Archie stal senunni í Opruh-viðtalinu

Meghan og Archie úti að leika á strönd.
Meghan og Archie úti að leika á strönd. Skjáskot/Twitter

Harry Bretaprins og Meghan hertogaynja sögðu frá erfiðu lífi innan bresku konungsfjölskyldunnar í viðtali við Opruh á sunnudaginn. Það var þó krúttlegi sonur þeirra sem stal senunni. Á myndskeiði sem fylgdi viðtalinu mátti sjá Archie hlaupa um áhyggjulausan á strönd í fylgd foreldra sinna. 

Archie sem eignast litla systur í sumar nýtur þess greinilega að eiga foreldra sem eru frjálsari en þegar hann fæddist fyrir tæpum tveimur árum. Harry segir Archie fá meira frelsi en hann fékk sjálfur þegar hann var lítill prins í Bretlandi. 

„Að vera með útisvæði þar sem ég get farið í göngutúra með Archie og við förum í gönguferðir sem fjölskylda með hundunum okkar. Þú veist, við förum í fjallgöngur eða niður á strönd sem er rétt hjá,“ sagði Harry Opruh að því fram kemur á vef People

„Hápunkturinn er að festa hann aftan á hjólið mitt í litla barnastólinn sinn og fara með hann í hjólaferðir. Það er eitthvað sem ég gat ekki gert þegar ég var yngri,“ sagði Harry. Harry segir son sinn spjalla mikið þegar þeir feðgar hjóla saman. Archie bendir á það sem hann sér og eru orð á borð við pálmatré og hús í orðaforða drengsins. 

Archie verður tveggja ára í maí og er duglegur að bæta við nýjum orðum. Hann segir til dæmis alltaf akið varlega þegar fólk yfirgefur heimilið. 

mbl.is