„Ekki bera þig saman við neinn annan“

Aníta Rós Aradóttir er þjálfari í World Class á Selfossi.
Aníta Rós Aradóttir er þjálfari í World Class á Selfossi. Ljósmynd/Aðsend

Íþrótta- og heilsufræðingurinn Aníta Rós Aradóttir horfir öðruvísi augum á lífið eftir að hún varð mamma. Áður en Aníta Rós varð móðir keppti hún í fitness en það varð áskorun fyrir hana að horfa upp á líkamann breytast á meðgöngunni. Fyrst varð hún hrædd en svo gerðist eitthvað innra með henni og þá sá hún breytingarnar í öðru ljósi. 

Aníta er gift Elmari Eysteinssyni og eiga þau saman tvö börn, þau Aríu Dís sem er tveggja og hálfs árs og Rökkva Stein fjögurra mánaða. Hún er þjálfari í World Class á Selfossi og eigandi Fitlíf.is.

Hvernig hefur það breytt þér að verða móðir?

„Fyrir utan misstór brjóst og slakari grindarbotn horfi ég öðrum augum á lífið eftir að ég varð mamma. Maður sér hvað raunverulega skiptir máli í lífinu og það eru börnin. Þótt það geti oft verið erfitt þá finnst mér það besta hlutverk í heimi.“

Hvernig voru meðgöngurnar?

„Fyrri var alveg frábær en sú seinni var erfiðari vegna veikinda, fékk heilahimnubólgu rétt áður en ég varð ólétt svo það tók sinn toll.“

Aníta Rós og Elmar eiga dótturina Aríu Dís og soninn …
Aníta Rós og Elmar eiga dótturina Aríu Dís og soninn Rökkva Stein. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig hefur verið að takast á við þær andlegu áskoranir að sjá líkama sinn breytast á meðgöngu og eftir þær? Hvaða breytingum tókstu helst eftir? 

„Líkaminn breytist svo mikið á meðgöngu og ég man að áður en ég varð ólétt að fyrra barni hræddu þessar breytingar mig svolítið en svo gerðist eitthvað innra með mér. Skyndilega var líkaminn farinn að gegna því magnaða hlutverki að ganga með og fæða barnið mitt, þá sá ég þetta í öðru ljósi. Ég upplifði svo mikið þakklæti og ást á líkamanum fyrir að geta þetta að ég vildi bara gera það allra besta fyrir hann.

Sama gilti eftir fæðingu, vissulega hafði spegilmyndin breyst gríðarlega og mér fannst ég nánast ekki þekkja líkama minn en hugurinn var svo innstilltur á það að ég væri fullkomin eins og ég var hverja stundina að ferðalagið að því að koma mér í formið sem ég var í fyrir barnsburð var mjög skemmtilegt.

Að rækta líkama og sál, borða hollan og næringarríkan mat og ná markmiðum er svo miklu auðveldara og ánægjulegra ef maður elskar sig frekar en að gera þessa hluti með niðurrif sem drifkraftinn.“

Aníta Rós keppti í fitness fyrir nokkrum árum.
Aníta Rós keppti í fitness fyrir nokkrum árum. Ljósmynd/Aðsend

Ertu með góð ráð fyrir verðandi mæður til þess að takast á við slæma líkamsímynd eftir meðgöngu?

„Ekki bera þig saman við neinn annan og setja óraunhæfar kröfur á þig. Mundu að engar tvær meðgöngur eða konur eru eins. Frekar en að einbeita sér að því koma sér í eitthvert X form skaltu leggja áherslu á að rækta líkama og sál til að líða vel, hitt kemur svo bara með kalda vatninu.
Mig langar að enda þetta með því að hvetja ykkur öll til að virkilega hugsa um það hvað líkaminn ykkar er magnaður, frábær og fallegur!

Leggjum rækt við að elska líkamann í allri sinni mynd. Elskum hann eins og hann VAR einu sinni, eins og hann er núna og eins og hann verður í framtíðinni. Fyrst þá getum við gefið honum það sem hann á skilið og leyft honum að blómstra í hamingju og heilbrigði.
Oftast er það svo þannig að því meira sem við elskum hlutina því betur hugsum við um þá.“

Aníta Rós æfði alla fyrri meðgönguna sína en þurfti að …
Aníta Rós æfði alla fyrri meðgönguna sína en þurfti að fara aðeins varlega á þeirri seinni. Ljósmynd/Aðsend

Æfðir þú á meðgöngu?

Já, ég æfði alla fyrri meðgönguna en þurfti að fara aðeins varlega á þeirri seinni.

Hvenær fórstu að æfa aftur eftir meðgöngurnar?

„Ég byrjaði að æfa um þremur vikum eftir fæðingu, en mikilvægt er að byrja mjög rólega og ekki gera neitt sem er óþægilegt. Það tekur líkamann tíma að ganga til baka og mikilvægt er að gefa honum rými til þess og hlusta á hann.“

Hvað er það mest krefjandi við að verða móðir?

„Mest krefjandi er svefnleysið og að vera ekki með fleiri hendur þegar bæði börn vantar mömmu.“

En það besta?

„Það er svo margt, þessi litlu einlægu knús bræða mann í hvert einasta skipti. Það eru algjör forréttindi að fá að fylgjast með börnunum sínum vaxa og dafna.“

Mömmulífið er erfitt en þess virði.
Mömmulífið er erfitt en þess virði. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert