Eðlilegt að upplifa ótta gagnvart hinu óþekkta

Brúðusýningin Geim-mér-ei verður frumsýnd í Þjóðleikhúsinu þann 16. janúar.
Brúðusýningin Geim-mér-ei verður frumsýnd í Þjóðleikhúsinu þann 16. janúar. Ljósmynd/Eyþór Árnason

Leikhópurinn Miðnætti, í samstarfi við Þjóðleikhúsið, frumsýnir brúðusýninguna Geim-mér-ei í Kassanum í Þjóðleikhúsinu 16. janúar næstkomandi. Sýningin hentar yngstu leikhúsgestunum einstaklega vel en hún er án orða. Sýningin fjallar um ferðalag út í geim, ævintýraþrá, áræði og óvænta vináttu. Í sýningunni er notast við blandaða brúðutækni, meðal annars japanska brúðuleikhússtílinn Bunraku. 

Vala er sex ára forvitin og uppátækjasöm stelpa með brennandi áhuga á himingeimnum. Kvöld eitt brotlendir geimskip í garðinum hennar. Vala fer um borð, kemur því á loft og á ferðalaginu kynnist hún sólkerfinu okkar, sér loftsteina og halastjörnur, svarthol og geimþokur. En geimskipið er bilað og brotlendir aftur á fjarlægri plánetu. Þar kynnist hún Fúm, geimveru sem hefur týnt geimskipinu sínu. Með samvinnu og útsjónarsemi koma þau Völu aftur heim. Þrátt fyrir að vera ólík og hafa í fyrstu verið smeyk hvort við annað myndast með þeim dýrmæt vinátta.

Í sýningunni lenda Vala og Fúm í aðstæðum þar sem þau upplifa vanmátt og hræðslu en það er allt í lagi því innra með þeim býr kraftur, sjálfstæði og hugrekki. Með leiksýningunni vilja aðstandendur sýna ungum leikhúsgestum að það er eðlilegt að upplifa ótta gagnvart hinu óþekkta. Vala og Fúm takast á við eigin fordóma, ókunnar aðstæður og uppgjöf gagnvart erfiðu verkefni. En með samvinnu má sigrast á stærstu hindrunum.

Brúður eru í aðalhlutverki í sýningunni.
Brúður eru í aðalhlutverki í sýningunni. Ljósmynd/Eyþór Árnason

Sýningin er fyrir börn frá 18 mánaða og fjölskyldur þeirra. Í sýningunni eru örfá orð notuð, en tónlistin verður að tungumáli sýningarinnar. Þess vegna hentar sýningin fyrir börn með ólík móðurmál, heyrnarskert börn og er kjörin fyrsta leikhúsupplifun.

Miðnætti hefur fest sig í sessi sem atvinnuleikhópur sem sérhæfir sig í leikhúsi fyrir börn og ungmenni. Hópinn stofnuðu þrjár listakonur, leikkonan og leikstjórinn Agnes Wild, tónlistarkonan Sigrún Harðardóttir og leikmynda- og búningahönnuðurinn Eva Björg Harðardóttir, en með hópnum starfar fjöldi listamanna. Verkefni Miðnættis hafa einkennst af fallegri og vandaðri hönnun, en einnig hafa leiklist og tónlist haldist í hendur og gegnt jafnmikilvægu hlutverki og verið í lifandi flutningi í öllum verkum Miðnættis.

Leikhópurinn Miðnætti.
Leikhópurinn Miðnætti. Ljósmynd/Eyþór Árnason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert