Sagður eiga enn eitt barnið

Prins Albert og Charlene eiginkona hans.
Prins Albert og Charlene eiginkona hans. AFP

Albert prins af Mónakó er sagður eiga þriðja barnið utan hjónabands. Hann neitar alfarið sök og mun í febrúar mæta í réttarsal til þess að verjast ásökunum en meint fyrrverandi kærasta hans vill staðfesta faðernið með dna-prófi.

Albert prins greiðir meðlag með tveimur öðrum börnum sem hann átti utan hjónabands. Nú er hann sagður hafa átt í sambandi við brasilíska konu sem búsett er á Ítalíu og hún eignast dóttur árið 2005. Tímasetningin þykir einstaklega viðkvæm fyrir prinsinn því þá var Albert tekinn saman við núverandi eiginkonu sína Charlene en þau byrjuðu saman árið 2000. Hann gekkst við hinum börnunum áður en hann kynntist Charlene. 

Samkvæmt heimildum Daily Mail er prinsinn sagður hafa fengið bréf frá fimmtán ára barni sem í stóð: „Ég skil ekki af hverju ég ólst upp án föður og nú þegar ég hef fundið þig þá viltu ekki sjá mig!“

Hvorki móðirin né dóttirin hafa verið nafngreindar vegna viðkvæmrar stöðu þeirra en réttarhöldin um faðernið hefjast í febrúar í Mílanó.

Árið 2020 er sagt hafa verið erfitt fyrir Mónakóhjónin en Albert fékk kórónuveiruna fyrr á árinu auk þess sem þau hafa verið að undirbúa sig fyrir þessi réttarhöld. Þá rakaði prinsessan nýlega hluta af hári sínu og ef til vill er það til marks um álagið sem hún býr við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert