„Ég þoli ekki tuð“

Íris María er farin að hlakka til jólanna þó hún …
Íris María er farin að hlakka til jólanna þó hún muni gera ýmislegt öðruvísi en áður. Ljósmynd/Saga Sig

Íris María Stefánsdóttir markaðs- og kynningastjóri Menningarhúsanna í Kópavogi er móðir þriggja orkumikilla krakka á aldrinum fjögurra ára til ellefu ára. Hún er mikið fyrir að gera skemmtilega menningarlega hluti með börnunum en á erfitt með tuð og leiðindi. 

„Nú er ég ásamt viðburðateymi Menningarhúsanna að leggja lokahönd á jóladagatal sem við ætlum að setja í loftið 1. desember. Menningarhúsin í Kópavogi hafa alltaf boðið upp á metnaðarfulla og hátíðlega dagskrá í desember en þar sem við höfum ekki tök á að bjóða fólki að koma til okkar höfum við þurft að finna upp á nýjum og skemmtilegum leiðum til að miðla menningu og núna jólastemningu til Kópavogsbúa og landsmanna allra.“

Hvað gerir þú alltaf með börnunum á jólunum?

„Þegar nær dregur jólum er það fastur liður hjá okkur að perla jólaskraut, skreyta piparkökur, búa til skrautlegt piparkökuhús og horfa á skemmtilegar jólamyndir. Ég hef undanfarin ár útbúið samverudagatal fyrir fjölskylduna og var planið að gera hið sama núna en ég hef eiginlega ákveðið að sleppa því og nota frekar jóladagatal Menningarhúsanna sem okkar fjölskyldudagatal. Þannig losna ég við stressið við að búa það til sjálf og svo er líka bara gaman að gera eitthvað sem aðrir hafa útbúið því ég á það til að endurtaka mig þegar ég útbý svona sjálf. Ég hafði þá hugsað mér að setjast niður með fjölskyldunni þegar allir eru komnir heim eftir skóla og vinnu, opna glugga dagsins og njóta fallegrar tónlistar, skapandi samveru og innblásturs úr ólíkum áttum.“

Aðhyllist þú einhverja sérstaka stefnu í uppeldi?

„Ekki beint einhverja ákveðna stefnu heldur eru bara nokkur atriði sem eru mikilvæg fyrir mig sem foreldri. Þar er efst á lista þolinmæði og gagnkvæm virðing. Ég er með þrjú dugleg börn heima og það er mikilvægt að tala saman þegar eitthvað kemur upp. „Pick your battles“ er uppáhaldsfrasinn minn en það er svo mikilvægt að maður geri sér grein fyrir því hvað skiptir höfuðmáli og sé ekki að tauta yfir óþarfa hlutum. Ég þoli ekki tuð. Svo er mikilvægt að kunna að njóta þess að vera saman.“

Hvaða máli skiptir menning fyrir börn?

„Menning skiptir öllu fyrir börnin enda er það menningin sem gerir okkur að þeirri þjóð sem við erum í dag. Menningin kennir börnum okkar um sögu sína og þjóðar sinnar. Menningin er svo mikilvæg fyrir hugmyndaflugið og sköpunargleðina, en ég held því fram að við fáum öll svo mikla útrás á okkar tilfinningum og líðan í gegnum sköpun.

Ég held að ég geti sagt að Menningarhúsin í Kópavogi séu mekka fjölskyldusamverunnar. Hér getur fjölskyldan farið og haft það huggulegt á Bókasafni Kópavogs, skoðað öll skemmtilegu dýrin á Náttúrufræðistofu Kópavogs, notið góðrar tónlistar í Salnum og átt saman skapandi gæðastundir á Gerðarsafni. Svo á sumrin er útisvæðið algjör paradís með sínum stóra ærslabelg, opnu grænu svæði, leiktækjum og svo flotta gosbrunninum fyrir krakkana að hlaupa í gegnum. Ég hlakka svo til þegar allt verður komið í samt lag og við getum farið að bjóða upp á okkar fjölbreyttu dagskrárliði og getum öll fengið það fjölbreytta menningarstarf sem er í boði beint í æð. En á meðan þá er margt í boði á netmiðlunum enda hefur menningargeirinn almennt sett mikinn metnað í það að færa fólki menningu og listir heim í stofu. Jóladagatal Menningarhúsanna verður svo birt á vef Menningarhúsanna auk facebooksíðna hvers húss fyrir sig strax á miðnætti hinn 1. desember.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert