Mónakófursti segir tvíburana mjög ólíka

Charleneprinsessa, Albert Mónakófursti, Jacques og Gabríella í nóvember 2019.
Charleneprinsessa, Albert Mónakófursti, Jacques og Gabríella í nóvember 2019. AFP

Albert II Mónakófursti er stoltur tvíburafaðir. Í viðtali við konunglega útgáfu af People segir Mónakófurstinn systkinin vera mjög ólík þrátt fyrir að vera tvíburar. Erfinginn Jacques heldur sig meira til hlés en tvíburasystir hans Gabríela. 

„Jacques er aðeins feimnari og rólegri en hann getur líka sagt margt mjög fyndið,“ segir Albert um son sinn. „Hann tekur vel eftir og elskar að grandskoða aðstæður.

Gabríela prinsessa er hins vegar opnari og getur talað endalaust. Hún er persóna sem elskar að dansa og syngja. Henni finnst lítið mál að koma fram fyrir fólk.“

Tvíburarnir fögnuðu sex ára afmæli í desember í fyrra. Eins og svo margir aðrir krakkar um allan heim hafa þau verið í heimakennslu vegna kórónuveirufaraldursins en Albert fursti segir stærðfræðiverkefnin þeirra enn sem komið er frekar létt. Hann segir börn sín forvitin um landafræði og vísindi. „Við gengum í gegnum tímabil þar sem þau vildu vita allt um höfin og pláneturnar og allt sólkerfið,“ sagði Albert. 

Albert og Charlene við skírn tvíburana.
Albert og Charlene við skírn tvíburana. AFP
mbl.is