrasamlaginu.

Með hverju barni hef ég lært eitthvað nýtt. Fyrst var það hvað líkaminn er stórkostlegur. Ég valdi að eiga strákana mína náttúrulega og nota öndunina og vatnið sem hjálpartæki. Það var mín leið og ég er stolt af líkama mínum og huga að hafa náð þeim árangri. Móðurhlutverkið er það mikilvægasta sem til er að mínu mati og það er gott að vera búin að vinna í sjálfri sér og vera sátt og þakklát fyrir allt sem maður hefur.

Það sem hefur komið mér kannski mest á óvart upp á síðkastið er að ég get þetta bara allt og meira til.“ 

Geturðu sagt mér eitthvað um þær uppeldisleiðir sem þú notar?

„Ég hugleiði á hverjum degi og hlusta mikið á „möntrur“ til að halda mér í góðu jafnvægi og veit vel hvað það hefur góð áhrif á mig. Ég hef hugleitt allar mínar meðgöngur svo strákarnir mínir eru vanir því að ég spili fyrir þá möntrur og hugleiði með þeim. Ég er með „playlista“  sem inniheldur möntrur og aðra slökunartónlist sem ég set á þegar við komum heim úr skólanum og það hefur mikil áhrif á andrúmsloftið á heimilinu eftir langan dag í leik- og grunnskóla.

Rútína, regla og öryggi er það sem ég notast við. Strákarnir mínir eru ólíkir með ólíkar þarfir en þeir þurfa allir á rútínu, reglu og öryggi að halda.

Thelma og Össi eru flott par.
Thelma og Össi eru flott par.

Ég er mikil rútínumóðir. Ég er líka dugleg að sinna mér og leggja inn á mig til þess að ég hafi orku og úthald fyrir verkefni dagsins. Því ef við mæðurnar erum ekki í lagi þá er ekkert í lagi.“

Barnið fætt með aukalitning

Hvað finnst þér það dýrmætasta við móðurhlutverkið?

„Það er ekki sjálfgefið að verða móðir og ég er full þakklætis fyrir strákana mína. Ég er sátt og þakklát fyrir allt sem ég hef.“

En það erfiðasta?

„Það er erfitt að missa svefn og auðvitað reynir á að eiga þrjá drengi með mismunandi þarfir en þetta er allt tímabil og galdurinn er að elska hverja mínútu, líka þær erfiðu.“

Hvernig er að vera mamma á tímum kórónuveirunnar?

„Það er yndislegt að vera kórónumamma. Ég er þakklát fyrir árið 2020 því það færði mér mikla hamingju og styrk á sömu mínútu. Jón Árni fæddist 26. júlí með einn aukalitning. Við fengum þær fréttir stuttu eftir að hann fæddist að hann væri líklega með downs-heilkenni, sem reyndist rétt.

Jón Árni er dásamlega fallegur og skemmtilegur drengur.
Jón Árni er dásamlega fallegur og skemmtilegur drengur.

Ég átti yndislega fæðingu í Björkinni þar sem ég andaði honum bókstaflega í heiminn í heitum potti. Stuttu eftir fæðingu var súrefnismettunin hans Jóns Árna ekki nógu góð og enduðum við því uppi á vökudeild þar sem við vorum í nokkra daga. 
Þar var hann skoðaður í bak og fyrir og fengum við þær óvæntu fréttir að hann væri með downs-heilkenni en hjartað, lungun og meltingarfæri hans eru hraust og heilbrigð og erum við óendanlega þakklát fyrir það. 

Þessar fréttir voru vissulega óvæntar en ekki áfall. Ég trúi því að hann hafi átt að koma til okkar og við erum stolt og full þakklætis yfir því að fá Jón Árna inn í fjölskylduna. Þannig að það að vera móðir á tímum kórónuveirunnar hefur verið lærdómsríkt og fallegt ferðalag.“

Að langa í það sem maður hefur

Ertu búin að finna eitthvað nýtt að gera með börnunum?

„Ég er mikið ein með strákana mína á virkum dögum þar sem maðurinn minn vinnur langan vinnudag. Ég held mig alltaf við sömu rútínuna á virkum dögum sem er að vakna, leika, borða, fara á leikskóla, heim aftur, baða, borða og hafa kósístund og síðan að sofa.

Þannig að strákarnir vita alltaf hvað gerist næst. Annars elskum að hlusta á tónlist, dansa, hugleiða og leika okkur. Nýjast hjá okkur er órói sem ég spila á fyrir þá og þeir elska hann. Svo snýst þetta alltaf bara um að lesa augnablikið hverju sinni og vera til staðar.“

Af hverju er mikilvægt að hugleiða og hverju skilar það þér sem móður?

„Hugleiðsla snýst að miklu leyti um að ná tengingu við sjálfan sig en þessa tengingu á fólk oft til að missa í amstri dagsins eða jafnvel þróa neikvætt samband við sjálfið. Þetta snýst um að koma heim til sjálfs sín því þegar við náum því eigum við auðveldara með að tengjast okkur sjálfum, börnunum okkar og fólkinu í kringum okkur. Fyrir mér snýst hugleiðslan að miklu leyti um að hlaða mig og vökva. Að leggja inn á andlega bankann þegar það vantar innistæðu.“

Thelma er búin að vera ánægð með árið 2020.
Thelma er búin að vera ánægð með árið 2020.

Thelma segir eina setningu frá Héðni Unnsteinssyni hafa setið í sér lengi. Það er setningin um að láta sig langa í það sem maður hefur.

Það er nóg að gera hjá Thelmu þessa dagana.
Það er nóg að gera hjá Thelmu þessa dagana.
mbl.is