„Í mínu hjarta er það að eiga trú að eiga lífsvon“

Sr. Hjörtur Magni Jóhannsson er prestur í Fríkirkjunni.
Sr. Hjörtur Magni Jóhannsson er prestur í Fríkirkjunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hjörtur Magni Jóhannsson forstöðumaður og prestur Fríkirkjunnar við Tjörnina fær innsýn inn í líf ungmenna í gegnum fermingarfræðsluna. Hann segir unglingsárin ekki bara spennandi heldur reynist þau mörgum verulega erfið líka. 

Hjörtur Magni Jóhannsson sinnir prestsstörfum í tíu þúsund manna söfnuði sem er dreifður um allt landið. Það er mikið um bókanir þessa dagana á athöfnum sem hefur þurft að fresta vegna kórónuveirunnar.

Hvað er áætlað að margir fermist í kirkjunni í ár?

„Fjöldi fermingarbarna verður í kringum sextíu talsins. Fyrirkomulagið hjá okkur er mjög sveigjanlegt. Fjölskyldur velja fermingardaginn og ungmenni eru að bætast við langt fram á haustið. Fermingarbörnum hefur frekar fjölgað en hitt.“

Mannréttindi skipta máli

Hjörtur Magni segir að nálgunin hjá þeim sé að bjóða upp á víða og opna trúarlega nálgun.

„Mannréttindi og umhverfisvernd eru okkur mikilvæg. Þessar áherslur hafa laðað ungmenni og foreldra þeirra til okkar.“

Hvað leggur þú áherslu á í fermingarfræðslunni?

„Í fræðslunni leggjum við meðal annars áherslu á víða og jákvæða kristna lífssýn, lífsleikni, náttúruvernd og mannréttindi í ríkum mæli. Við leggjum áherslu á að þau viti að þau eru elskuð af kærleiksríkum Guði nákvæmlega eins og þau eru. Þau þurfa ekkert að breyta sér fyrir hann og hann þekkir þau jafnvel betur en þau gera sjálf. Við hvetjum ungmennin til að kynna sér málefni líðandi stundar og í framhaldi af því að hugsa skapandi og af ábyrgð því að þeirra er framtíðin! Við kennum þeim auðvitað grundvallaratriði kristinnar trúar og hvetjum þau um leið til að vera frjó og skapandi en ekki þeir neytendur sem afþreyingar-iðnaðurinn vill þvinga þau til að vera. Þau mega ekki og eiga ekki að vera óvirkir og sljóir neytendur heldur miklu fremur taka ábyrgð á sínu lífi og sinni framtíð sem þau sjálf eiga að móta.“

Það gefur honum mikið að vinna með fermingarbörnum.

„Við höfum upplifað að ungmenni okkar eru að verða mun meðvitaðri um sína eigin velferð, framtíð og það umhverfi sem þau fá í arf frá okkur, þeim sem eldri erum og þykjumst allt vita. Við eldri kynslóðin erum ekki að skila góðu búi hvað náttúruna og umhverfið varðar. Þau gera sér í æ ríkari mæli grein fyrir þessu og það er dásamlegt. En nú er það okkar sem eldri erum að efla þau og aga til að þau nái að skila keflinu áfram til þar næstu kynslóðar. Hér skiptir boðskapur Krists um náungakærleikann verulegu máli og þar með samfélagsábyrgðin gagnvart öllum jarðarbúum og ráðsmennskan gagnvart öllu lífríkinu.“

Það verða í kringum sextíu börn sem fermast í Fríkirkjunni …
Það verða í kringum sextíu börn sem fermast í Fríkirkjunni um þessar mundir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Andlega sinnaður en ekki bókstafstrúar

Hvað hafa þau fram að færa sem við ættum að varðveita?

„Fermingarungmennin eru jú vissulega ómótuð og á verulegum tímamótum á sinni lífsvegferð. En þau hafa ómældan lífskraft til að móta sína heilbrigðu lífssýn, þau hafa þor, djörfung og þrótt til að búa mun betur að sinni kynslóð en við, hin eldri, höfum gert. Við hin eldri höfum klúðrað æði mörgu. Þau hafa fyrirmyndir eins og umhverfisaktívistann hina sænsku Gretu Thunberg sem hefur verið fyrirmynd tugmilljóna ungmenna víða um heim. Þau bera einfaldlega hag heimsins fyrir brjósti því að framtíðin er jú þeirra.“

Hvað getur þú sagt mér um trú þína?

„Ég ólst upp í umhverfi bókstafstrúar en þar var vissulega velviljað fólk. Ég kynntist af eigin raun þeim neikvæðu hlutum sem komið hafa óorði á trú og trúrækni. Ef einhver telur sig trúaðan í dag, þá telst hann þröngsýnn og einstrengingslegur. Ég tel mig eins og sirka 95% þjóðarinnar andlega sinnaðan en ekki eftir uppskrift hefðbundinna trúarstofnana. Ég tengi trú mína við þann víðsýna Jesú Krist sem fór þvert gegn vilja ríkjandi trúarstofnana. Í mínu hjarta er það að eiga trú að eiga lífsvon. Það að eiga trú er að eiga sjálfum sér, öllum börnum jarðar sem og lífríkinu í heild sinni von um betri tíð. Það er í mínum huga að vera trúaður. Lífsvon og trú er hið sama.“

Vitundin um æðri mátt kveikti trúna

Hefurðu alltaf verið trúaður, eða er eitthvert atvik eða annað sem gerðist sem kveikti trúna í þér?

„Líklegast var það réttlætiskenndin og vitundin um æðri mátt sem kveikti trú mína. Ég ólst upp í umhverfi bókstafstrúar, en síðan víkkaði mín trúarlega sýn og það sem betur fer. Það gerðist einkum eftir að ég var rúm tvö ár við háskólanám í trúarbragðafræðum í Jerúsalem, borginni helgu fyrir botni Miðjarðarhafs þar sem þrjár stóru eingyðistrúarhefðirnar samtengjast; gyðingdómur, kristni og íslam. En víða í heiminum í dag er bókstafshyggja og trúaröfgar ekki aðeins innan kristninnar heldur einnig innan annarra trúarbragða orðin að verulegu vandamáli í samfélögum.“

Hann segir ekki hægt að skilgreina Guð eðli sínu samkvæmt.

„Við notum orð og orðasambönd; Guð er hið góða innra með þér, óháð kyni; hann, hún, hán, þín æðri vitund, þitt innra sjálf, ljósið sem lýsir gegnum allt myrkrið. Úr trúarhefðunum höfum við hugtök sem lýsa hans eðli svo sem kærleikur, réttlæti, miskunnsemi, fyrirgefning og samhygð. Það er einmitt þegar menn ætla að toga almættið niður á sitt plan og nota til aðgreiningar, mismununar og tengja við þröngsýna þjóðerniskennd sem voðinn er vís. Sá Guð sem ég leitast við að fylgja af veikum mætti er ofar öllum útilokandi múrum, ofar þröngsýnni þjóðerniskennd og ofar trúarbrögðum þegar þau eru misnotuð. Svona hluti reynum við sem dæmi að ræða í fermingarfræðslunni og þar þurfa alls ekki allir að vera sammála.“

Að játast hinu góða

Hvaða texti í biblíunni talar til þín núna?

„Þeir eru tveir sem koma mér helst í hug. Sá fyrri er úr fyrsta Jóhannesarbréfi, og er ein mikilvægasta setning Biblíunnar: „Guð er kærleikur og sá sem er stöðugur í kærleikanum er stöðugur í Guði.“ Sá síðari er hvatningarorð til fermingarungmennanna og er að finna í fyrra Tímóteusarbréfi Nýja testamentisins þar sem segir: „Lát engan líta smáum augum á æsku þína en ver fyrirmynd trúaðra í orði og hegðun, í kærleika, trú og hreinlífi.““

Áttu ráð fyrir foreldra sem eru að láta ferma í fyrsta skiptið í ár?

„Ég hvet alla foreldra fermingarungmenna til að taka þátt í þessu mikilvæga ferli sem fermingin er. Það er mikilvægt að við hvetjum þau og eflum í þessari ákvörðun sem þau taka og þá mun hún einnig hafa varanleg áhrif til góðs í lífi þeirra. Því unglingsárin eru ekki bara spennandi heldur reynast þau mörgum verulega erfið. Á fermingardaginn þegar fermingarungmennið okkar játar því að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins, þá erum við öll að játast hinu góða, uppbyggilega og fagra.“

Hann segir lífsvon og trú hið sama.
Hann segir lífsvon og trú hið sama. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert