Barnabörn Bidens stálu senunni

Forsetinn Joe Biden ásamt Jill Biden með dóttur sinni og …
Forsetinn Joe Biden ásamt Jill Biden með dóttur sinni og barnabörnum fyrir framan styttuna af Abraham Lincoln á innsetningu forsetans. mbl.is/AFP

Margir eru á því að barnabörn Joes Bidens hafi stolið senunni við innsetningu forsetans í fyrradag þar sem þau stóðu þétt við hlið afa síns og studdu hann með ráðum og dáð. Það hefur margsinnis komið fram að Joe Biden er mikill fjölskyldumaður enda hefur hann reynt það á eigin skinni hversu dýrmæt fjölskyldan er og hversu hverfult lífið getur verið. Biden hefur eignast fjögur börn og á sjö barnabörn. Tvö af börnum Bidens eru látin, sem og fyrrverandi eiginkona hans. 

Barnabörn Bidens segja hann hringja í þau daglega og ef hann nái ekki á þau þá skilji hann eftir skilaboð. Hann hefur áhuga á að vita hvað gerist yfir daginn hjá þeim og vill segja þeim daglega að hann elskar þau.  

Biden giftist Neiliu Hunter árið 1966 og eignuðust þau þrjú börn saman; Beau (f. 1969, d. 2015), Rubert Hunter (f. 1970) og Naomi Christinu (f. 1971, d. 1972). Biden missti eiginkonu sína og dóttur í bílslysi hinn 18. desember árið 1972 þegar fjölskyldan var að gera jólagjafainnkaup. Beau og Hunter, sem voru þá þriggja og tveggja ára, lifðu af slysið. Beau fékk heilaæxli og lést af þeim sökum árið 2015.

Biden fór með lest á milli Delaware og Washington DC í níutíu mínútur daglega í 36 ár eftir slysið til að vera nálægt börnum sínum og barnabörnum. 

Seinni eiginkonu sinni, Jill Tracy Jacobs, nú Jill Biden, kynntist Biden árið 1975. Þau gengu í hjónaband árið 1977 og eignuðust dótturina Ashley Blazer saman árið 1981. 

Barnabörn Bidens þau Natalie sextán ára og Robert Hunter II 14 ára eru börn Beaus heitins. Naomi 27 ára, Finnegan 20 ára og Maisy 19 ára eru börn Hunters, elsta sonar Bidens. Hunter á einnig tvö lítil börn sem hafa fæðst á síðustu árum.

Barnabörnin hafa staðfest það að afinn hringi í þau daglega. Hann byrjar á að hringja í það elsta, Naomi, og síðan hringir hann koll af kolli í þau öll. Hann tekur því ekki illa þótt þau séu upptekin en kemur alltaf á þau skilaboðum í gegnum fjölskylduspjall sem þau eru með á samfélagsmiðlum. Þar segist hann hafa verið að reyna að ná í þau og hann sakni þeirra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert