„Ó guð, ég er farin af stað“

Nicki Minaj eignaðist barn í fyrra.
Nicki Minaj eignaðist barn í fyrra. AFP

Rapp­arinn Nicki Minaj eignaðist sitt fyrsta barn með eiginmanni sínum Kenneth Petty í september. Í síðustu viku greindi hún síðan nánar frá fæðingunni en hún var heima hjá sér með manninum sínum þegar hún missti vatnið. 

„Ég var allsnakin. Var nýkomin úr sturtu og bað hann að nudda á mér bakið,“ sagði stjarnan þegar hún var spurð á Twitter hvort hún hefði misst vatnið heima og hvernig hún fór á spítalann. „Um leið og ég kom mér fyrir í rúminu hjá honum fann ég vatnið koma. Ég varð skringilega slök og sagði rólega: „Ó guð, ég er farin af stað í fæðingu.“ Hann var hræddur og ég hló að honum.“

Minaj fékk mænudeyfingu og fæddi barnið eðlilega. Hún rembdist í tvo og hálfan tíma. Í fyrstu fann hún ekki fyrir því að hún væri að rembast en þegar hún fann loks fyrir verkjum kom barnið út. 

Nicki Minaj er orðin móðir.
Nicki Minaj er orðin móðir. AFP

Hún opnaði sig einnig um brjóstagjöfina. „Hann átti ekki í neinum vandræðum með að taka brjóst. Hann festi sig við mig á spítalanum, sem kom mér á óvart. Ég var hrædd um að hann myndi ekki gera það. En brjóstagjöfin er mjög sársaukafull. Að mjólka sig er það líka. Konur láta þetta líta út eins og ekkert mál. Mömmur eru algjörar ofurhetjur.“mbl.is