Veldur skaða sem erfitt er að bæta

Sitt sýnist hverjum um Barbie.
Sitt sýnist hverjum um Barbie. barbie.com

Ný rannsókn segir að erfitt sé að breyta viðhorfum stúlkna gagnvart líkamsmynd eftir að hafa kynnt þeim dúkkur á borð við Barbí.

Margar rannsóknir í gegnum tíðina hafa sýnt fram á að Barbie-dúkkan hefur neikvæð áhrif á sjálfsmynd ungra stúlka og þá sérstaklega gagnvart líkama þeirra. Þrátt fyrir það selst dúkkan enn mjög vel um allan heim.

Rannsóknin, sem birtist í rannsóknarritinu Body Image, beindi sjónum að stúlkum á aldrinum fimm til níu ára. Þær fengu tvær dúkkur með óraunverulegan líkama, Barbie og Monster High. Svo fengu þær venjulegri dúkkur, Dóru og Lottie. 

Í ljós kom að það að leika sér með Barbie- og Monster High-dúkkurnar breytti viðhorfum stúlknanna og þeim fannst grennri dúkkurnar hafa hið fullkomna líkamsform. Þá vakti það athygli að það að gefa þeim venjulegri dúkkur breytti ekki þessum viðhorfum. Hins vegar varð viðhorf þeirra til ólíkra líkama hins vegar jákvæðara, sem þótti gott merki. 

„Það sem við getum lært af þessari rannsókn er að það er góð hugmynd að forða börnum frá því að leika við dúkkur sem eru of mjóar og fullorðinslegar og halda sig við dúkkur sem líkjast börnum,“ segir Renee Engeln, prófessor við Northwestern-háskólann.

„Stúlkur fá margs konar skilaboð frá fjölskyldumeðlimum og öðrum börnum um það hvernig líkami á að líta út. Hvert lítið skref í átt að breytingum um hvernig skilaboð börn okkar fá skiptir máli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert